Hrafnarnir hafa undanfarnar vikur verið að lesa sjálfsævisögu athafnamannsins Jónatans Halldórssonar. Margir Íslendingar þekkja til Jónatans enda hefur hann komið víða við á ferli sínum. Hann þekkir bæði mótlæti og sigra eins og glögglega kemur fram í frásögninni sem er bæði hispurslaus og hreinskilinn.

Jónatan segir frá því hvernig hann sem ungur maður fékk áhuga á bjórdrykkju. Segja má að þar hafi þorstinn leyst úr læðingi sköpunargáfuna sem virðist honum svo eðlislæg og einkennt hefur allan hans feril. Hann fór að brugga sinn eigin bjór og ekki leið á löngu áður en hann var búinn að koma sér upp lítilli handverksbruggsmiðju sem staðsett var í iðnaðarhverfinu við Snarfarabryggjuna í Reykjavík.

Grænlendingur og Maillard-áhrif lykill að velgengni

Hróður bruggmeistarans fór víða á þessum tíma. Naut bjórinn Grænlendingur mikilla vinsælda en nafnið fékk hann af kúmenbragðinu sem var af þeim ágæta drykk. Ekki leið á löngu þangað til að Jónatan stækkaði við sig iðnaðarhúsið og bruggverksmiðjan varð einnig að veitingastað.

Þar bauð Jónatan fyrstu Íslendinga upp á svokallaða smasshamborgara. Fram að þeim tíma hafði engum Íslending hugkvæmst að þrýsta steikarspaðanum þétt að hamborgarakjötinu á meðan að steikingu stóð. Eins og fram kom í grein Ingólfs Aðalssteinssonar í tímaritinu Lifandi vísindi sem birtist árið vorið 2016 var Jónatan sennilega fyrsti Íslendingurinn til að framkalla svokölluð Maillard-áhrif við eldamennsku þarna í litla eldhúsinu í bruggsmiðjunni vinsælu.

Eitt leiddi svo af öðru og fyrr en varði var Jónatan farin að stjórna vinsælu hlaðvarpi þar sem fjallaði um handverksbjóra ásamt félaga sínum Haraldi Jónssyni ásamt því að rabba um mál líðandi stundar. Þar var aldrei langt skopskynið og þar var töluð „tandurhrein íslenska“ eins og það er svo oft orðað. Enda naut hlaðvarpið mikilla vinsælda og Jónatan varð hálfgerð almenningseign á þessum tíma. Vinsælt umfjöllunarefni í fjölmiðlum eins og margir muna eftir. Hrafnarnir ætla ekki að skera um hvort að Jónatan hafi ofmetnast af velgengninni á þessum tíma. En hverju sem því líður þá réðist hann í ákaflega metnaðarfullt verkefni á þessum árum.

Mathöllin sem aldrei varð

Hann hafði á takteinunum að opna fyrstu íslensku mathöllina á þessum tíma og hafði meðal annars tryggt sér fjármögnun á iðnaðarhúsi í austurhluta borgarinnar. Af lestri sögunnar má sjá að Jónatan spennti bogann hátt í þetta sinn og hann viðurkennir að hann hafi misst tök á fjármögnun verkefnisins. En ástríðan fyrir að verða fyrsti Íslendingurinn til að opna mathöll varð öllu yfirsterkara.

Mathöllin opnaði aldrei þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar Jónatans í fjölmiðlum um hvers konar bylting biði Íslendinga í „veitingatengdri upplifun“ eins og hann orðaði það svo oft sjálfur. Íslendingar þurftu að bíða í nokkur ár til viðbótar eftir að fá tækifæri til að borða í mathöll. Mathallarævintýrið sem aldrei varð lauk með gjaldþroti.

Jónatan gerir þennan tíma upp á heiðarlegan hátt og tekur sjálfur ábyrgð á því hvernig fór. Eigi að síður lýsir hann á nákvæman máta hvernig deilurnar við eigendur Hyrnunnar í Borgarnesi um hvort að fullyrðingin um fyrstu mathöllina stæðust hafi dregið mikið úr honum. Sá kafli er ágæt innsýn í myrkari hliðar íslensks viðskiptalífs.

Úr kulnun í kærleikann

Allt er gott sem endar vel. Jónatan vann sig út úr gjaldþrotinu og lagði mikla rækt við að byggja upp andlegu hliðina. Þar fékk hann dygga aðstoð frá Freyju Sigþórsdóttir heilsumarkþjálfa. Seinna meir felldu þau hugi saman. Jónatan sótti nám og útskrifaðist sem löggildur fasteignasali. Hann starfaði þó ekki lengi sem slíkur. Hann gat ekki kveðið niður athafnaandann. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá vinna Jónatan og Freyja nú að því í samstarfi við fjársterka aðila að reisa baðlón í uppsveitum Árnessýslu. Er um fimm milljarða framkvæmd að ræða en stefnt er að því að það opni fyrir gesti vorið 2025.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.