Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur kært útgáfu Orkustofnunar á virkjunarleyfi til Landsvirkjunar um að reisa vindmyllur í svokölluðum Búrfellslundi. Lundurinn er í nýtingarflokki rammaáætlunar en framkvæmdirnar hafa velkst um í kerfinu í um áratug á sama tíma og orkuskortur er orðinn að viðvarandi vandamáli í íslensku efnahagslífi.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur kært útgáfu Orkustofnunar á virkjunarleyfi til Landsvirkjunar um að reisa vindmyllur í svokölluðum Búrfellslundi. Lundurinn er í nýtingarflokki rammaáætlunar en framkvæmdirnar hafa velkst um í kerfinu í um áratug á sama tíma og orkuskortur er orðinn að viðvarandi vandamáli í íslensku efnahagslífi.

Í frétt Morgunblaðsins er rætt við Harald Þór Jónsson, oddvita hreppsins. Haft er eftir honum að ef úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindarmál tekur undir sjónarmið hreppstjórnarinnar muni áform Landsvirkjunar fara aftur á byrjunarreit og fyrirhugaður vindmyllugarður „ekki byggður næstu tíu árin“.

Haraldur Þór hefur verið nokkuð áberandi í fjölmiðlum undanfarna mánuði þar sem hann hefur talað gegn vindmyllugarðinum meðal annars vegna þess að íbúar hreppsins munu ekki njóta neins ávinnings af fyrirhugaðri raforkuframleiðslu en þess í stað grafa undan ferðaþjónustu á svæðinu.

Þetta er vissulega áhugavert sjónarmið í ljósi þess að ekki á að reisa fyrirhugaðan vindmyllugarð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi heldur í Rangárþingi ytra. Á þessari forsendu gætu Hafnfirðingar eða þá sveitarstjórnin í Skútustaðahreppi kært útgáfu virkjunarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar. Þó svo að sjónarmiðið sé áhugavert þá er staðreynd málsins eigi að síður sú að orkuöflun og orkuöryggi gagnast landsmönnum öllum og eru íbúar í Skeiðar- Gnúpverjahreppi engin undantekning í þeim efnum.

Vafalaust er hægt að rökstyðja það að sjón- og hávaðamengun af vindmyllum kunni að hafa áhrif á ferðaþjónustu í nágrenninu og ekkert athugavert við að slíkum sjónarmiðum sé haldið á lofti af andstæðingum orkuöflunar í Búrfellslundi. Það hefur Haraldur oddviti svo sannarlega gert og fjölmiðlar fjallað ítarlega um það allt saman. Þó kemur aldrei fram að Haraldur hafi töluverðra persónulegra hagsmuna að gæta í þessum efnum. Hann á helmingshlut í einkahlutafélaginu Trix sem leigir út átta litla sumarbústaði til ferðamanna í hreppnum.

***

Af þessu sögðu er áhugavert að skoða gögn rammaáætlunar um vindorkuverið í Búrfellslundi og um aðra virkjanakosti. Það er umhugsunarvert að fjölmiðlar hafa ekki fjallað um það sem þar stendur í meiri mæli en raun ber vitni.

Ekki verður sagt að dregið sé úr hugsanlegum áhrifum virkjunarframkvæmda á upplifun ferðamanna. Þvert á móti er mikið gert úr áhrifum minnstu áminninga um að Ísland sé enn í byggð á upplifun ferðamanna. Þannig kemur fram í rammaáætlun að „ferðamenn á leið um Sprengisand kæmu til með að sjá vindmyllurnar í upphafi eða enda ferðar“ og að mannvirkin geri það að verkum að ferðamönnum finnist þeir upplifa síður ósnortin víðerni á för sinni um landið.

Þegar farið er inn á vef rammaáætlunar og kort af áhrifasvæðum virkjunarframkvæmda á ferðaþjónustu eru skoðuð kemur í ljós að áhrif hvers einasta virkjunarkosts eru gríðarleg og þekja í flestum tilfellum stóran hluta af landinu. Þannig má til að mynda sjá að ferðamenn gætu ekki notið kyrrðarinnar í Flateyá Skjálfanda, eyju sem lagðist í eyði 1967, ef af Hrafnabjargavirkjun verður.

