Við viljum beina sjónum að því hvernig hægt er að virkja þessa dýrmætu og ótakmörkuðu auðlind, sem er hugverkið.

Við viljum beina sjónum að því hvernig hægt er að virkja þessa dýrmætu og ótakmörkuðu auðlind, sem er hugverkið.

Þegar litið er til baka hafa stórhuga hugmyndir og ákvarðanir, sem voru á þeim tíma oft erfiðar og umdeildar, leitt til mikilla framfara. Það er hægt að vísa í margt í því tilliti, hvort sem það var uppbygging á orkuinnviðum, sem snerist um að beisla jarðhitann, virkja vatnsafl og búa til meira virði úr náttúruauðlindum okkar, eða að útvíkka fiskveiðilögsöguna sem hefur skilað miklum ávinningi fyrir þjóðarbúið og samfélagið allt. Yfirskrift Iðnþingsins í ár fangar það sem við viljum koma til skila og fjalla um í sögulegu ljósi, þ.e.a.s. hvernig hugmyndir hafa orðið til, þroskast og skilað miklum þjóðhagslegum ávinningi, og einnig horfa til framtíðar,“ segir Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins (SI).

Yfirskriftin á 30 ára afmælisþingi SI er Hugmyndalandið – dýrmætasta auðlind framtíðarinnar. Árni segir margt kalla á að það þurfi að taka fleiri stórar ákvarðanir í nútímanum og náinni framtíð. Þar séu orkumálin sérstaklega aðkallandi og segir Árni stöðu þeirra mjög alvarlega.

„Það sem opnaði þessa umræðu [um orkumál] á ný voru metnaðarfull markmið stjórnvalda í loftslagsmálum sem sett voru fyrir nokkrum árum og eru í línu við markmið annarra landa. Þetta kallaði á ítarlega greiningu á því hvar við stöndum í þessum málum, m.a. hvað varðar orkuskipti. Fólk taldi að Ísland væri í forystu í framleiðslu á grænni orku í samanburði við flest önnur lönd og hér þyrfti því ekki miklu að breyta svo markmiðunum yrði náð. En eftir greiningu SI á stöðunni kom í ljós að við höfum í raun stóraukið innflutning á jarðefnaeldsneyti á síðustu árum á meðan mjög lítið hefur verið aflað af nýrri grænni orku á síðustu 10-15 árum. Raforka er uppseld í landinu sem gerir það að verkum að við getum ekki ráðist í verkefni sem við viljum fara í út frá orkuskiptum, eða nýjum vaxtatækifærum, sérstaklega í orkugeiranum. Þar má nefna ýmis græn verkefni sem myndu byggja undir framtíðarhagvöxt og lífskjör þjóðarinnar.“

Í neyðarástandi verður nýsköpun hraðari

Spurður hvað þurfi að gerast til að farið verði í aðgerðir í orkumálum segir Árni þurfa aukna samstöðu, stefnumörkun og þor til ákvarðana. Horfa þurfi til mismunandi leiða til orkuöflunar.

„Evrópa hefur tekið stór skref í orkuöflunarmálum vegna þeirrar orkukreppu sem þar skall á í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Þar hefur fólk verið snöggt að finna nýjar leiðir til að afla orku í krísu, en við höfum sofið á verðinum allt of lengi og ekki verið nógu dugleg að skoða þá kosti sem eru í boði. Í neyðarástandi verður nýsköpun hraðari. Staðreyndin er sú að við þurfum meiri raforku hvort sem það er gert með vatnsafli, jarðhita, vindorku, sólarorku eða með því að virkja sjávarföllin, sem er þó lausn sem er fjær okkur á sjóndeildarhringnum. Það eru fleiri kostir og möguleikar á borðinu en fyrir tíu árum síðan og það þarf að skoða gagnrýnum augum hvernig við ætlum að afla orkunnar. Sem betur fer hefur orkumálaráðherra verið öflugur talsmaður þess að fara hratt í aðgerðir, og það hillir undir jákvæðar breytingar með erfiðum en aðkallandi ákvörðunum. En það virðist þurfa meira til. Aukin samstaða, skýr stefnumörkun í þessum málaflokki og ekki síst að framkvæmdarvaldið – stjórnkerfið – gangi í takt við vilja meirihluta Alþingis og þjóðarinnar. Þá fyrst náum við fram nauðsynlegum breytingum.“

Sterkara flutningskerfi

Hann segir eðlilegt að mismunandi skoðanir takist á í lýðræðissamfélagi, en það megi ekki hamla nauðsynlegum framförum. Þó að virkjanaframkvæmdir dragist á langinn ætti að minnsta kosti að vera hægt að fullnýta þá orku sem hefur nú þegar verið virkjuð með öflugra flutningskerfi.

