Carbfix, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, hefur verið mikið til umræðu undanfarnar vikur. Ríkisútvarpið hóf fyrir nokkrum vikum að fjalla um áhyggjur íbúa á Völlunum í Hafnarfirði af áformum félagsins um stórfellda niðurdælingu á iðnaðarúrgangi í formi koltvísýrings í nágrenni við hverfið.

Umræðan tókst fyrst á flug þegar Heiðar Guðjónsson fjárfestir birti grein á Vísi undir fyrirsögninni Mengum meira.

Carbfix, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, hefur verið mikið til umræðu undanfarnar vikur. Ríkisútvarpið hóf fyrir nokkrum vikum að fjalla um áhyggjur íbúa á Völlunum í Hafnarfirði af áformum félagsins um stórfellda niðurdælingu á iðnaðarúrgangi í formi koltvísýrings í nágrenni við hverfið.

Umræðan tókst fyrst á flug þegar Heiðar Guðjónsson fjárfestir birti grein á Vísi undir fyrirsögninni Mengum meira.

Í greininni velti Heiðar fyrir sér hvort það sé virkilega skilvirk leið í baráttunni gegn loftslagsbreytingum að flytja inn til Íslands með olíuknúnum tankskipum útblástur sem er tilkominn meðal annars vegna iðnaðarferla sem eru meðal annars knúnir áfram með kolaorku og dæla honum niður í jörð í Hafnarfirði.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Heiðar:

„Mér finnst fáránleikinn í þessu alger. ESB hefur sett íþyngjandi gjöld og reglur um mengun á Íslandi, eins sjálfbærasta orkunotanda heims, sem við greiðum til þeirra. ESB sendir okkur svo styrki til Carbfix verkefnisins svo að við tökum við menguninni frá þeim og setjum hana í jörð á græna Íslandi.

Orkuveitu Reykjavikur hefur brugðist viðskiptavinum sínum. Í stað þess að tryggja þeim húshitun og rafmagn á hagstæðu verði hefur fyrirtækið farið í pólitísk gæluverkefni. Á meðan hefur nauðsynleg orkuöflun ekki átt sér stað, viðhald setið á hakanum með tilheyrandi sprungnum hitavatnsleiðslum, og gríðarlegum fjármunum verið sólundað. Það er ljóst að aukin framleiðsla grænnar orku eru hagsmunir Íslands og hagsmunir heimsins.

Hver ákvað að betri leið væri að auka ekki græna orkuframleiðslu hér heldur reyna, með tilheyrandi orkusóun, að reyna að grænka mengandi evrópska orkuframleiðslu með því að flytja mengunina hingað? Hver samþykkti stefnuna „mengum meira“?“

***

Grein Heiðars vakti athygli og uppskar mikil viðbrögð svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Fjöldi starfsmanna og áhangenda Carbfix stigu fram á ritvöllinn og gagnrýndu grein Heiðars sem og aðra þá sem höfðu látið í ljós efasemdir um starfsemi fyrirtækisins.

Í stuttu máli má segja að kjarninn í þessum viðbrögðum hafi falist í að tækni Carb-fix sé ákaflega mikilvæg og um sé að ræða merkasta framlag Íslendinga til loftlagsmála frá því að hitaveituvæðingin átti sér stað.

Rétt er að taka fram að tæknin er ekki beint uppfinning sérfræðinga Carbfix heldur byggir hún á þekkingu sem varð til þegar Orkuveitan hóf að dæla niður brennisteinsgufum í stað þess að sleppa þeim út í andrúmsloftið. Augljóst er að um samstillt viðbragð var að ræða til þess að eyða öllum spurningum og efasemdum almennings um áform Carbfix.

***

Fjölmiðlar fjölluðu um þessi skoðanaskipti en létu þó vera að skoða einn áhugaverðasta þátt málsins – fjármögnun Carbfix og tröllvaxinna framkvæmda fyrirtækisins á Völlunum. Það er að segja þar til Morgunblaðið fjallaði um þann þátt málsins á fimmtudaginn í síðustu viku.

Í þeirri umfjöllun kemur fram að mörgum og veigamiklum spurningum sé ósvarað um hvernig Carbfix hyggst fjármagna uppbygginguna í Hafnarfirði, svo ekki sé minnst á spurningar um hvers vegna fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar sé að vasast í slíku?

Fram kemur í fréttinni að Orkuveitan hafi nú þegar varið um sjö milljörðum til uppbyggingar á Carbfix.

Auk þessa hefur Carbfix fengið vilyrði frá Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins um 16 milljarða styrk. Það er aðeins lítill hluti af þeim kostnaði sem er fram undan vegna uppbyggingar á framleiðslu Carbfix. Í síðustu fjárhagsspá OR kemur fram að fjárfesta verði fyrir tæpa sjötíu milljarða króna fram til ársins 2028 vegna verkefna Carbfix. Í sömu fjárhagsspá er gert ráð fyrir að tekjur Orkuveitunnar muni vaxa um 31,8 milljarða fram til ársins 2028 eða um 50%. Væntingar um þennan mikla tekjuvöxt byggjast fyrst og fremst á vonum stjórnenda Orkuveitunnar um að tekjur Carbfix muni vaxa mikið og hratt.

