Allt virðist stefna í að það komi til skerðinga á raforku í vetur vegna slæmrar vatnsstöðu en gripið hefur verið til skerðinga síðustu þrjú ár í röð. Meðal þeirra sem hafa þurft að glíma við skerðingar eru álverin.
Guðrún Halla Finnsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Norðuráli, segir ekki sé víst hvað verði á komandi vetri. Þó blasi við að staðan í lónum Landsvirkjunar sé verri en á fyrri skerðingarárum og því bendi allt til að skerðingar verði aftur raunin. Raungerist það megi ætla að áhrifin verði svipuð og síðasta vetur.
„Þá þurfum við að draga úr framleiðslu. En eins og ég segi, það er ekkert víst fyrir
veturinn en ég held að þetta sé bara veruleiki fyrir mörg íslensk fyrirtæki, að það er verið að klípa af framleiðslunni og þá framleiðni hjá mjög mörgum fyrirtækjum.“
Utan Landsvirkjunar á Norðurál í viðskiptum við hin stóru orkufyrirtækin, þ.e. Orkuveituna og HS Orku, en það komi upp á hverju ári kringumstæður þar sem umrædd fyrirtæki þurfa að grípa til skerðinga.
„Þá grípum við oft til þess að kaupa frá Landsvirkjun upp í þær skerðingar svo við getum haldið framleiðslunni hjá okkur í fullum afköstum. Þegar það er engin umframorka til sölu hjá Landsvirkjun, þá er ekkert annað að leita. Markaðurinn í heild sinni er mjög tæpur myndi ég segja,“ segir Guðrún Halla.
Þá sé ástandið í raforkumálum ekki gott til lengri tíma litið og telur Guðrún Halla að staðan yrði áfram erfið jafnvel þó að vatnsstaða lóna Landsvirkjunar væri góð.
„Ég held að við Íslendingar séum svolítið búin að búa til þessa stöðu sjálf, sem er frekar leiðinlegt af því að þetta var fyrirsjáanlegt og margir aðilar búnir að vara við þessu í mörg ár. Það er svolítið grátlegt að við séum komin á þennan stað.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.