„Þetta snýr ekki bara að höfuðborgarsvæðinu heldur þarf að tengja öll horn landsins. Við erum í góðu sambandi við félagsmenn okkar um land allt sem deila með okkur sögum af ástandinu, t.a.m. á Vestfjörðum þar sem hefur verið viðvarandi orkuskortur í langan tíma og illa gengur að koma almennilegu rafmagni þar á og dreifa þangað sem þörfin kallar á. Við horfum líka upp á hluta flutningskerfisins drabbast niður og því miður hefur viðhaldi ekki verið sinnt nægilega vel og landshlutar ekki tengdir nógu hratt saman. Talið er að um 10% sóun sé í kerfinu, svokallaður leki, þar sem ekki næst að nýta alla þá orku sem við höfum virkjað. Það eitt og sér er sorgleg staðreynd þegar orkuskortur er til staðar og skerðingar reglulegri en áður. Því tel ég mjög mikilvægt sem skammtímaaðgerð á þessum tímapunkti að fjárfesta enn frekar í flutningskerfinu og fullnýta þá orku sem við höfum nú þegar, því öflun nýrrar grænnar orku er langtímaverkefni.“

Árni bendir á mikilvægi þess að fjárfesta enn frekar í flutningskerfinu og fullnýta þá orku sem er þegar til staðar.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Mikil vaxtartækifæri

Árni segir mikil vaxtartækifæri í íslenskum iðnaði, sérstaklega í hugverkaiðnaðinum. Til að grípa tækifærin verði allur aðbúnaður og starfsumhverfið að vera í lagi.

„Á Iðnþinginu fyrir ári síðan tókum við sérstaklega fyrir vaxtartækifæri í iðnaði og greindum frá okkar sýn í þeim efnum. Við þekkjum vel öflug fyrirtæki í hugverkaiðnaði eins og Marel, CCP, Össur, Alvotech, Controlant og Kerecis. Fjölmörg önnur fyrirtæki bíða þess að springa út og taka flugið enn frekar, sem við getum verið afar stolt af. Þar fyrir utan eru sprotar í fjölbreyttum geirum eins og menntatækni, tölvuleikjaiðnaði, lyfjaiðnaði, lífog heilbrigðistækni og grænum loftslags- og umhverfislausnum að koma upp. Það eru mikil vaxtartækifæri fyrir þessar greinar svo lengi sem við bjóðum þeim upp á gott starfsumhverfi. Þar skiptir miklu máli að fyrirtækin fái fólk með viðeigandi menntun og reynslu til að starfa hjá sér,“ segir Árni sem segir að bæta þurfi úr skorti á iðn- og tæknimenntuðum á vinnumarkaði. Það hafi verið mikil áskorun um langa hríð að laða að fólk til að stunda nám í þessum greinum, en sú þróun hafi nú snúist við.

„Við höfum reglulega framkvæmt kannanir meðal stjórnenda fyrirtækja og þar eru skilaboðin skýr, menntakerfið er ekki að mæta þörfum iðnaðarins. Samkvæmt könnun meðal okkar félagsmanna vantar hugverkaiðnaðinn um níu þúsund sérfræðinga á næstu árum. Á sama tíma hefur aðsókn í iðn- og tæknimenntun aukist mikið en umsóknum er hafnað því það vantar upp á aðbúnaðinn og plássin. Það eru aðgerðir í gangi við að bæta aðstöðu verknáms á landsbyggðinni og áform um nýjan tækniskóla í Hafnarfirði sem verða mikil framfaraspor.“

Grunn- og framhaldsskólar spili stórt hlutverk

Hann segir að horfa þurfi lengra en bara til háskólanna. Grunnskólar og framhaldsskólar spili einnig stórt hlutverk í því að laða fólk í iðn- og tæknimenntun svo að hlutfall fólks sem sækir slíka menntun verði ásættanlegt í samanburði við aðrar greinar.

