Umræða um áform ríkisstjórnarinnar um tvöföldun veiðigjalds hefur verið fyrirferðarmikil undanfarnar vikur. Óhætt er að segja að umræðan einkennist af töluverðri upplýsingaóreiðu – heyrist þó ekkert frá Fjölmiðlanefnd, en sjálfsagt fagna því flestir.

Ágætt dæmi um þetta mátti heyra í Sprengisandi, þjóðmálaþætti Kristjáns Kristjánssonar á Bylgjunni, á sunnudag. Þar fullyrti Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, að sjávarútvegsfyrirtæki hafi fjárfest fyrir 200- 300 milljarða í „óskyldum rekstri“ á undanförnum árum.

Þá hefur Hanna Katrín Friðriksson fullyrt að útgerðin hafi fjárfest fyrir 100 milljarða í óskyldum rekstri.

Ekki er gott að átta sig hvaðan Sigmar og Hanna hafa fengið þessa tölu. Þegar hann lét þessi orð falla var hann að ræða við Kristján og Bergþór Ólason, þingmann Miðflokksins, um skýrslu frá árinu 2021 sem gerð var í sjávarútvegsráðherratíð Kristjáns Þórs Júlíussonar um umsvif útgerðarinnar í efnahagslífinu. Skýrslan var unnin að beiðni Hönnu Katrínar Friðriksson núverandi atvinnuvegaráðherra og var sérstaklega spurt um fjárfestingar útgerðarinnar í félögum sem hafa ekki með útgerð fiskiskipa að gera.

Fram kemur í skýrslunni að bókfært virði eignar tuttugu stærstu útgerðannar í öðrum félögum var 176 milljarðar í árslok 2019. Fram kemur í skýrslunni að stór hluti þessarar eignar er í félögum sem eru í tengdum rekstri með einum eða öðrum hætti. Þarna er um að ræða sölufyrirtæki í sjávarútvegi, fiskvinnslur, matvælavinnslu og nýsköpun í tengslum við sjávarútveg.

***

Þessi skýrsla var gagnrýnd af mörgum fyrir að svara ekki spurningum Hönnu Katrínar. Væntanlega var sú gagnrýni fyrst og fremst til komin vegna þess að skýrslan staðfestir ekki þá tröllasögu að útgerðarmenn séu við það að kaupa upp allt Ísland, það er að segja allt það sem Jim Radcliffe hefur ekki nú þegar fest kaup á.

Eftir sem áður svarar skýrslan glögglega því hver umsvif eigenda útgerðarinnar eru í viðskiptahagkerfinu. Svarið hefur greinilega ekki hentað málstað þeirra sem tala gegn staðreyndum því lítið hefur farið fyrir því í umræðunni.

Í stuttu máli eru heildarumsvif útgerðarinnar í viðskiptahagkerfinu ekkert sérstaklega mikil. Í skýrslunni er fjallað um hlutfalls bókfærðs virðis eignarhluta útgerðarfyrirtækja, dótturfélaga og tengdra félaga sem hlutfall af bókfærðu virði eignarhluta íslenskra félaga í öðrum félögum í viðskiptahagkerfinu.

Þar kemur fram að hlutfall eignarhluta útgerðarinnar sjálfrar í öðrum félögum af öllu viðskiptahagkerfinu var 4% árið 2019. Hlutur tengdra eignarhaldsfélaga var 6% og dótturfélaga 1%. Hlutfall eignarhluta dótturfélaga tengdra eignarhaldsfélaga í öðrum félögum í viðskiptahagkerfinu var svo 2%.

Þetta getur ekki talist hátt hlutfall, svona í ljósi mikilvægis sjávarútvegsins fyrir íslenskt efnahagslíf. Tröllasagan um að útgerðin sé að kaupa upp allan rekstur í landinu verður svo enn fjarstæðukenndari þegar haft er í huga að þetta eru að stærstum hluta í fjárfestingar í tengdum rekstri svo sem fiskvinnslu, þjónustu við sjávarútveg, sölu á fiskafurðum og nýsköpun. Í sjálfu sér ætti þetta ekki að koma á óvart enda skipta majónesfabrikkur og kexverksmiðjur litlu í hinu stóra efnahagslega samhengi hlutanna.

