Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI), segir tilvalið á þeim tímamótum sem 30 ára afmæli samtakanna marka að líta um öxl og minnast þess hve margt hefur breyst á síðustu þremur áratugum. „Þegar SI hóf starfsemi á grunni sex samtaka, sem þá runnu saman í ein, voru starfsgreinahóparnir innan samtakanna níu talsins en í dag eru þeir á milli fjörutíu og fimmtíu. Það sýnir einnig glögglega hve hröð framþróunin hefur verið að orðið hefur til nýr iðnaður, hugverkaiðnaður, sem hefur vaxið verulega á undanförnum árum. Sumar greinar hafa minnkað á þessu tímabili á meðan aðrar hafa stækkað og fjölmargar nýjar orðið til.“

Hann segir söguna einnig sýna hve skynsamlegt það var hjá þáverandi forystufólki í iðnaði að sameina krafta sína til að efla samkeppnishæfni iðnaðar á Íslandi og vinna að framþróun hans. Fleiri og fleiri hafi gengið til liðs við samtökin í gegnum tíðina og í dag eru aðildarfélög SI um 1.700 talsins. „Það hefur verið sérstaklega mikill vöxtur í nýskráningum í samtökin undanfarin tvö ár og hefur nýjum aðildarfélögum fjölgað um hátt í 350 á tímabilinu. Á móti hafa einhver fyrirtæki, af ýmsum ástæðum, gengið úr samtökunum. Þetta sýnir vel hve mikill áhugi er á starfi samtakanna. Fyrirtæki átta sig á því að það er mikilvægt að vera hluti af heild, hvort sem það er í hagsmunagæslunni hjá SI og því öfluga starfi sem unnið er hjá okkur eða þegar kemur að vinnumarkaðsmálunum hjá Samtökum atvinnulífsins.“

Sigurður segir að á þessum tímamótum sé ekki einungis vert að líta til þess sem vel hefur verið gert heldur sé einnig nauðsynlegt að horfa til framtíðar. „Iðnaðurinn hefur þróast mikið á síðustu þremur áratugum og ég er viss um að þróunin verði einnig veruleg næstu þrjátíu árin.“

Leiðarstefið í áherslum SI sé samkeppnishæfni og að rekstrarskilyrði iðnaðar séu með sem besta móti, á sama tíma og unnið sé að framþróun iðnaðarins. „Samkeppnishæfni byggir á nokkrum stoðum og okkar helstu áherslumál taka mið af því. Þessar stoðir eru mennta- og mannauðsmál, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi, en þar fellur m.a. undir gjaldtaka hins opinbera, eftirlit, leyfisveitingar og regluverk. Auk þess skipta orku- og umhverfismálin verulegu máli. Sá málaflokkur hefur á undanförnum árum og áratugum fengið vaxandi vægi og orðið sífellt stærri þáttur í rekstri fyrirtækja og í samfélaginu öllu. Þetta eru þær áherslur sem við horfum til varðandi samkeppnishæfnina og snýst vinna okkar að miklu leyti um að efla samkeppnishæfni. Þannig verða skilyrðin betri og fyrirtækin geta þá einbeitt sér að því sem þau eru best í – að þróa sínar vörur og þjónustu og skapa verðmæti.“

Áherslur SI hlotið góðan hljómgrunn

Aðspurður kveðst Sigurður ánægður með hvernig samtökunum hefur gengið að vinna að og koma áherslumálum á framfæri. „Áherslur SI hafa náð vel í gegn á síðustu árum. Þær eru oft á tíðum almennar og eiga sér breiða skírskotun sem kemur til vegna þess að iðnaðurinn er svo fjölbreyttur.“