„Ég vil meina að slík stefna og skilaboð frá þeim sem ráða þessum málaflokki skipti miklu máli upp á að þetta verði fókus í skólastarfinu, jafnframt til að færa iðn- og tækninám til frekari vaxtar og virðingar. Þessar greinar koma alls staðar við sögu í nútímasamfélagi, og sjáum við t.d. á undanförnum vikum tæplega 500 iðnaðarmenn, verktaka og hönnuði vinna gríðarlega öflugt og óeigingjarnt starf við að byggja varnargarða, leggja og endurnýja lagnir og vegi í Grindavík og á hamfarasvæðinu í kringum Svartsengi. Ég get líka nefnt húsnæðismálin þar sem mikill skortur á nýju húsnæði fyrir fólk og fyrirtæki blasir við okkur og þá er mikilvægt til framtíðar litið að vera með fært og vel menntað fólk í vinnu.“

Hann bætir við að ýmsir möguleikar séu til staðar til að stytta leiðir fólks til iðn- og tæknimenntunar.

„Við getum nýtt menntatækni í miklu meiri mæli, farið í samstarf við einkaaðila við námsgagnagerð og og einfaldlega menntað fólkið okkar hraðar og betur í þeim greinum þar sem þörfin er mest, án þess að gefa endilega afslátt af kröfum og gæðum námsins. Skólarnir okkar standa auðir í marga mánuði á ári og sveigjanleiki í uppbyggingu námsleiða er takmarkaður. Þetta stendur okkur fyrir þrifum og þarf að breytast. Á endanum er það val hvers og eins hvaða menntun og reynslu viðkomandi sækir sér, en við þurfum að skapa menntakerfi sem er aðgengilegt fyrir sem flesta.“

Aðlaðandi vinnuumhverfi

Árni segir mikilvægt að iðn- og tæknimenntun sé aðlaðandi og opin fyrir alla. Þar skipti miklu máli að vinnuumhverfið laði fólk að til að stunda slíkt nám. Hann bindur vonir við að áform um uppbyggingu á betri námsaðstöðu fyrir iðn- og tæknimenntun verði að veruleika á næstu árum.

„Við viljum búa til umhverfi þar sem öll kyn sjá hag sinn að læra iðn- og tæknimenntun. Það skiptir miklu máli hvernig þetta er kynnt í grunnskólum og hvernig hvatningin er. Fólk býr yfir mismunandi styrkleikum og það eru fjölmargar leiðir og tekjumöguleikar í framtíðinni fyrir iðn- og tæknifólk. En þá þarf þetta að vera aðlaðandi vinnuumhverfi. Þar vonumst við eftir því að nýr Tækniskóli og bætt aðstaða í verkmenntaskólum á landsbyggðinni spili stórt hlutverk á næstu árum.“

Breiddin aldrei verið meiri

Árni segir þrátt fyrir allar þær áskoranir sem séu sannarlega til staðar séu tækifærin ótal mörg í íslenskum iðnaði, sem hann segir sjaldan hafa verið jafn öflugan og breiðan.

„Við finnum að þessi gamla mantra að setja ekki öll eggin í sömu körfu hefur sjaldan verið mikilvægari fyrir okkur Íslendinga. Fyrr á tímum leiddu aflabrestir af sér kreppu og handstýringu í gjaldmiðlaog efnahagsmálum. Í dag er sem betur fer öldin önnur og  breiddin í íslenskum iðnaði og atvinnulífi almennt hefur aldrei verið meiri. Ég er sannfærður um að við getum breikkað hana enn meira og þar spilar hugverkið lykilhlutverk. Við þurfum að grípa tækifærin, vera með innviðina til staðar og koma orkumálum í gott stand og menntamálum í ásættanlegra horf. Þá ætti hugmyndalandið Ísland að eiga stórkostlega vaxtarmöguleika í framtíðinni.“