Í þessu samhengi má nefna ágætis innlegg hjá Gunnþóri Ingvasyni, forstjóra Síldarvinnslunnar sem er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, á dögunum. Hann bendir á að frá árinu 2014 hafi Síldarvinnslan fjárfest í veiðum og vinnslu fyrir átta tíu milljarða og nemur fjárfesting í óskyldum rekstri um 200 milljónum króna og rann það að sögn forstjórans til samfélagstengdra verkefna fyrir austan. Ætla má að sömu sögu sé að segja af öðrum stærstu útgerðum landsins enda kallar sjávarútvegur á mjög mikla fjárfestingu vilji menn halda sér í fremstu röð.

Að sjálfsögðu gerir Gunnþór grein fyrir þátttöku Síldarvinnslunnar í hluthafahópnum sem keypti Sjóvá af Seðlabankanum í eftirmálum fjármálakreppunnar. Endurreisn efnahagslífsins var einmitt möguleg vegna þessað enn stóðu arðbær, fjársterk og vel rekin fyrirtæki á borð við Síldarvinnsluna og var þátttaka þeirra á þeim tíma ákaflega mikilvæg. Síðar seldi Síldarvinnslan sig úr hluthafahópnum og væntanlega hefur hagnaðurinn af þeirri sölu runnið til fjárfestinga félagsins.

***

Að lokum má velta fyrir sér af hverju svo margir stjórnarliðar hafi áhyggjur af því að sjávarútvegsfyrirtæki fjárfesti í óskyldum atvinnugreinum? Það er einmitt það sem markaðsskipulagið gengur út á. Að arður sem myndast í einni atvinnustarfsemi renni til uppbyggingar, fjárfestingar og nýsköpunar í öðrum atvinnugreinum og stuðli þannig að framgangi hagkerfisins og bættum lífskjörum.

Þegar fjárfest er í atvinnugrein með kaupum á rekstri er seljandinn oftar en ekki að hagnast og sá hagnaður er svo varinn til fjárfestingar eða sparnaðar sem umbreytist svo í fjárfestingu í meðförum fjármálakerfisins.

Það er mikilvægara fyrir efnahagslega framvindu lands og þjóðar en að arðurinn sé fyrst og fremst notaður til fjármagna hallarekstur gjaldþrota borgarsjóðs svo eitthvað dæmi sé tekið algjörlega af handahófi.

***

Það var ansi sérstök frétt sem flutt var í Ríkisútvarpinu 31. mars. Fréttin snerist um að þrátt fyrir aukna samkeppni í smásölu á raforku til heimila og fyrirtækja hafi raforkuverð hækkað fjórum sinnum umfram verðlag á undanförnum árum.

Í fréttinni er sagt að á markaðnum séu níu smásalar sem selja orku sem þeir kaupa á uppboðsmarkaði sem Vonarskarð rekur. Fréttamaðurinn fullyrðir að samkeppnin virðist ekki vera til hagsbótar fyrir neytendur en tekur þá fram að verð á kílówattstund í smásölu sé á bilinu 9,92 krónur til 12,97 krónur.

Eins og svo oft áður í svona fréttaflutningi leitaði Ríkisútvarpið til Breka Karlssonar formanns Neytendasamtakanna. Breki var alls ekki hress með stöðu mála. Þó svo að fyrir Alþingi liggi frumvarp sem er ætlað að tryggja orkuöryggi heimila sé það ekki nóg. Breki sagði enn fremur í samtali við RÚV:

„Það snýr ekki bara um það að tryggja það að raforkan komist á sinn stað inn til heimilanna heldur verður líka að tryggja það að heimilin hafi efni á að kaupa þessa raforku. Og við höfum sett fram þessa tillögu að setja arðsemisþak á raforkusölu, líkt og er á heitu vatni, líkt og er á köldu vatni og meira að segja á flutningi rafmagns.“

Það sem er fyrst og fremst athyglisvert við þennan fréttaflutning er að þarna er algjörlega skautað fram hjá orsök hækkandi raforkuverðs. Hana er ekki að finna í frumvörpum á Alþingi eða í skorti á samkeppni í sölu á raforku.

Ástæðan er fyrst og fremst að eftirspurn eftir raforku hefur vaxið hraðar en framboðið, enda hefur algjör kyrrstaða ríkt í orkuöflun hér á landi um langt skeið. Það liggur í hlutarins eðli að meðan eftirspurnin vex og framboðið stendur í stað þá mun verð hækka. Málið er ekki flóknara en svo.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 9. apríl 2025.