Í Viðskiptablaðinu á föstudaginn fyrir 10 dögum birtist pistill Óðins þar sem borinn voru saman Lindarhvolsmálið svokallaða og salan á Íslandsbanka.

Óðinn er í sumarskapi og því er pistillinn í fullri lengd hér á eftir.

Í Viðskiptablaðinu á föstudaginn fyrir 10 dögum birtist pistill Óðins þar sem borinn voru saman Lindarhvolsmálið svokallaða og salan á Íslandsbanka.

Óðinn er í sumarskapi og því er pistillinn í fullri lengd hér á eftir.

Íslandsbanki og Lindarhvoll - tvöfalt siðgæði

Er til betra dæmi um tvöfalt siðferði en þegar Íslandsbankasalan og málefni Lindarhvols eru borin saman?

Í skýrslu Fjármálaeftirlits Seðlabankans var sett út á minnstu smáatriði vegna sölunnar, en í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Lindarhvol frá árinu 2020 var ekki svo mikið sem ein athugasemd.

Þar var bara gefin einkunnin 10 – fullkomin stjórnsýsla!

Það er því forvitnilegt að bera saman þennan mun, hvernig slegin er skjaldborg um embættismenn en opið skotleyfi gefið á starfsfólk Íslandsbanka. Af hverju þessi hrópandi mismunur?

Hlutabréfaútboð eru hrein sölustarfsemi. Við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars í fyrra reyndu starfsmenn bankans og fleiri að fá einstaklinga og fyrirtæki til að taka þátt í útboðinu – kaupa hlutabréf.

Margir afþökkuðu en einhverjir þáðu boðið og tóku þátt. Þótt reglurnar segi að öll símtöl eigi að vera hljóðrituð heyrir það til algerra undantekninga að leita þurfi í símtöl eftir útboð. Allir sem skuldbinda sig til að taka þátt, standa við sín orð, enda víst að annars yrði aldrei haft samband við þá aftur.

Vissulega hefðu starfsmenn Íslandsbanka átt að vanda sig betur við útboðið og störf þeirra eru um margt gagnrýniverð.

Afleiðingar þess er himin há sekt og sex starfsmenn, þar á meðal bankastjórinn, hafa orðið að yfirgefa bankann. Þegar horft er yfir sviðið er þó ljóst að enginn varð fyrir fjártjóni vegna útboðsins – nema ef vera kynni þeir sem tóku þátt í útboðinu.

Í því ljósi er sérkennilegt hve Fjármálaeftirlit Seðlabankans reiddi hátt til höggs. Leiða má líkur á því að með skýrslunni, og hve gildishlaðinn hún var, var markmið embættismanna FME frekar að gera sjálfa sig gildandi, en reyna að auka traust og trúverðugleika á fjármálamarkaði.

Hafa má í huga að einn af hverjum sjö sem starfa á íslenskum fjármálamarkaði vinna við eftirlit með markaðnum. Annað hvort hjá Fjármálaeftirlitinu eða hjá fjármálastofnunum við að skrifa skýrslur og svara fyrirspurnum.

Því er haldið fram að ástæðan fyrir hárri fjársekt á Íslandsbanka sé ósk Evrópusambandsins um að aðildarlönd þessi hækki sektir á fjármálafyrirtæki. Engin önnur skýring er nærtæk því enginn veit hvernig sektarupphæðin var fundin út og af hverju hún er þrettán sinnum hærri en næst hæsta sekt sem FME hefur lagt.

Þá eru viðbrögð stjórnmálamanna einnig athyglisverð en þeir stukku til þegar skýrsla FME kom út og vísuðu allri ábyrgð á starfsmenn Íslandsbanka. Það voru skiljanleg viðbrögð.

***

Athyglisverð yfirlýsing

Í kjölfar skýrslu FME kom vinstri ríkisstjórnin með sérstaka yfirlýsingu þar sem segir:

„Traust og gagnsæi verður að ríkja um sölu á eignum ríkisins. Almenningur á skýra og óumdeilda kröfu um að allar upplýsingar séu uppi á borðum um slík áform, markmið þeirra og áhrif.”

Óhætt er að taka undir þessi orð, en um leið vaknar auðvitað strax spurningin – af hverju á þetta ekki við um Lindarhvol? Af hverju leggst maður undir manns hönd við að reyna að þagga í þeim sem vilja fá upplýsingarnar upp á borð?

