Samkvæmt tölum Hagstofunnar dróst landsframleiðslan saman um fjögur prósent á fyrsta ársfjórðungi.

Þetta er í fyrsta sinn síðan 2021 sem samdráttur mælist í hagkerfinu en hagvöxtur hefur farið sífellt minnkandi frá fyrstu mánuðum síðasta árs.

Eins og fram kom í umfjöllun fjölmiðla er loðnubresturinn í vetur ein af meginástæðum samdráttarins á fyrsta fjórðungi. En fleira kemur til. Þannig má sjá af tölum Hagstofunnar að mikill samdráttur var á útflutningsverðmæti áls á fyrstu mánuðum ársins.

Þannig voru útflutningsverðmæti áls sextán milljörðum lægri fyrstu fjóra mánuði ársins en á sama tíma í fyrra. Helsta ástæðan fyrir þessu er orkuskortur. Sem kunnugt er greip Landsvirkjun til raforkuskerðingar til stórnotenda, gagnavera og fiskimjölsverksmiðja undir lok síðastliðins árs. Þessum skerðingum lauk í maí.

Það sem ætti að vekja athygli fjölmiðla við þetta er að þarna sést greinilega hvaða áhrif orkuskortur hefur á útflutningsverðmæti hagkerfisins og þar af leiðandi á lífskjör landsmanna. Samtök iðnaðarins höfðu einmitt spáð því að tapið vegna orkuskortsins yrði á bilinu 14 til 17 mi lljarðar og að tapaðar útflutningstekjur vegna skerðinganna verði 3,7%-4,5% af útflutningstekjum orkusækins iðnaðar á síðasta ári. Ef miðað er við efri mörk matsins eru það tæplega 5% af útflutningi sjávarafurða á síðasta ári og tæplega helmingur þess sem loðnuvertíðin skilaði í fyrra. Einnig samsvarar tapið tæplega 3% af tekjum af erlendum ferðamönnum á síðasta ári.

Á þetta er minnst á þessum vettvangi sökum þess að þegar fjölmiðlar fjalla um skiptar skoðanir á orkuþörf efnahagslífsins, orkuskipti og önnur tengd mál er sjaldnast fjallað um afleiðingar kyrrstöðunnar. Eins og sjá má af tölum Hagstofunnar og Samtaka iðnaðarins hefur kyrrstaðan mikil áhrif á lífskjör í landinu og verða þau meiri eftir því sem lengur verður búið við orkuskort.

***

Af þessu sögðu er ekki hægt að segja annað en að niðurstöður skýrslu Landsnets um framboð og notkun raforku sem gefin var út í síðustu viku séu ískyggilegar.

Þar kemur fram að miklar líkur séu á frekari skerðingum á afhendingu raforku á næstu árum. Í besta falli muni vatnabúskapurinn braggast eftir nokkur ár en eigi að síður geta menn átt von á reglubundnum skerðingum á afhendingu raforku yfir vetrarmánuðina á næstu árum. Í skýrslunni segir:

Án upp­byggingar í flutnings­kerfinu og nýjum virkjunum eykst hættan á skerðingum um­tals­vert á næstu 5 árum og á­hætta á skerðingum á for­gangs­orku, sem eru um­fram heimildir í samningum, eykst með hverju ári.

Tekið er fram að upp­bygging flutnings­kerfisins muni draga úr líkum á skerðingum til not­enda raf­orku en það eitt og sér muni ekki duga til að tryggja að fram­boð mæti eftir­spurn.

