Eins og fjallað hefur verið um á þessum vettvangi hefur fréttaskýringaþátturinn Þetta helst á Ríkisútvarpinu verið að fjalla um umsvif útgerðarfélaga í íslensku atvinnulífi. Þátturinn er í umsjón Inga Freys Vilhjálmssonar, fyrrverandi blaðamanns á Heimildinni, og virðist þáttagerðinni ætlað að vera ríkisrekið framhald af störfum hans á þeim miðli.

Í þarsíðustu viku voru umsvif Ísfélagsins í Vestmannaeyjum og Kaupfélags Skagfirðinga tekin fyrir í þætti Inga Freys. Tilefnið var kaup Myllunnar-Ora á gjaldþrota majónesfabrikku í Hafnarfirði. Af umfjöllun Ríkisútvarpsins mátti ráða að kaupin væru til marks um hvernig stór útgerðarfélög væru hreinlega að sölsa undir sig hvert fyrirtækið af fætur öðru í íslensku efnahagslífi.

Það er orðum of aukið svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Það sést glögglega þegar hlutdeild Ísfélagsins og KS ásamt tengdum félögum í samanlögðu eigið fé íslenska viðskiptahagkerfisins. Hlutfallið er rétt ríflega eitt prósent í tilfelli bæði Ísfélagsins og KS og fyrirtækja í þeirra eigu. Séu þessi fyrirtæki að kaupa upp allt Ísland þá gengur það ákaflega hægt.

***

Í síðustu viku var svo Samherji skotspónn Inga Freys. Ekkert nýtt kom fram í þeirri umfjöllun. Flestir vita að Samherji er stór og umsvifamikil útgerð íeigu  einnar fjölskyldu sem hefur fjárfest í öðrum fyrirtækjum. Til þess að setja umsvifin í samhengi er rétt að benda á að sameiginleg velta Samherja og tengdra félaga er aðeins um 1% af heildarveltu fimm hundruð stærstu fyrirtækja Íslands – eins og fjallað er um árlega í útgáfu Frjálsrar verslunar systurmiðils Viðskiptablaðsins – og sameiginlegt eigið fé þeirra er um 1,9% af samanlögðu eigið fé stærstu fyrirtækja landsins.

Ingi Freyr var svo sem ekki að setja málin í þetta samhengi. Enda var leikurinn sennilega aldrei til þess gerður. Þess í stað var klifað á samþjöppun auðs og fyrirtækja og stærsti hluti þáttarins fór í að flytja rök Páls Gunnars Pálssonar forstjóra Samkeppniseftirlitsins um nauðsyn þess að stofnunin fái meira fé úr ríkissjóði.

Í endursögn af efni þáttarins á vef Ríkisútvarpsins segir:

Samkeppniseftirlitið kallar eftir því að stofnunin fái frekari fjárveitingar til að rannsaka stjórnenda- og eigendatengsl í íslenskum sjávarútvegi. Þetta segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri ríkisstofnunarinnar, þar sem hann ræðir um athuganir Samkeppniseftirlitsins síðastliðin áratug á tengslum Samherja og Síldarvinnslunnar. „Við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma Samkeppniseftirlitinu í þá fjárhagslegu stöðu að geta sinnt athugun af þessu tagi. […] Við höfum haft vilja til að ráðast í slíka athugun hvað sjávarútveginn varðar en ekki haft bolmagn til þess. […] Þetta er brýnt að okkar viti.

Samherji hefur í gegnum árin verið stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar og hefur Samkeppniseftirlitið ítrekað skoðað tengsl fyrirtækjanna í einstaka samrunum i íslenskum sjávarútvegi. Að baki þessum athugunum liggur sá grunur Samkeppniseftirlitsins að stjórnunar- og eigendatengsl séu það mikil að líta beri á þessi fyrirtæki sem eina einingu.”

Þetta er gamalkunnugt stef sem heyrist reglulega. Það að það hljóti eitthvað óeðlilegt eigi sér stað í íslenskum sjávarútvegi og það kalli á meiri háttar rannsóknir af hálfu eftirlitsaðila og að ekki sé minnst á kortlagningu á umsvifum fyrirtækja innan greinarinnar og á fjárfestingum þeirra. Þessi málflutningur hefur oftar en ekki fallið í frjóan jarðveg meðal stjórnmálahreyfinga á borð við Vinstri græna og Viðreisn og er jafnframt haldið á lofti í sölum Efstaleitis og hjá systurmiðlinum Heimildinni. Umfjöllun Inga Freys sem fjallað hefur verið um hér á undanförnum vikum er ágætt dæmi um þetta.

***

Í þættinum segir Ingi Freyr að saga afskipta Samkeppniseftirlitsins af starfsemi Samherja og Síldarvinnslunnar sé eitt dæmi um það hvernig möguleg samþjöppun á eignarhlutum í aflaheimildum kemur inn á borð eftirlitsins.