Erfitt er að sjá að orkuverið í Svartsengi hefði orðið að veruleika hefði verið stuðst við núverandi viðmið rammaáætlunar. Þau viðmið telja okkur trú um að ferðamenn sem fara um Reykjanesið séu með böggum hildar eftir að hafa barið Reykjanesvirkjun augum eða þá séð Álverið í Straumsvík út um gluggann á rútunni á leið til Reykjavíkur. Núverandi nálgun rammaáætlunarinnar verður svo enn óskiljanlegri þegar haft er í huga að tilvist vinsælasta ferðamannastaðar landsins, Bláa lónsins, er bein afleiðing orkuöflunar Suðurnesjamanna á Reykjanesi.

Það er ekki bara Bláa lónið sem dregur að ferðamenn til landsins. Stuðlagil sem kom í ljós þegar Kárahnjúkavirkjun var reist er vinsælasti ferðamannastaður Austurlands og gera spár ráð fyrir að hálf milljón ferðamanna muni skoða gilið á ári hverju.

***

Fjölmiðlar fylgjast að jafnaði grannt með gangi mála á fasteignamarkaðnum. Þrátt fyrir vaxtastigið hefur markaðurinn verið eftirspurnardrifinn á höfuðborgarsvæðinu um langt skeið. Ástæðan er fyrst og fremst sú að byggingarverktakar virðast ekki hafa svigrúm til þess að mæta eftirspurninni.

Eins og fram hefur komið í umfjöllun fjölmiðla þá hafa margar ástæður verið tíndar til að varpa ljósi á vandann. Þéttingarstefna Reykjavíkurborgar hefur verið nefnd í þessu samhengi og að hún leiði af sér lóðaskort. Talsmenn borgarmeirihlutans hafa hins vegar bent á að í raun sé nóg af lóðum í borginni og að einhverjar óljósar og dularfullar ástæður séu fyrir því að verktakar byggi ekki íbúðarhúsnæði á þeim.

Nú virðast aðrar ástæður skýra skortinn á fasteignamarkaðnum. Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, benti á dögunum á, í þættinum Spursmál sem er sýndur á vefsvæði Morgunblaðsins, að í raun og veru stæði meirihlutinn í Reykjavík í veg fyrir að nágrannasveitarfélögin brjóti nýtt land undir byggð og mæti þannig skorti á lóðum og húsnæði.

Ásdís segir borgina gera þetta á grundvelli samkomulags frá árinu 2015 um vaxtamörk sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Eins og Ásdís bendir á grundvallast samkomulagið á spá um fólksfjölgun sem er algjörlega brostin en kjarninn í samkomulaginu er uppbygging íbúða innan svokallaðra vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins. Með öðrum orðum hverfist öll uppbyggingin um svokallaða borgarlínu samkvæmt samkomulaginu.

Í þættinum sagði Ásdís
bæjarmeirihlutana í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi gera sér grein fyrir að forsendur samkomulagsins séu brostnar og brjóta þurfi nýtt land undir ný hverfi til að jafnvægi náist á fasteignamarkaði. En borgin stendur gegn þessu og beitir sér fyrir að ekki verði hróflað við núverandi vaxtasamkomulagi.

Til þess að sjá hversu alvarleg staðan er þarf að halda til haga þeirri staðreynd að vaxtasamkomulagið gerir ráð fyrir að íbúum á höfuðborgarsvæðinu muni fjölga um 70 þúsund fram til ársins 2040. Fjölgunin er nú þegar orðin tæplega 40 þúsund tæpum tíu árum eftir að samkomulagið tók gildi.

Ásdís lýsir vandanum sem íbúar Kópavogs standa frammi fyrir vegna takmarkana vaxtasamkomulagsins í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu á laugardag. Þar segir:

„Til að mæta vaxandi íbúðaþörf á höfuðborgar-svæðinu þarf Kópavogur að byggja 15 þúsund íbúðir á næstu 15 árum. Innan núverandi vaxtarmarka getur Kópavogur einungis byggt 5.000 íbúðir fram til ársins 2040. Þetta er sorgleg staðreynd, einkum þegar horft er til þess að Kópavogur hefur bæði innviði og burði til að vaxa sem sveitarfélag byggt á sterkum tekjugrunni sveitarfélagsins.“

Það er undarlegt að fjölmiðlar hafi ekki veitt þessu máli og þeirri stöðu sem er upp komin meiri athygli og leitað svara hjá meirihlutanum í borginni hvers vegna hann standi í vegi fyrir endurskoðun á forsendum vaxtarsamkomulagsins.

En það er ekki allt í ofangreindu samkomulagi sem þarf að endurskoða. Í því má meðal annars finna þá stefnumótun að blómlegur landbúnaður sé innan við 50 kílómetra frá höfuðborgarsvæðinu.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 11. september 2024.