Það segir meira en mörg orð um á hvaða stað stjórnmálaumræðan er stödd í aðdraganda Alþingiskosninganna að nánast ekkert er  um verðmætasköpun og hvaða tillögur framboðin hafa fram að færa þegar kemur að stuðla að frekari lífkjarasókn íslensku þjóðarinnar.

Aftur á móti hefur umræðan hverfst um með hvaða hætti stjórnmálaflokkarnir ætla að gera út á skattgreiðendur með hækkun auðlindaskatta, bankaskatts, fjármagnstekjuskatts og tekjuskatts þeirra sem einstaka stjórnmálaöflum er uppsigað við. Að ekki sé minnst á tillögur um nýjar skattaálögur. Þeir flokkar sem ekki tala beinlínis fyrir þessum málstað þaga að mestu þunnu hljóði þegar kemur að skattamálum.

„Það er nóg til!“ sagði Halla Gunnarsdóttir, starfandi stjórnarmaður í VR, og þuldi síðan upp alla þá skatta sem hana langar til að leggja á eða hækka í Silfrinu fyrr á þessu ári. Síðan þá hefur fjöldi stjórnmálamanna tileinkað sér viðhorf Höllu. Það er með öllu óásættanlegt.

Það blæs ekki byrlega í sjávarútveginum um þessar mundir. Útlit er fyrir loðnubrest þriðja árið í röð, aflaheimildir í bolfiski hafa verið skornar niður og makríllinn gengur ekki í sama mæli inn í lögsöguna og áður. Ástandið endurspeglast í afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og er nærtækt að benda á níu mánaða uppgjör Brims og Síldarvinnslunnar sem voru kynnt í Kauphöllinni í síðustu viku.

Þetta skiptir miklu máli enda er sjávarútvegur ein af meginstoðum hagkerfisins. Þrátt fyrir það virðast stjórnmálamenn ekki hafa neitt annað til málanna að leggja en að hækka skatta og álögur á geirann enn frekar. Það mun hvorki auka verðmætasköpun né bæta lífskjör landsmanna.

Orkuskortur og skerðingar á afhendingu raforku undanfarin misseri hefur leitt til þess að tugmilljarða útflutningsverðmæti fyrir þjóðarbúið hafa glatast. Ekkert bendir til þess að þessi staða breytist í bráð. Þrátt fyrir það er furðu lítið rætt um orkuskortinn og nauðsyn þess að raforkuframleiðsla verði aukin til þess að stuðla að frekari hagsældarsókn samfélagsins, Þess í stað er rætt um aukna skattheimtu á raforkuframleiðslu og á orkufyrirtækin.

Málið er ekki rætt með hliðsjón af verðmætasköpun. Mikil tækifæri felast í landeldi hér á landi og er mikil uppbygging fram undan í greininni. Það er ekki síst raforkuframleiðsla sem stendur þessari uppbyggingu fyrir þrifum. Í stað þess að ræða það úrlausnarefni í aðdraganda kosninga er eins og fyrr segir nánast eingöngu rætt um skattheimtu á geirann.

Samfylkingin, sá flokkur sem nýtur mest fylgis í könnunum, ætlar að hækka fjármagnstekjuskatt í 25%. Í því samhengi hefur ekkert verið rætt hversu miklu máli einyrkjar og lítil fyrirtæki skipta fyrir efnahagskerfið. Þarna eru vaxtarsprotarnir og grasrót nýsköpunar. Þögul sátt virðist ríkja um að hækka skatt á þennan geira atvinnulífsins.

Eins og Jón Elvar Guðmundsson skattasérfræðingur rifjaði upp í  aðsendri grein í Viðskiptablaðinu á dögunum þá er staðreynd málsins að engir aðrir en einstaklingar geta endanlega borið skattbyrðina.  Þeir gera það beint, eða óbeint, í gegnum fyrirtæki sem þeir eru hluthafar eða haghafar í.  Þetta er einfaldlega staðreynd.  Félög borga vissulega skatta en kostnaðurinn við það er borinn endanlega af einstaklingum.  Þeir sem taka ekki Jón trúanlega í þessum efnum er hægt að benda á 1291 blaðsíðna tveggja binda rit útgefið af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um hönnun og gerð skattkerfa málinu til stuðnings.

Það gildir því einu hvaða skattar eru hækkaðir. Það eru alltaf einstaklingar – vinnandi fólk – sem bera skattbyrðina á endanum. Meirihluti stjórnmálamanna virðast vera aftengdur þessum veruleika. Í úttekt Viðskiptablaðsins fyrr í mánuðinum kom í ljós að langstærsti hluti frambjóðenda í Alþingiskosningunum er sprottinn upp í opinbera geiranum. Sú staðreynd kann að skýra þessa aftengingu.

Þessi leiðari birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 27. nóvember 2024.