***

Það er ákaflega fróðlegt hversu mikið stjórnendur leggja undir að allt gangi upp hjá Carbfix. Sér í lagi í ljósi þess að Orkuveitan er í eigu og á ábyrgð reykvískra útsvarsgreiðenda. Í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra um rekstrarárið 2023 kemur eftirfarandi fram:

„Orkuveitan er afdráttarlaus í stuðningi sínum við framtíðarþróun Carbfix og mun halda áfram að veita bæði fjárhagslegan og rekstrarlegan stuðning í framtíðinni. Nauðsynlegar ráðstafanir hafa verið gerðar til að undirbúa breytingar á eignarhaldi Carbfix með því að fá inn nýja hluthafa.

Lokað útboðsferli er í gangi þar sem markmiðið er að tryggja langtímafjármögnun á Carbfix, þróun á Coda Terminal verkefninu ásamt því að halda áfram að koma Carbfix tækninni fram á heimsvísu. Gert er ráð fyrir að útboðsferlinu ljúki á árinu 2024.“

Síðasta haust voru sagðar fréttir af því að bandaríska sjóðsstýringafélagið Stonepeak hefði í huga að koma inn sem hluthafi í Carbfix. Nýlega sagði viðskiptavefurinn Innherji frá því að óvíst sé hvort af þeirri fjárfestingu verði en orðrómur er á markaði um að Stonepeak hafi alfarið fallið frá þessum áformum.

Staðan á Carbfix minnir um margt á stöðu Ljósleiðarans sem er annað dótturfyrirtæki Orkuveitunnar. Eftir kaup Ljósleiðarans á innviðaneti Sýnar hefur stjórn félagsins leitast eftir aðkomu nýrra fjárfesta að félaginu án árangurs. Fram hefur komið í fjölmiðlum að fjárfestar hafi lítinn áhuga á að gerast minnihlutaeigendur í félagi sem er í eigu Orkuveitunnar. Viðskiptablaðið hefur greint frá því að stjórn Orkuveitunnar hafi samþykkt að taka sjálf þátt í fyrirhugaðri hlutafjáraukningu Ljósleiðarans ef ekki reynist áhugi meðal fjárfesta að fjárfesta í félaginu. Orkuveitan hafði áður horft til þess að taka ekki sjálf þátt í hlutafjáraukningunni.

Á sama tíma og allt er á huldu með hvort að það takist að fá fjárfesta að Carbfix fyrir árslok eins og stefnt er að virðast líkurnar á því að uppbyggingaráformin við Straumsvík og á Völlunum raungerist fara minnkandi. Hafnarfjarðarbær mun ekki standa straum af fimmtán milljarða króna hafnarframkvæmdum í Straumsvík sem er forsenda uppbyggingar Carbfix og vaxandi andstaða virðist við málið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Kristín Thoroddsen, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, lýsti fyrir nokkru á samfélagsmiðlum að hún muni ekki styðja við áform Carbfix í Hafnarfirði og það þýðir að meirihlutinn þyrfti að reiða sig á minnihlutann til að koma málinu gegn sé fyrir því áhugi innan bæjarstjórnarinnar. Fulltrúar minnihlutans hafa talað fyrir íbúðakosningu.

Staða mála og óvissa um framgang uppbyggingar Carbfix vekja upp fjölda spurninga sem eðlilegt er að fjölmiðlar leiti svara við. Þær snúa ekki síst að áhrifum þess á rekstur Orkuveitunnar ef tafir verða á verkefnum Carbfix og dráttur á að sú mikla tekjuaukning sem stjórnendur OR vænta vegna umsvifa dótturfélagsins skili sér. Væntanlega yrðu áhrifin fyrst og fremst þau að stjórnendur Orkuveitunnar færu að leggja meiri áherslu á kjarnarekstur félagsins og uppbyggingu á framleiðslugetu.

Þessar spurningar verða áleitnari þegar haft er í huga að stjórnendur Orkuveitunnar hafa gegnum tíðina verið gjarnir að blanda eigin landa svo reynt sé að staðfæra hin þekktu og skynsamlegu tilmæli: Don‘t get high on your own supply. Risarækjueldi, Ljósleiðarinn, línræktun, svo fátt eitt sé nefnt, eru ágæt dæmi um það.

***

Flugsamgöngur röskuðust, greiðslukerfi hættu að virka og sjónvarpsútsendingar rofnuðu um heim allan þegar hrun átti sér stað í tölvukerfum Microsoft. Áhrifanna gætti hér á landi þá einna helst í fjármálakerfinu.

Athygli vakti að fréttamenn Stöðvar 2 töldu hins vegar fréttnæmast að bókunarkerfi húðfegrunarstofu í Lágmúlanum hefði farið í steik og birtu viðtal í fréttatímanum við móttökuritarann sem sagði farir sínar ekki sléttar.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistil birtist fyrst í blaðinu sem kom út 24. júlí 2024.