Áhugavert er að rifja það upp að Guðmundur Björgvin Helgason ríkisskoðandi var með allt á hornum sér þegar hann skilaði af sér skýrslu um söluna á Íslandsbanka. Þar reyndi hann að koma allri sök á Bankasýsluna sem Ríkisendurskoðun taldi að hefði geta fengið hærra verð á hlut í útboðinu. Þar hefði ríkið orðið af miklum fjárhæðum.

Tíminn hefur augljóslega leitt í ljós að þessi niðurstaða er tómt rugl. Hvergi örlar þó fyrir tilraunum Ríkisendurskoðunar að skoða hvort eðlilegt verð hafi fengist fyrir hlutina sem Lindarhvoll seldi. Þar hækkuðu þó sumir eignarhlutirnir verulega strax í kjölfar sölu Lindarhvols á þeim. Það er meðal annars eitt af því sem Sigurður Þórðarson, settur ríkisendurskoðandi, hefur bent á.

Af hverju fékk Bankasýslan afleita einkunn hjá Ríkisendurskoðun en Lindarhvoll hæstu einkunn í úttekt stofnunarinnar? Af hverju segir Guðmundur Björgvin ríkisendurskoðandi og stjórnmálafræðingur að „það sé ekki hlutverk stofnunarinnar að skera úr um ágreining við lagatúlkun“ þegar kemur að skýrslunni um Bankasýsluna, en kemur svo með lagatúlkanir á færibandi þegar kemur að Lindarhvoli?

Af hverju þetta tvöfalda siðferði?

***

Nú liggur fyrir að Sigurður Þórðarson, settur ríkisendurskoðandi, hefur vísað málefnum Lindarhvols til ríkissaksóknara, sem hefur nú vísað málinu til héraðssaksóknara. Það má ætla að Sigurður telji að lögbrot hafi verið framin í starfsemi Lindarhvols.

Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir, þótt sumir reyni að gera lítið úr þeim og Sigurði. Skýrsla Sigurðar Þórðarsonar var mildilega orðuð en ætla má að hann viti töluvert meira um hvað fór úrskeiðis hjá Lindarhvol en það sem hefur komið fram. Um hvað ætlar Sigurður að upplýsa héraðssaksóknara, sem ekki kom fram í skýrslunni en hann varð áskynja?

***

Fékk ekki svör

Óskiljanlegt er með öllu að forysta Sjálfstæðisflokksins skuli ítrekað reyna að koma í veg fyrir að almenningi berist upplýsingar um hvernig staðið var að sölu eigna skattgreiðenda hjá Lindarhvol. Til að setja hluti í samhengi nam Íslandsbankahluturinn innan við 15% af verðmæti eigna Lindarhvols.

Eitt af því sem stendur upp úr í málflutningi þessara svokölluðu sjálfstæðismanna er að Sigurður Þórðarson hafi ekki lokið gerð skýrslunnar og því sé skýrsla hans einungis drög og vinnugagn í málinu. Er klifað á þessu. Formið trompar því innihaldið. Þetta er ein stærsta meinsemd Sjálfstæðisflokksins.

Enginn gefur því hins vegar gaum að Fjármálaráðuneytið, stjórn Lindarhvols og framkvæmdastjóri þess, neituðu blákalt að svara fjölmörgum fyrirspurnum Sigurðar Þórðarsonar, sem þeim var þó skylt að gera.

Skýrslan hrákasmíði

Annað atriði sem beitt er til að dreifa athyglinni frá kjarna málsins er að skýrsla Ríkisendurskoðunar um Lindarhvol sem kom út árið 2020 sé hin endanlega skýrsla. Hvernig getur það verið?

Hún hefur ekki enn verið samþykkt í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og í henni er skautað yfir margar spurningar og niðurstöður setts ríkisendurskoðanda. Ef til vill er sú staðreynd ástæðan fyrir því að Sigurður Þórðarson ákvað að vekja athygli saksóknara á málinu.

Enda eru þær spurningar hans sem ekki var svarað í skýrslu Ríkisendurskoðunar margar hverjar mjög alvarlegar, eins og til dæmis hvað sé á bak við milljarða króna millifærslur sem engin fylgiskjöl eru um. Hvað varð um þá rúmlega 20 milljarða króna sem voru skildir eftir í slitabúunum fyrir rekstri, en afganginum átti að skila við niðurfellingu þeirra? Var stöðugleikasamkomulagið virt þar? Hér eru aðeins nefnd tvö dæmi, en þau eru miklu fleiri.

