Það kannast ekki margir við hugtakið lagareldi. Enda er um nýyrði að ræða sem sprottið er úr þeim frjóa jarðvegi sem matvælaráðuneytið undir forystu Svandísar Svavarsdóttir er orðið. Lagareldi er samheiti sem nær til eldis sjó og landi og einnig til þörungaeldis.

Eins og flestir vita hefur verið mikill uppgangur í fiskeldi hér á landi undanfarna áratugi. Umsvifamikið sjókvíaeldi er stundað á Vestfjörðum og Austfjörðum og er fyrirséð að uppbyggingin mun halda áfram og á fleiri stöðum á landinu. Þrátt fyrir að landeldi hafi verið stundað hér á landi í langa hríð með góðum árangri hefur það ekki fengið jafn mikla athygli í umræðunni. Þannig er kröftugt landeldi á Reykjanesi og fyrir norðan og stórtæk áform um uppbyggingu landeldis í Ölfusi.

Í þessu felast miklir möguleikar og því leituðu stjórnvöld til ráðgjafarfyrirtækisins Boston Consulting enda eru fáir gleggri þegar kemur að greiningu tækifæra og áskorana. Í greiningu BC sem kom kynnt var í byrjun marsmánaðar kemur meðal annars að miðað við grunnsviðsmynd ráðgjafarfyrirtækisins mun heildarsöluverðmæti afurða eldisiðnaðarins á Íslandi nema 242 milljörðum eftir tíu ár eða sem nemur 6% af landsframleiðslu. Söluverðmæti eldisiðnaðarins nam 44 milljörðum árið 2021.

Nú starfa ríflega tvö þúsund manns í eldisiðnaðinum en gangi grunnspá BC eftir verða störfin orðin um sjö þúsund árið 2032. Skattspor eldis verður einnig djúpt ef spárnar ná fram að ganga um 3% af heildarskatttekjum ríkisins eftir tíu ár.

Grunnsviðsmyndin, sem talin er líklegust, gerir hins vegar ráð fyrir styrkingu regluverks og auknu eftirliti, auk þess sem tækniþróun, bættur rekstur og meira fjármagn stuðli að auknum vexti. Tilraunaverkefni í úthafseldi nái árangri og stórþörungaeldi verði umfangsmikið.

Fiskeldi í lykilhlutverki

Í skýrslunni er lögð áhersla á að lagareldi muni gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að aukinni próteinframleiðslu samhliða fjölgun jarðarbúa og meiri velmegun. Eftir því sem millistéttin stækkar búast skýrsluhöfundar við að eftirspurn eftir fiskprótíni aukist hraðar en almenn eftirspurn eftir mat. Framleiðsla sjávarútvegs á heimsvísu hefur ekki aukist síðan snemma á öldinni og hefur líklega náð sjálfbærum þolmörkum. Því er að öllum líkindum ekki hægt að mæta aukinni eftirspurn eftir fiskprótíni á næstu áratugum án fiskeldis. Eldislax hefur að stórum hluta mætt þessari auknu eftirspurn. Sögulega hefur aukning í lagareldi laxfiska verið mest í Noregi, Síle, Skotlandi og Færeyjum, fjórum stærstu framleiðendunum á heimsvísu. Þrátt fyrir mikinn vöxt síðan 2016 er Ísland enn aðeins með um 2% hlutdeild í heimsframleiðslu í laxeldi.

Og þarna sjá skýrsluhöfundar mikil tækifæri bæði í landeldi og sjókvíareldi. Þeir segja náttúrulegar aðstæður til sjókvíaeldis vera hagstæðar þó svo að hafið kringum Ísland sé alla jafna kaldara en við strendur stærstu framleiðenda í sjókvíareldi. Gert er ráð fyrir að Ísland geti nær tvöfaldað framleiðslu í sjókvíaeldi innan núverandi regluverks. Frekari vöxtur væri studdur með því að styrkja regluverk og auka umfang aðfangakeðjunnar. Bent er á að ólíkt öðrum laxeldislöndum er litlar takmarkanir á framtíðarvexti sjókvíareldis. Í samkeppnislöndunum eru náttúrulegar takmarkanir eins og í Noregi þannig að framþróun þar verður fyrst og fremst knúin áfram af aukinni skilvirkni.

Náttúrulegt forskot Íslands

Sjókvíaeldi er þrautreynt en ekki verður það sama sagt um landeldi eins og fram kemur í skýrslunni. Eigi að síður segja skýrsluhöfundar að standist kenningar um aukinn vaxtahraða og bætt heilbrigði sjávarfangs í landeldi gæti framleiðni þess orðið meira en í sjókvíaeldi þegar fram í sækir. Minni náttúrulegar skorður geta einnig leitt til mikillar framleiðslugetu til að mæta aukinni eftirspurn á tímamótum sem farið er að þrengja að framleiðsluaukningu í sjókvíaeldi.

Skýrsluhöfundar segja Ísland muni búa við viðvarandi samkeppnisforskot í þessum efnum. Ódýr orka og hrein orka skiptir hérna sköpum óháð öðru.  Kostir Íslands og reynsla af landeldi, ásamt því hve þróun landeldis á heimsvísu er skammt á veg komin, geta skapað tækifæri fyrir Ísland til að taka forystu í greininni. Landeldi gæti jafnvel orðið enn betri kostur til fiskeldis ef breytingar á regluverki í framtíðinni gera sjókvíaeldi óhagstæðara frá sjónarhorni framleiðenda.

Þrátt fyrir að landeldi hafi lengið verið stundað hér á landi hefur það verið í litlu magni rétt eins og á heimsvísu. Enn sem komið er stendur landeldi aðeins undir 0,3% af öllu fiskeldi í heiminum. En eins og bent er á í skýrslunni eru tækifærin sannarlega til staðar.

Bleikjueldi hefur gefist vel hér á landi og sama má segja um tegundir á borð senegalflúru  sem er ræktuð á Reykjanesi. Sem kunnugt er þá eru fjögur fyrirtæki með stórfelld áform um landeldi á laxi hér á landi en tilraunaverkefni í þeim efnum hafa gefið góða raun.  En skýrsluhöfundar segja að enn hafi ekki enn verið sýnt fram á að mögulegt og hagkvæmt sé að ala lax á landi í því magni sem ráðgert er á Íslandi.

Skýrsluhöfundar segja að kostir Íslands og reynsla af landeldi, ásamt því hve þróun landeldis á heimsvísu er skammt á veg komin, geti skapað tækifæri fyrir Ísland til að taka forystu í greininni. Landeldi gæti jafnvel orðið enn betri kostur til fiskeldis ef breytingar á regluverki í framtíðinni gera sjókvíaeldi óhagstæðara frá sjónarhorni framleiðenda.

Umfjöllunin birtist í sérblaðinu SFS: Auður hafsins - lífskjör framtíðar, sem kom út fimmtudaginn 23. mars 2023. Áskrifendur geta lesið hana í heild hér.