Lúðrar hafa verið þeyttir á hlutabréfamörkuðum beggja vegna Atlantsála frá áramótum.

Þannig hefur S&P 500 hlutabréfavísitalan í Bandaríkjunum hækkað um 8% frá ársbyrjun og NASDAQ um 16%. Vísitölurnar féllu um fimmtung annars vegar og þriðjung í fyrra. Byrjunin hefur verið kraftminni á evrópskum mörkuðum en um greinilegan viðsnúning er að ræða hvert sem litið er.

Bandaríski seðlabankinn hækkaði vexti um 25 punkta í síðustu viku og túlka margir hækkunina sem skýrt merki um landsýn í baráttu bankans við verðbólgu. Með öðrum orðum að vaxtahækkunarhrina bankans sé að renna sitt skeið á enda.

Reyndar geta þróttmiklar tölur um atvinnuástandið vestanhafs sem birtust á föstudag breytt mati manna. Þá kom á daginn að atvinnuleysi hefði ekki verið minna í Bandaríkjunum í tæp sextíu ár enda sköpuðust ríflega hálf milljón nýrra starfa í janúar. Þessi niðurstaða var framar björtustu vonum flestra og virtist slá á áhyggjur manna að bandaríska hagkerfið væri að renna inn í samdráttarskeið.

En eins og Martin Wolf, helsti efnahagskýrandi Financial Times, bendir á felst þversögn í þessari bjartsýni sem hefur gætt á mörkuðum við upphaf ársins. Þversögnin felst í því hvort vaxandi væntingar haldist í hendur við trúverðugleika þess að helstu seðlabankar heimsins nái að kveða niður verðbólgu með þeim vaxtahækkunum sem nú þegar hefur verið gripið til.

Bjartsýnin á mörkuðum er knúin áfram af þeirri trú að skeið vaxtahækkana sé að líða undir lok. En eins og Wolf bendir á felst þversögnin í því að ef krafturinn í hagkerfum eins og því bandaríska er jafn sterkur og vísbendingar gefa til kynna er afar ólíklegt að slakað verði mikið á vaxtaklónni fyrr en verðbólgan verður komin undir 2%. Þetta þýðir með öðrum orðum að væntingar um kröftugan efnahag, lægri vexti og að verðbólga verði stöðug eru reistar á veikum stoðum.

Fjallað var um horfur heimsbúskapnum í Viðskiptablaðinu sem kom út 9. febrúar.