***

Raunar reis þagnarmúrinn svo hátt að Sigurður þurfti eitt sinn að hóta Seðlabanka Íslands að hann myndi óska eftir liðsinni lögreglu fengi hann ekki svör við sínum fyrirspurnum. Meðal annars vegna þessarar tregðu náði Sigurður ekki að ljúka ýmsum athugunum sínum í skýrslunni.

Það sama má segja um eftirgrennslan blaðamanna hér á Viðskiptablaðinu. Þeir voru óþreytandi misserum saman við að senda inn fyrirspurnir sem ekki var svarað, ekki einu sinni eftir að Úrskurðarnefnd upplýsingamála hafði tekið undir með blaðinu. Þegar stjórnarmenn Lindarhvols voru svo tilneyddur til að svara spurningum fyrir framan dómara mundu viðkomandi lítið sem ekkert!

Óðinn rekur minni til þess að dómarar hafi fett fingur út í að bankamenn hafi ekki munað eftir einstaka tölvupóstum, jafnvel tíu árum áður, í miðju bankahruni. Það er ekki sama Jón og séra Jón.

***

Misheppnuð sala

Augljóslega misheppnaðist salan á eignarhlut Lindarhvol í Klakka. Alls fengust 500 milljónir króna fyrir félagið – en hefði ekkert verið gert þá hefðu um 1.000 milljónir skilað sér í ríkissjóð vegna þess að félagið var ekki með neina starfsemi og tilgangur Klakka var að selja eigur sínar og greiða andvirðið til hluthafa.

Þá er stórmerkilegt til þess að vita, að fyrir söluna var til verðmat frá Deloitte þar sem eignarhluturinn í Klakka var metinn á um 1.000 milljónir króna, en það var unnið fyrir stjórn Klakka!

Steinar Þór Guðgeirsson sat í stjórn Klakka, fyrir hönd Lindarhvols, og átti í því hlutverki að gæta hagsmuna ríkisins. Er virkilega ætlast til þess að við trúum því að hann hafi ekki séð verðmatið?

Auk þess sem að hann var sérstaklega fenginn í verkið vegna sérþekkingar hans á þeim eignum sem verið var að selja!

Vera kann að einhverjar af þessum greiðslum, sem engar skýringar hafa fengist á, tengist Klakka. Kann það að gjörbreyta komandi málaferlum í Landsrétti. Til dæmis gætu millifærslur bent til þess að undirbúningur viðskipta vegna eignarhlutarins í Klakka, kunni að hafa verið hafinn löngu áður en hluturinn var auglýstur.

Það skýrir einnig hvers vegna eignarhluturinn hafi ekki verið auglýstur svo neinu nemi og að skilgreining Steinars Þórs, og þar með stjórnar Lindarhvols á jafnræði, hafi falist í því að allir fengju eins fáfengilegar upplýsingar um það sem var til sölu og hugsast gat.

Auðvitað stóðst það ekki þar sem BLM ehf., sem hreppti hlutinn, var með allar upplýsingar hvort sem var. Hér blasir við öllum nema Ríkisendurskoðun að jafnræðið sem stjórn Lindarhvols bauð upp á var fjarri því að standast þær kröfur sem Alþingi hafði sett félaginu. Allir voru jafnir, en sumir jafnari en aðrir.

***

Steinar Þór Guðgeirsson
© BIG (VB MYND/BIG)

Steinar Þór alltumlykjandi

Sú staðreynd að Steinar Þór Guðgeirsson lögmaður hafi verið kominn með prókúru fyrir Lindarhvol áður en stjórn Lindarhvols hafði komið saman sýnir að það var ekki stjórnin sem réði ferðinni heldur líkast til embættismenn innan Fjármálaráðuneytisins, með eða án vitneskju ráðherrans.

Lindarhvolur fæddist í Fjármálaráðuneytinu, og líklega á ráðuneytisstjórinn Guðmundur Árnason þar stærstan hluta að máli. Einhver allra slakasti embættismaður sem Íslands hefur átt og eru þá í engu hallað á ríkisskoðanda. Var Lindarhvoll kannski bara frontur fyrir Fjármálaráðuneytið? Til þess að fá fólk til að halda að þarna væru armslengdrasjónarmið í heiðri höfð?

Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar eftirlitsaðili, í þessu tilviki Ríkisendurskoðun, tekur svona einarða afstöðu með þeim sem honum er falið að hafa eftirlit með. Þeir sem þekkja til almannatengsla ganga svo langt að ýja að því að Ríkisendurskoðun sé komin í krísustjórnun (e. Damage Control) eða skaðaminnkunarham fyrir kerfið sem stofnunin á að hafa eftirlit með.