Þetta er óneitanlega sérstök fullyrðing og sýnir kannski ágætlega á hvaða undarlegu vegferð Samkeppniseftirlitið hefur verið þegar kemur að sjávarútvegsfyrirtækjum. Undarlegt í ljósi þeirrar staðreyndar að ekkert í samkeppnislögunum fjallar um hámark aflahlutdeildar einstakra útgerða í nytjastofnum. Það er hins vegar gert í lögum um stjórn fiskveiða en í þeim eru að finna takmarkanir á aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila. Það er Fiskistofa sem hefur eftirlit með þessu ákvæði en ekki Páll Gunnar Pálsson og hans fólk í Samkeppniseftirlitinu.

Ekki hefur borið á gagnrýni á Fiskistofu í þessum efnum. Í skýrslu Rík­is­end­ur­skoðunar um eft­ir­lit Fiski­stofu frá ár­inu  kemur fram að stofnunin uppfylli eftirlit samþjöpp­un afla­heim­ilda. Einnig kemur fram í skýrslunni að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, forveri matvælaráðuneytisins, taldi Fiskistofu fullfæra til þess að sinna eftirliti með samþjöppun í sjávarútvegi.

***

Sem fyrr segir hefur Samkeppniseftirlitið gegnum tíðina ýjað að því ekki sé allt með felldu í íslenskum sjávarútvegi og það hefur í samspili við fjölmiðlaumfjöllun líkt á þá sem Ingi Freyr býður upp á í Ríkisútvarpinu skapað sæmilega frjóan jarðveg fyrir þá sem sjá hag sínum borgið með því að tortryggja þessa grundvallaratvinnugrein íslensks efnahags.

Flestir muna eftir því þegar Svandís Svavarsdóttir, þá matvælaráðherra, gerði samning við Samkeppniseftirlitið um viðamikla úttekt á stjórnunar- og eignatengslum í íslenskum sjávarútvegi. Svandís og Páll Gunnar voru gerð afturreka með þann samning.

En það sem er mikilvægt að hafa í huga er að Samkeppniseftirlitið átti þarna að rannsaka eitthvað sem engin leynd hvílir á. Það kemur ágætlega fram í samtali sem Viðskiptablaðið átti við Guðmund Kristinsson forstjóra Brims sumarið 2023 sem og hversu undarleg sú úttekt var. Í umfjölluninni segir:

“Guðmundur bendir á að ríkisskattstjóri, Fjármálaeftirlitið, Fiskistofa og Samkeppniseftirlitið geti kallað eftir öllum þessum gögnum. „Þeir verða bara að gera það með réttum hætti.“

Öll gögnin í gagnabeiðninni séu einnig aðgengileg og auðfundin.

„Eignarhald í sjávarútvegi er algjörlega á hreinu. Þú ferð inn í RSK og þar eru allir endanlegir eigendur á öllum fyrirtækjum á Íslandi. Skatturinn veit nákvæmlega alla eigendur á öllum fyrirtækjum,“ segir Guðmundur.

„Einn ættfræðingur og Excel-fræðingur gætu gert þetta á einni viku og sagt þér nákvæmlega hverjir eiga öll sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi. Kvótinn er allur skráður á fiskiskip og fiskiskip eru skráð á eigendur hjá Siglingastofnun.“

Guðmundur segir tímabært að einhver veiti opinberum stofnunum aðhald og spyrji hvort það sé leyfilegt að ráðherra rannsaki borgara og fyrirtæki með þessum hætti.

„Þetta er bara prinsipp mál,“ segir Guðmundur.

***

Sem fyrr segir voru matvælaráðherra og Samkeppniseftirlitið gerð afturreka með þessa fánýtu úttekt. Í október árið 2023 var svo Páll Gunnar í viðtali í Silfrinu á Ríkisútvarpinu. Þar sagði hann:

Það eru vísbendingar í nokkrum tilvikum í fortíðinni um að eignatengslin séu nokkuð víðtæk og kunni að leiða til þess að yfirráð yfir einstökum fyrirtækjum kunni að vera víðtækari og þá meiri samþjöppun heldur en opinber gögn gefa til kynna.”

© Þröstur Njálsson (Þröstur Njálsson)

Þessi ummæli voru aldrei skýrð frekar. Sem forstjóri Samkeppniseftirlitsins hefur Páll Gunnar rannsakað fjölda samruna, fengið öll gögn um eignarhald, beint og óbeint, og óskað frekari gagna sem kunna að leiða í ljós hvort einstakir aðilar eða hópar aðila séu tengdir þannig að líta megi svo á að þeir fari með yfirráð í reynd. Þessar rannsóknir hafa ekki kallað á nein veruleg viðbrögð af hálfu Samkeppniseftirlitsins og virðast því óljósar yfirlýsingar forstjórans til þess eins fallnar að réttlæta málflutning þeirra sem vinna að því að tortryggja greinina með öllum tiltækum ráðum.

Ekki er útlit fyrir að af þeirri iðju verði látið í fyrirsjáanlegri framtíð.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 29. janúar 2025.