Samskiptin við helstu hagaðila samtakanna hafi verið ákaflega góð og uppbyggileg og samstarf hafi leitt til framfara á mörgum sviðum, enda leggi samtökin mikið upp úr því að vera traustur samstarfsaðili sem geti klárað málin. „Stórstígar breytingar á skilyrðum og hvötum til nýsköpunar, sem hafi leyst mikla krafta úr læðingi er dæmi um það. Við höfum einnig séð jákvæðarr breytingar og þróun í menntamálum, sem dæmi í iðnnámi þar sem aðsóknin hefur aukist mikið á síðustu árum eftir að farið var í markaðssetningu og kerfisbreytingar. Að sama skapi hefur verið liðkað fyrir komu erlendra sérfræðinga til landsins sem var nauðsynlegt skref svo hugverkaiðnaðurinn gæti haldið áfram að vaxa og dafna. Þá höfum við séð aukna áherslu á innviðina og uppbyggingu og fjárfestingu í þeim. Þar var stofnun innviðaráðuneytisins mikilvægt skref fyrir samfélagið að því leyti að ábyrgðin á málaflokknum er nú á einum stað en ekki dreifð á mörg ráðuneyti. Upp á síðkastið höfum við svo lagt mikla áherslu á einföldun regluverks og vitundarvakning hefur orðið um skaðsemi þess að regluverk, sem er innleitt á Íslandi í gegnum EES,  sé gullhúðað. Snúa þarf þeirri þróun við strax og endurskoða lög og reglur sem fela í sér óþarfa kröfur á íslenskt atvinnulíf. Loks er vert að minnast á að raforkumálin en sú kyrrstaða sem þar hefur verið uppi hefur fengið tímabæra athygli,“ segir Sigurður.

Samtök iðnaðarins fagna 30 ára afmæli á þessu ári. Sigurður segir tilvalið á þeim tímamótum að líta um öxl og velta fyrir sér hve margt hefur breyst á síðustu þremur áratugum.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Hugmyndir breyta heiminum

Yfirskrift Iðnþings í ár er: Hugmyndalandið –  dýrmætasta auðlind framtíðar. Sigurður segir að á þinginu verði fjallað um það hvernig hugmyndir breyta heiminum ef þeim er hrint í framkvæmd. „Það verður komið inn á það hvernig góð hugmynd getur orðið hluti af lífi komandi kynslóða svo lengi sem hún fær að verða að veruleika. Til þess þarf að taka ákvarðanir og framkvæma. Þetta á bæði við í fyrirtækjum sem og í samfélaginu öllu. Ef horft er til baka má sjá að þau góðu lífskjör sem við njótum hér á Íslandi og hafa skilað okkur í fremstu röð meðal þjóða grundvallast á ákvörðunum sem voru teknar fyrir löngu síðan.“

Nefna megi ákvarðanir á borð fyrri orkuskipti, þ.e.a.s.  hitaveitu- og rafvæðingu, útfærslu landhelginnar, samgönguframfarir á borð við Hvalfjarðargöngin, framfarir í menntamálum með stofnun nýrra háskóla og stækkun Háskóla Íslands, aðild að EES-samningnum, stofnun lífeyrissjóða og svo mætti lengi telja. „Þetta voru mál sem voru mörg hver umdeild á sínum tíma þó sagan sé gjarnan sögð þannig að allt hafi verið unnið í sátt. Við njótum góðs af þessum ákvörðunum í dag, ákvörðunum sem byggðu jafnvel á umdeildum hugmyndum á sínum tíma en við tökum sem sjálfsögðum lífsgæðum í dag.“

Ef litið sé af baksýnisspeglinum og inn í framtíðina sé ljóst að fjöldi tækifæra blasi við íslensku samfélagi. „Tækifærin snúast um að nýta hugvitið í auknum mæli. Þetta skapar tækifæri í öllum atvinnugreinum, ekki bara í hugverkaiðnaði. Til þess að hægt sé að sækja tækifærin þarf að taka stórar ákvarðanir. Innan fyrirtækjanna eru á hverjum degi teknar ákvarðanir og það sama á við um samfélagið. Ég tel að það þurfi þó mun meiri framsýni í stjórnmálunum og skýra framtíðarsýn fyrir Ísland, hvert við stefnum og hvernig við ætlum að komast þangað.“