***

Nú þegar farið er að hitna undan Steinari Þór virðist hann á harða hlaupum undan ábyrgð. Þrátt fyrir að vera titlaður framkvæmdastjóri í skipuriti Lindarhvols, setið í stjórnum fyrir hönd Lindarhvols, fengið prókúru fyrir fyrsta stjórnarfund og geymt allt bókhald og eignir félagsins, taldi hann rétta lýsingu á aðkomu sinni í vitnaleiðslum fyrir héraðsdómi vorið 2022, að hann hefði einungis verið „löglærður ráðgjafi“ stjórnarinnar.

Stjórnin gat í sama máli litlu ljósi varpað á staðreyndir það sem stjórnarmenn mundu lítið sem ekkert eftir gjörðum sínum. Svo mikill samhljómur var meðal vitnanna að líkja má Steinari Þór við hljómsveitarstjóra, en við dómsmeðferð málsins kom fram að hann fékk öll vitnin í málinu saman á hópfund til að rifja upp málið áður en vitnaleiðslur hófust.

Fjölhæfni framkvæmdastjórans, prókúruhafans, stjórnarmannsins, lögfræðilega ráðgjafans og sölumannsins Steinars Þórs einskorðaðist ekki við þau hlutverk, heldur gætti hann bæði hagsmuna Lindarhvols og íslenska ríkisins sem lögmaður í málaferlunum, auk þess að vera eitt helsta vitnið.

Athyglisvert er einnig að fyrir þann málarekstur reyndi Steinar Þór allt hvað hann gat til að koma í veg fyrir að Sigurður Þórðarson, settur ríkisendurskoðandi, fengi að bera vitni. Virðist Sigurður ekki hafa verið velkominn á hljómsveitaræfinguna. Eftir að dómari hafnaði þeirri ósk, áfrýjaði Steinar Þór úrskurðinum til Landsréttar, sem ekki tók undir málflutning hans heldur. Þeir sem hafa ekkert að fela óttast ekkert, eða hvað?

***

Skipurit Lindarhvols

Silkihúfur samfélagsins

Nú lítur stjórn Lindarhvols, sem skipuð var þeim Þórhalli Arasyni, þá skrifstofustjóra í Fjármálaráðuneytinu, Hauki C. Benediktssyni, hjá Eignasafni Seðlabanka Íslands og Ásu Ólafsdóttur, þá dósent í lagadeild Háskóla Íslands og núverandi hæstaréttardómara, út eins og hún hafi verið samansafn af silkihúfum samfélagsins sem virkaði sem einhverskonar stimpilpúði fyrir Steinar Þór og þá sem stóðu á bak við hann í Fjármálaráðuneytinu.

Enda kemur það fram í máli Sigurðar Þórðarsonar að Steinar Þór, og lögmannsstofan hans, Íslög, hafi verið yfir og alltumlykjandi. Óskiljanlegt er að þessi ágæti lögmaður hafi fengið að véla um ríkiseignir fyrir tugi milljarða króna nær eftirlitslaust og getað, eins og ViðskiptaMogginn greindi frá, sent inn reikninga án tímaskýrslna (sem honum var þó skylt að gera samkvæmt verktakasamningi) fyrir á þriðja hundruð milljónir króna.

Einhverjum hefði eflaust þótt ástæða til að verkefni af þessari stærðargráðu færi í útboð. Og hvernig getur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra látið þetta viðgangast?

Þegar horft er yfir Lindarhvolsmálið þá vekur furðu hve erfiðlega hefur reynst að fá sjálfsagðar upplýsingar um hvernig höndlað var með eignir almennings og það sem verra er, hve áhugalausir eftirlitsaðilar virðast um það.

Sérstaka furðu vekur afstaða Sjálfstæðisflokksins, en kjósendur þess flokks hafa varla reiknað með því að flokkurinn sýndi fullkomna meðvirkni með Steinari Þór og embættismönnum Fjármálaráðuneytisins og sætti sig við ásýnd hylmingar í huga almennings.

Stóra spurningin er af hverju er settur ríkisendurskoðandi svona ósáttur?

Nærtækasta skýring er að hann sá vinnubrögð sem hann gat alls ekki sætt sig við. Við þessu bregst nú kerfið með Fjármálaráðuneytið, Ríkisendurskoðun og tiltekna þingmenn Sjálfstæðisflokksins, auk fjármálaráðherra, með algjörum þöggunartilburðum og gaslýsingu.Við blasir að hlutverk Steinars Þórs Guðgeirssonar er afar sérkennilegt.

Þetta mál er langt því frá búið.