„Virkjanir í nú­verandi á­standi hafa ekki burði til að anna aukinni raf­orku­notkun til næstu 5 ára óháð því hversu mikið næst að styrkja flutnings­kerfið. Virkjun nýrrar orku er nauð­syn­leg til að snúa þróuninni við. Fyrir­hugaðar virkjana­fram­kvæmdir næstu 5 ára halda afl- og orku­jöfnuði ein­göngu í horfinu. Á­hætta er á að líkur á skertri for­gangs­orku þre­faldist í slæmu vatns­ári.“

© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)

Landsnet segir hreinlega að allt stefni í að ástandið verði verra árið 2028 en það er í dag – sérstaklega ef framkvæmdir á flutningskerfinu og uppbygging nýrra virkjana dragast enn frekar.Það sjónarmið heyrist stundum í umræðum um orkumál að enginn skortur sé á raforku en hins vegar þurfi að fjárfesta í flutningskerfinu. Í skýrslu Landsnets er hins vegar bent á að þó svo að uppbygging flutningskerfisins muni draga úr líkum á skerðingum á afhendingu á raforku dugi hún ekki ein og sér til að tryggja nægjanlegt framboð raforku. Nauðsynlegt sé að virkja frekar til að tryggja það.

***

Það skýtur óneitanlega skökku við að meðan ástand mála er með þessum hætti sé verið að nota opinbera sjóði til þess að styrkja einkafyrirtæki til þess að rafvæða framleiðslubúnað.

Sem fyrr segir þurfa fiskimjölsbræðslur að búa við skerðingu á afhendingu raforku og brenna þær því olíu þess í stað. Eins og skýrsla Landsnets sýnir fram á þá er ekki mikilla breytinga að vænta í þeim efnum á næstu árum.

Samt sem áður fékk Ísfélagið 110 milljóna króna styrk úr Orkusjóði í fyrra til að rafvæða fiskimjölsverksmiðju félagsins í Vestmannaeyjum.

***

Þingið kom saman á mánudag eftir hlé sem gert var vegna forsetakosninganna. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins þann dag var sagt frá því að meðlimir félagsins Ísland-Palestína ætluðu að mótmæla á Austurvelli að þessu tilefni.

Sem kunnugt er þá stóð sami félagsskapur fyrir mótmælum á föstudaginn. Lögreglan neyddist til þess að beita piparúða á mótmælendur sem höfðu lagst á götuna við Skuggasund til þess að hindra för ráðherra til og frá ríkisstjórnarfundi og ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu um að láta af slíkri hegðun.

Í fréttinni ræddi Ásta Hlín Magnúsdóttir fréttamaður við Ásgeir Þór Ásgeirsson lögreglumann. Athygli vakti þegar fréttamaðurinn spurði lögreglumanninn hvort hann hefði ekki áhyggjur af því að mótmælendur myndu hreinlega mæta á Austurvöll mun reiðari en ella fyrst táragasi hafi verið beitt á þá á föstudag.

Þessi spurning afhjúpar dáldið undarlegan þankagang: Hvarflar það að fréttamanninum að lögreglan eigi að ekki sinna lögbundnu hlutverki sínu af ótta við að reita mótmælendur til reiði?

Svokölluðu aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart málefnum Palestínu var svo mótmælt á Austurvelli síðar um daginn og var mótmælendum mikið niðri fyrir af fréttamyndum og umfjöllun fjölmiðla að dæma. Allt fór þetta sómasamlega fram og lögreglan var ekki tilneydd að grípa til óyndisúrræða á borð við að beita piparúða á mótmælendur.

***

Fjölmiðlar sögðu frá því á mánudag að ríkisforstjórarnir tveir og sem buðu sig fram í forsetakosningunum – Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri og Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar – myndu snúa aftur til starfa í vikunni.

Í tilfelli Höllu Hrundar veltu fjölmiðlar ekki upp þeirri spurningu hvort Halla Hrund sé ekki hreinlega vanhæf til þess að gegn starfi orkumálastjóra í ljósi ýmissa afgerandi ummæla hennar í kosningabaráttunni um orkumál og virkjanir.

Starf orkumálastjóra og stofnunarinnar sem hann stýrir snýst fyrst og fremst um að hafa eftirlit með orkufyrirtækjum og veita virkjunarleyfi. Afgerandi skoðanir Höllu á því hvernig eigi að nýta orkuna og fleira í þeim dúr sem settar voru fram í kosningabaráttunni hljóta að vekja spurningar um faglega afgreiðslu stofnunarinnar á þeim málum sem berast inn á hennar borð meðan hún er við stýrið.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 5. júní 2024.