Í greiningu sem samtökin gáfu nýverið út var bent á að það þurfi níu þúsund sérfræðinga til starfa í hugverkaiðnaði á næstu fimm árum. „Þá hefur sex hundruð til eitt þúsund umsóknum verið hafnað á hverju ári á síðustu árum í iðnnám. Staðan í orkumálum kallar einnig á stórar ákvarðanir, hvort sem það er í uppbyggingu á flutningskerfi eða öðrum innviðum og varðandi aukna orkuöflun, nýjar virkjanir.“

„Það eru stór kerfi hjá okkur sem ekki virka nægilega vel í dag og nægir í því samhengi að horfa til stöðu orkumála og innviða. Nú er verðbólga mikil og vextir þar af leiðandi háir. Ríkisstjórnin og Seðlabankinn grípa til aðgerða sem draga úr eftirspurn. Að okkar mati þarf á sama tíma að ráðast í mikið átak til að styrkja framboðshliðina í hagkerfinu. Það gerum við með því umbótum í menntakerfinu til að fjölga iðn- og tæknimenntuðum (STEAM) á vinnumarkaði. Þar til viðbótar þarf að reisa nýjar virkjanir og fjárfesta í innviðum. Þá er nauðsynlegt að byggja fleiri íbúðir með samhentu átaki iðnaðar, ríkis og sveitarfélaga. Að sumu leyti hafa stjórnvöld verið að fara í öfuga átt, með því að hægja á framboðshliðinni,“ bætir Sigurður við.

Þurfum að feta í spor forfeðranna og formæðranna

Þrátt fyrir að ýmislegt standi iðnaðinum fyrir þrifum segir Sigurður að heilt yfir sé mikil þróun og gerjun í íslenskum iðnaði. „Mannvirkjaiðnaður er að ganga í gegnum umbreytingu sem snýr að vistvænni og grænni byggingariðnaði. Þá hefur hugverkaiðnaðurinn verið í mikilli sókn eins og áður sagði og gæti orðið verðmætasta útflutningsgrein Íslands í lok yfirstandandi áratugar. Til þess að þetta verði að veruleika þarf eins og fyrr segir að taka ákvarðanir. Rétt eins og forfeður okkar og formæður tóku ákvarðanir sem við erum þakklát fyrir í dag þurfum við að taka ákvarðanir sem næstu kynslóðir munu vonandi þakka okkur fyrir að hafa tekið. Samfélagið vex mjög hratt og landsmönnum hefur fjölgað um u.þ.b. hundrað þúsund manns á innan við tveimur áratugum. Reiknað er með öðrum eins vexti á næstu tveimur áratugum samkvæmt spám Hagstofunnar. Þetta kallar á aukna uppbyggingu innviða í samfélaginu. Stundum er eins og við ráðum ekki við dagleg verkefni fyrr en það kemur upp krísa en þá erum við öll samtaka um að bregðast við og leysa verkefnin af hendi. Þetta þarf ekki að vera svona, við eigum að geta haft hlutina hér í lagi og skipulagt okkur fram í tímann.“

Vanhugsuð skattahækkun

Hröð fólksfjölgun hafi ekki síður myndað spennu á íbúðamarkaði. „Til að gera langa sögu stutta var brugðist alltof seint við stöðunni sem fyrirsjáanlega myndaðist þegar íbúðum fjölgar ekki í takt við íbúafjölda. Í dag er fjármagnskostnaður hár og lóðir of fáar miðað við þörf, sem dregur úr nýframkvæmdum.“

