Áhugaverð frétt birtist á Vísi á föstudag. Í henni segir Jakob Bjarnar Grétarsson blaðamaður frá því að Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur fréttamanni hefði verið vikið úr ritstjórn Kveiks sem er fréttaskýringaþáttur Ríkisútvarpsins.
Eins og segir í fréttinni mun Ingólfur Bjarni Sigfússon, ritstjóri Kveiks, hafa sagt eitthvað á þá leið að hæfileikar Maríu lægju ekki á sviði rannsóknarblaðamennsku en eftir sem áður væri hún frábær fréttalesari. Það er enginn skortur á yfirlæti hjá ritstjóranum. Eða bara karlrembu, því hann hefði allt eins getað sagt „Haltu kjafti og vertu sæt,“ eins og rauðsokkurnar kvörtuðu undan fyrir hálfri öld.
Þá kom fram í frétt Jakobs að María hefði unnið að umfjöllun sem var tilbúin til birtingar og ákveðið hefði verið á síðustu stundu að hætta við og Maríu vísað úr ritstjórninni. Orðrómur var meðal blaðamanna um að María hefði unnið lengi að umfjöllun um lóðaúthlutanir borgarinnar til olíufélaganna.
Daginn eftir að frétt Vísis birtist sagði DV frá því að fréttaskýring Maríu hefði fjallað um umdeilda samninga sem Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri, gerði við olíufélögin á sínum tíma. Með þeim var félögunum gert kleift að breyta bensínstöðvarreitum í rótgrónum hverfum í verðmæta byggingarreiti hvers virði hleypur á milljörðum.
Þeir sem þekkja til þessara samninga hafa vitað um árabil að þessi afhending borgarstjóra á verðmætum til olíufélaganna orkar tvímælis og full þörf hefur verið á því að samningarnir séu skoðaðir af blaðamönnum – að ekki sé talað um það hofmóðuga fólk sem kallar sig rannsóknarblaðamenn. Greinilegt er að þeir sem stýra fréttaumfjöllun RÚV eru ekki á þessari skoðun.
Ummæli Ingólfs, ef rétt eru höfð eftir í frétt Vísis, gefa til kynna að Ingólfur Bjarni telji hana ekki eiga erindi í lávarðardeild íslenskrar rannsóknarblaðamennsku eins og starfsfólk Ríkisútvarpsins virðist líta á ritstjórn Kveiks.
Staðreynd málsins er hins vegar að María er þrautreyndur fréttamaður með langan starfsferil að baki og Kveikur er í besta falli mistækur þáttur sem hefur oftar en ekki gerst sekur um léleg vinnubrögð.
María hefur oft náð að kjarna flóknar fréttir vel þannig að eftir hefur verið tekið. Til að mynda frammistaða hennar þegar hún var í beinni í anddyri Valhallar í hálftíma samfleytt og beið eftir að Vilhjálmur Vilhjálmsson – þessi gamli góði – kæmi af fundi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins og boðaði afsögn sína hérna um árið eftirminnilega. Hún hélt það út án þess að falla orð úr munni allan tímann, það var ekki mas heldur fín frásögn af aðdraganda, málavöxtum, átökum í flokknum og mögulegum niðurstöðum. Slíkt er ekki einleikið.
Þá að þættinum Kveik og þeim kröfum sem gerðar eru til þess efnis sem í
honum birtist. Nærtækt dæmi um að þær séu ekki miklar er umfjöllun þáttarins frá því í desember um þá staðreynd að fjölmörg útflutningsfyrirtæki geri upp bókhald sitt í evrum af eðlilegum ástæðum.
Fjallað var um þáttinn á þessum vettvangi. Þar kom fram að í þættinum gerði Kristín Sigurðardóttir fréttakona tilraun til að varpa fram þeirri mynd að hér á landi byggju tvær þjóðir sem deildu ekki sömu kjörum. Annars vegar eigendur fyrirtækja sem gera upp í evrum og hins vegar hinn þungbúni nafnlausi skari sem situr uppi með sínar krónur.
Nú fær umræða um reikningsskil fyrirtækja blóð fæstra til að renna hraðar. En í meðförum Kveiks mætti halda að um meiri háttar samsæri væri að ræða gagnvart þjóðinni. Miðað við þann ham sem þáttargerðarmenn voru í er undrunarefni hvernig þeir gátu staðist þá freistingu að skreyta þáttinn með myndefni af körlum með pípuhatta og í sjakketi akandi um borg og bæi þessa lands með vasana troðfulla af evrum.
Framsetningin í þættinum minnti á málflutning Viðreisnar en þingmenn og fylgihnettir flokksins hafa einnig talað á þá leið að fyrirtækin í landinu hafi tekið upp evru og skilið mörlandann eftir í torfkofunum eða eitthvað álíka.
Eins og bent var á í annarri fjölmiðlarýni er slíkur málflutningur fráleitur. Þegar tekjur og gjöld fyrirtækja eru að stórum hluta í erlendri mynt er fullkomlega eðlilegt að reikningsskilum sé þannig háttað.
Það kann að einfalda rekstur útflutningsfyrirtækja sem selja vörur sínar á alþjóðamörkuðum að gera upp í annarri mynt.
