Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að hún vilji einkavæða Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og Íslandspóst og segir ekki aðeins raunhæft heldur raunar óumflýjanlegt að hvort tveggja náist í gegnum þingið í fyrirsjáanlegri framtíð.

„Nýtilkomin netverslun og metútbreiðsla vínbúða miðað við höfðatölu sýnir að einokunarverslun ríkisins nær ekki einu sinni að sinna því meginhlutverki að takmarka aðgengi og reyndar eykur það. Það er fullkomin tímaskekkja að ríkisvaldið standi í rekstri á einokunarverslun. Varðandi Póstinn þá hefur það grundvallarhlutverk sem hann hafði svo gott sem horfið samhliða bréfapósti og í staðinn hefur fyrirtækið fært sig inn á aðra markaði í samkeppni við einkaaðila.“

Þó sé mikilvægt að landsmönnum öllum sé tryggt aðgengi að alþjónustu, og á svæðum þar sem slíkur rekstur standi ekki undir sér sér hún áfram fyrir sér að ríkið komi að málum. „Þá þjónustu má bjóða út og ríkið greiðir fyrir hana.“

Vill skoða sölu á minnihluta í Isavia

Hvað annan ríkisrekstur og ríkiseignir varðar vill Þórdís til dæmis skoða sölu á minnihlutaeign í Isavia eins og tíðkast í helstu samanburðarlöndum og „draga úr eignarhaldi“ ríkisins í Landsbankanum, en halda þó áfram í kjölfestuhlut hins upprunalega ríkisbanka.

„Ég nefni til dæmis Kastrup flugvöll sem flest kannast við. Hann er meðal annars í eigu danskra og kanadískra lífeyrissjóða. Eigandastefna Landsbankans kveður á um að draga úr eignarhaldi á honum en eiga áfram hlut í honum, svipað og DNB í Noregi.“

Nánar er rætt við Þórdísi í nýútkomnu tímariti Frjálsrar verslunar um einkavæðinguna. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.