Í nýlegri mánaðarskýrslu HMS komi fram áhugaverðar upplýsingar um að ný útlán til byggingariðnaðar hafi numið 33 milljónum króna í desember sl., en námu að jafnaði 4,5 milljörðum á mánuði árið 2023. „Þetta sýnir mikinn samdrátt en byggingarfélög eru að klára þau verkefni sem voru byrjuð og selja íbúðir. Það eru fá  ný verkefni að fara af stað. Það er ekki bara hár fjármagnskostnaður og lítið framboð lóða sem veldur þessu heldur einnig skyndileg skattahækkun á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis um mitt síðasta ár þegar endurgreiðsla virðisaukaskatts lækkaði úr 60% í 35% og hefur raunar aldrei verið lægri.“

Auk þess hafi lóða- og skipulagsmálin haft sitt að segja. „Þar hafa sveitarfélögin heilt yfir verið of sein að bregðast við en það er auðvitað allur gangur á því. Sum hafa staðið sig mjög vel meðan önnur hafa verið allt of svifasein. Sveitarfélögin fara með skipulagsvaldið og stýra uppbyggingunni. Þau standa sig að eigin mati mjög vel en ef við leggjum byggingaráform þeirra allra saman duga þau ekki til að fullnægja íbúðaþörf vaxandi fjölda landsmanna. Það er þó gott að ábyrgð á málaflokknum sé nú í einu ráðuneyti, þannig að það sé a.m.k. skýr ábyrgð af hálfu ríkisvaldsins.“

Sigurður bendir jafnframt á að flestallar lausnir ríkisvaldsins á húsnæðismarkaði felist í aðgerðum á eftirspurnarhliðinni en framboðshliðin sitji á hakanum. „Sem dæmi réðust stjórnvöld í skyndilegar skattahækkanir á húsnæðisuppbyggingu á síðasta ári til að hefta eftirspurn, með fyrrnefndri lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts.“

Hann segir byggingariðnaðinn í grunninn skiptast í þrennt; opinberar framkvæmdir, framkvæmdir atvinnuveganna og framkvæmdir á húsnæðismarkaði. „Þessi skattahækkun stjórnvalda hefur aðeins áhrif á húsnæðismarkaðinn vegna þess að hún á ekki við á hinum hlutum byggingariðnaðarins. Þetta var vanhugsuð aðgerð því vöxturinn á markaðnum var ekki í íbúðaframkvæmdum heldur fremur í opinberum framkvæmdum og aðallega í atvinnuvegaframkvæmdum. Öll þurfum við að búa einhvers staðar og húsnæðisliðurinn getur auðvitað vegið þungt í vísitölu neysluverðs. Það hefði því verið heppilegra að finna aðrar leiðir til þess að hafa áhrif á verðlagsþróun.“

Íslenskt hagkerfi sé komið á þann stað að ráðast þurfi í miklar fjárfestingar til þess að byggja undir vöxt samfélagsins og mæta þörfum nú og til framtíðar.

Á Iðnþingi í ár verður fjallað um hvernig hugmyndir breyta heiminum, svo lengi sem þeim sé hrint í framkvæmd.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Skortur á yfirsýn

Eins og mikið hefur verið fjallað um stendur íslenskt samfélag frammi fyrir raforkuskorti. Sigurður bendir á að undanfarna áratugi hafi landsmenn og atvinnustarfsemi haft greitt aðgengi að raforku. Því miður virðist samfélagið aftur á móti vera að sigla inn í nokkurra ára tímabil þar sem raforkuskortur muni ríkja. „Viðbrögðin við þessari stöðu ættu að snúast um aukið framboð og uppbyggingu innviða, t.d. flutningskerfis raforku og það er áhyggjuefni að Alþingi hafi íhugað skömmtunarkerfi fyrir raforku nú í lok síðasta árs. Vissulega er nauðsynlegt að skýra leikreglur, t.d. hvað varðar raforkuöryggi heimila en við höfum varað við að raforku sé handstýrt. Stjórnvöld þurfa að setja í uppbyggingu í raforkukerfinu í algjöran forgang. Það er eina leiðin út úr stöðunni.“