Það jafnar út sumar sveiflur og kann auðvitað að skapa önnur vandamál á móti í reikningshaldinu. En þetta breytir engu fyrir reksturinn.
Umfjöllun Kveiks var með þeim hætti að vafalaust kom hún til tals þegar ákveðið var að helga eina rammagrein í síðustu fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans uppgjöri fyrirtækja í erlendum gjaldmiðlum. Í henni var algengur misskilningur manna á málinu – misskilningur sem var leiðarljós umfjöllunar fréttaskýringaþáttarins – hrakinn.
Hægt væri að nefna fleiri dæmi. Hér skal þó látið duga að minnast á Bjarmalandsför Ingólfs Bjarna til Úkraínu við upphaf innrásar Rússa þar sem tilfinningalíf ritstjórans var helst til umfjöllunar. Vakti sú umfjöllun almenna furðu.
Að lokum má velta fyrir sér hvaða ástæður geti legið að baki ákvörðuninni að hætta við að sýna umfjöllunina á síðustu stundu.
Nú er Ingólfur Bjarni ritstjóri þáttarins og ætti því að vera fullkunnugt um efnistök Maríu á umfjöllunarefninu. Sem fyrr segir þá mun hún hafa unnið að þessari umfjöllun í töluverðan tíma og hefur bæði reynslu og þekkingu á vinnslu slíkra frétta. Þetta kallar á frekari útskýringar af hálfu ritstjórnar Kveiks.
Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri Ríkisútvarpsins, hefur stigið fram og sagt að fréttaskýring Maríu hafi einfaldlega ekki verið tilbúin til birtingar. María hafnar þessu með öllu. Hún útskýrði sína hlið á samfélagsmiðlum síðustu helgi. Í frétt Vísis um það mál segir:
„Mat fréttastjóra og ritstjóra Kveiks var að ekki næðist að fullvinna efnið í tæka tíð og ef ég sæi það ekki sjálf ætti ég ekki erindi í rannsóknarblaðamennsku,“ segir María Sigrún.
Hún segir að ef vilji hafi verið til staðar til þess að fullvinna innslagið og koma því í loftið hefði það náðst. Fimm af níu starfsmönnum Kveiks hafi verið að undirbúa efni fyrir næstu þáttaröð sem hefst í september og því hefði verið auðvelt að hjálpast að ef tímaþröng var vandamálið.
Í ljósi áratuga reynslu hennar af blaðamennsku er óhætt að treysta mati hennar hversu mikla vinnu hefði þurft til að leggja lokahönd á fréttaskýringuna. Afsakanir Heiðars eru ótrúverðugar.
Við þetta allt bætast svo aðrar óþægilegar spurningar. Skiptir það einhverju máli að Stefán Eiríksson útvarpsstjóri kom þangað úr ráðhúsinu, þar sem hann var borgarritari undir handarjaðri Dags og á honum nokkra skuld að gjalda? Eða að Ríkisútvarpið ohf. á Reykjavíkurborg það að þakka að hafa fengið byggingarrétt undir fjölbýlishús á lóð sinni, en það fasteignabrask bjargaði RÚV fjárhagslega um hríð? Eða að RÚV fær umtalsverðar leigutekjur frá Reykjavíkurborg sem leigir hluta útvarpshússins í Efstaleiti? Nú eða að Einar Þorsteinsson borgarstjóri, sem þessa dagana vantar bæði fylgi og aura í borgarsjóð, er fyrrverandi samstarfsmaður Ingólfs Bjarna ritstjóra, Heiðars Arnar fréttastjóra og Stefáns útvarpsstjóra?
Fjölmiðlarýnir hefur ekki forsendur til þess að svara því, en spurningarnar blasa samt sem áður við og eru ekki til þess fallnar að auka trúverðugleika stofnunarinnar og stjóranna allra.
Annars vekur það athygli fjölmiðlarýnis að það starfi níu manns að gerð Kveiks. Og meira en helmingur þeirra er að vinna að einhverjum áhugamálum sem munu hugsanlega birtast næsta vetur. Það er greinilega nóg til eins og Halla Gunnarsdóttir sagði á sínum tíma. Slíkt dútl hefði aldrei fengið viðgangast á einkareknum miði. Sérstaklega þegar gæði þess efnis sem Kveikur vinnur er ekki meiri en raun ber vitni.
Talandi um einkarekna miðla. Ferskir straumar blása nú um hina fornfrægu útvarpsstöð X 977. Greinilegt er að ákvörðun hefur verið tekið um að auka vægi talaðs máls í dagskrá stöðvarinnar til blands við bárujárnsrokkið. Er það vel enda hafa flestir þáttastjórnendur eitthvað áhugavert að segja.
Vert er að vekja athygli á þættinum Djúpið sem er á dagskrá eftir hádegi á föstudögum. Í þættinum fjalla þeir Addi Tryggvason söngvari Sólstafa og Sigurjón Kjartansson hertogi hljómsveitarinnar Ham um tónlist og sögu einstakra hljómsveita ásamt því að greina þá strauma og stefnur sem hafa mótað tónlist undanfarinna árartuga.
Þættirnir eru sérstaklega skemmtilegir og fróðlegir og er óhætt að hvetja alla þá sem hafa áhuga á sögu dægurmenningar að hlusta á.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 1. maí.