Gríðarleg umræða hefur skapast um áformaða hækkun veiðigjalda en óhætt er að segja að um umdeilt mál sé að ræða. Veiðigjöldin voru fyrst sett á árið 2012 og í dag er sjávarútvegurinn eini geirinn sem greiðir gjöld fyrir nýtingu auðlinda.
Segja má að umræða um málið hafi hafist af alvöru í kringum aldamótin en árið 1998 samþykkti Alþingi að kjósa níu manna nefnd sem hefði það hlutverk að fjalla um auðlindir sem voru eða kynnu að verða þjóðareign.
Mögulegu auðlindirnar sem voru nefndar í þingsályktunartillögu voru „öll verðmæti í sjó og á hafsbotni innan efnahagslögsögu, svo og í almenningum, afréttum og öðrum óbyggðum löndum utan heimalanda, námur í jörð, orku í rennandi vatni og jarðhita.“
„Nefndin skilgreini þessar auðlindir á skýran hátt og hvernig skuli með þær farið. Nefndin kanni einnig hvernig staðið skuli að gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í sameign þjóðarinnar, með hliðsjón af þeim gjöldum sem fyrir eru. Nefndin kanni möguleika á að nota auðlindagjald til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér á réttmætan hátt til þeirra sem hagsmuna hafa að gæta.
Um verði að ræða hóflegt gjald sem varið verði til að standa undir rannsóknum og til að stuðla að vernd og sjálfbærri nýtingu auðlindanna og réttlátri skiptingu afrakstursins, m.a. til að styrkja byggð í landinu,“ sagði í þingsályktunartillögu um skipun nefndarinnar.
Umtalsverðar tekjur undir
Auðlindanefndin skilaði álitsgerð til Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, árið 2000 og sagði brýnt að mótuð yrði samræmd stefna og stjórn á nýtingu náttúruauðlinda sem skapi heilsteyptan lagaramma um hlutverk og ábyrgð ríkisins á ráðstöfun og nýtingu náttúruauðlinda.
Hvað vatnsafl, jarðhita og námur, auðlindir á eða undir sjávarbotni, og mögulega rafsegulbylgjur til fjarskipta varðar sneru tillögur nefndarinnar aðallega að því að ríkið myndi selja nýtingarréttindi á þjóðlendum en slík réttindi yrðu seld á uppboði til að fá fullt markaðsverð.
Tillögur sem sneru að nytjastofnum á Íslandsmiðum voru aðrar en lagt var til að gjaldtaka yrði ákveðin með hliðsjón af afkomuskilyrðum og uppbyggingu sjávarútvegsins. Tvær leiðir kæmu þar til greina; annars vegar fyrningarleið sem byggðist á því að allar aflahlutdeildir yrðu skertar árlega um fastan hundraðshluta en síðan yrðu þær endurseldar á markaði eða með uppboði. Hins vegar var um að ræða veiðigjaldaleið sem fæli í sér beina gjaldtöku ásamt ákvæðum um að breytingar á aflahlutdeildum krefðust ákveðins lágmarksaðdraganda.
Loks sagði nefndin að fyrirséð væri að ef tekin yrðu upp gjöld af auðlindum í þjóðareign myndi það gefa umtalsverðar tekjur. Margt mælti með því að hluti þeirra tekna myndi ganga til að mynda sjóð sem almenningur myndi eiga aðild að og varið yrði til að efla þjóðhagslegan sparnað og uppbyggingu.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.