Forsenda þess að móta stefnu varðandi forgang á aðgengi að raforku sé að hafa yfirsýn en þar sé staðan slæm. „Við hjá SI höfum  bent á það að þingið hafi verið sett í ómögulega stöðu þar sem það er krafið um skýr viðbrögð á meðan þingmenn hafa ekki nægilegar upplýsingar til að byggja sínar ákvarðanir á, einfaldlega vegna þess að upplýsingarnar hafa ekki verið aðgengilegar og traustar. Upplýsingarnar ættu að koma frá Orkustofnun, sem hefur heimild til að óska eftir upplýsingum frá orkufyrirtækjunum og vinna með þær. Núna er staðan aftur á móti sú að það er hver í sínu horni að reyna að púsla saman heildarmyndinni, hvernig hún er og hvernig hún gæti þróast.“

Þessi upplýsingaskortur innan raforkumálanna minni um margt á upplýsingaskort sem ríkti fyrir um fimmtán árum síðan um hinar ýmsu hagstærðir. „Þetta átti t.d. við um erlenda stöðu þjóðarbúsins og greiðslujöfnuð en þar voru áhugamenn úti í bæ að velta stöðunni fyrir sér. Hópur starfsmanna Seðlabankans vann skýrslu sem kom út árið 2012 undir nafninu: Hvað skuldar þjóðin? til að reyna að varpa ljósi á þetta. Á endanum aðstoðaði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn Seðlabankann og íslensk stjórnvöld við að ná almennilega utan um þetta. Það tókst en mér finnst við vera stödd á nákvæmlega sömu slóðum í raforkumálum í dag og við vorum fyrir um fimmtán árum síðan varðandi yfirsýn í efnahagsmálum.“

Stofnanir setja ný viðmið fyrirvaralaust

Sigurður segir mikil tækifæri til að gera betur í að stuðla að góðu starfsumhverfi fyrirtækja í iðnaði. Til að mynda hafi komið fram á Framleiðsluþingi SI, sem nýverið fór fram, skýr skilaboð frá aðildarfélögum að starfsumhverfi þeirra sé meira íþyngjandi nú en það var fyrir tíu árum síðan. „Auðvitað hefur ýmislegt flókið verið innleitt inn í íslenskt regluverk í gegnum Evrópulöggjöf, m.a. persónuverndarlöggjöfin (GDPR). En oft er þetta heimatilbúinn vandi þar sem við erum að gera meiri kröfur en gert er ráð fyrir í evrópsku regluverki við innleiðinguna og nefnist í daglegu tali gullhúðun regluverks. Samtökin sendu stjórnvöldum nýlega ábendingar um átta dæmi um gullhúðun, annað hvort nýlega lagasetningu eða um mál sem eru nú til afgreiðslu hjá Alþingi.“

Í því samhengi segir Sigurður að SI hafi fengið inn á borð til sín dæmi þess efnis að fyrirtæki séu að fá endurálagningu frá Skattinum, að því er virðist vegna þess að starfsfólk Skattsins sé farið að túlka lög og reglur á annan hátt en áður þrátt fyrir að lögin hafi ekki tekið breytingum. „Þannig eiga venjur sem hafa verið við lýði um árabil allt í einu ekki við lengur og ný viðmið taka fyrirvaralaust við. Það er t.d. áhyggjuefni að aðildarfélög í SI séu að líta í kringum sig og íhuga að færa hluta starfsemi sinnar erlendis vegna starfsumhverfisins. Það er m.a. vegna þess að stofnanir, Skatturinn í þessu tilfelli, taka upp á sitt einsdæmi að þróa regluverkið áfram án atbeina löggjafans. Það er því full þörf á að taka til skoðunar hvernig sumar stofnanir túlka regluverkið og beita eftirliti. Ríkið er ofurefli við að etja og þarf að fara vel með vald sitt.“