Kennarar eru enn og aftur á leið í verkfall. Félagar í Kennarasambandi Íslands í átta skólum munu leggja niður störf síðar í þessum mánuði. Auk þess munu lúðrarnir loks þagna á Ísafirði þegar tónlistarskóla bæjarins verður lokað vegna aðgerðanna.

Boðað er til verkfallsins á sama tíma og mikil umræða fer fram um stöðu skólakerfisins og þær ógöngur sem það hefur ratað í á síðari árum. Hafa afleitar niðurstöður svokallaðra PISA-kannana varpað ljósi á þennan mikla vanda en um er að ræða alþjóðlega könnun á hæfni og getu fimmtán ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúruvísindum og læsi á stærðfræði.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnti á fjölmennu menntaþingi á dögunum tuttugu aðgerðir til þess að snúa vörn í sókn í þessum efnum. Meðal aðgerða sem Ásmundur Daði boðaði var að leggja meiri áherslu á „sjálfbærni og loftlagsmál í menntun“ og á „stafræna borgaravitund“.

Ólíklegt er að þessar aðgerðir ásamt fyrirhuguðu kennaraverkfalli veki mikla von hjá foreldrum grunnskólanema um að gæði menntunar barna þeirra muni aukast á næstu árum.

Einnig var boðað að fjölga ætti kennurum. Það er umhugsunarefni hvort þess sé þörf. Þannig kom fram í máli Ásmundar barnamálaráðherra á menntaþinginu að stöðugildum deildarstjóra og millistjórnenda í skólum hafi fjölgað um 95% frá árinu 2016 og það séu fyrst og fremst kennarar sem hafa mannað þessar stöður.

Þórður Gunnarsson, hagfræðingur, er ötull baráttumaður fyrir kjörum millistjórnenda.
Þórður Gunnarsson, hagfræðingur, er ötull baráttumaður fyrir kjörum millistjórnenda.

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri og oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, vék að þessu á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldin var í síðustu viku. Á ráðstefnunni sagði Einar:

Mér finnst einhvern veginn öll tölfræði, til dæmis bara um skólana okkar, benda til þess að við séum að gera eitthvað algerlega vitlaust. Að kennararnir séu að biðja um það að fá að vera minna með börnum, en eru samt veikari en nokkru sinni fyrr. Kenna minna og með fleiri undirbúningstíma.“

Í kjölfarið sendi Kennarafélag Reykjavíkur frá sér yfirlýsingu þar sem ummæli Einars eru sögð „svívirðileg móðgun“ við stéttina.

***

En aftur að verkfalli kennara. Verkfallsboðunin snertir líf fjölda fólks með einum eða öðrum hætti. Eðli málsins samkvæmt fjölluðu fjölmiðlar um þá staðreynd og fjöldi viðtala var tekinn við forystu kennara, foreldra og nemendur í þeim skólum sem verða fyrst fyrir barðinu á verkfalls-aðgerðunum.

En fjölmiðlum tókst að skauta alfarið fram hjá því að leita svara við einni lykilspurningu sem verkfallsaðgerðirnar vekja upp: Hverjar eru kröfur kennara? Hvað vilja kennarar fá umfram það sem samið var um í stöðugleikasamningunum á hinum almenna vinnumarkaði?

Þannig var kostulegt að fylgjast með Kastljósinu á fimmtudag þar sem verkfallsaðgerðirnar voru ræddar við Magnús Þór Jónsson, formann Kennarasambandsins. Af viðtalinu að dæma er erfitt að henda reiður á hvaða kröfur kennarar eru að setja fram og hvað þær þýða í krónum og aurum. Magnús vísaði í þessu samhengi til markmiða um að jafna laun kennara við laun annarra háskólamenntaðra sérfræðinga hjá hinu opinbera. Hvort þar væri horft til lögfræðinga í Stjórnarráðinu eða veðurfræðinga hjá Veðurstofu Íslands kom ekki fram.

Enda kom svo á daginn að kennarar hafa ekki skilað neinni kröfugerð í kjaraviðræðum sínum við Samband íslenskra sveitarfélaga. Viðskiptablaðið sagði einn miðla frá þeirri staðreynd síðastliðinn föstudag. Þar var haft eftir Ingu Rún Ólafsdóttir, formanni samninganefndar sveitarfélaganna í deilunni:

Ástæða þess að samninga-nefnd sveitarfélaga vísaði deilunni svo fljótt í samningaferlinu er sú að illa gekk að ná í gang markvissu og uppbyggilegu samtali milli aðila þar sem KÍ-félögin hafa hvorki lagt fram né kynnt kröfugerð sína. Það er einnig fáheyrt að félög hafi boðað verkföll, eins og nú hefur verið gert, áður en viðsemjandanum hafa verið kynntar kröfur félaganna.“

Það verður að teljast ansi sérstakt að boða til verkfalls án þess að styðjast við neina kröfugerð. Enda var sagt frá því um helgina að ríkissáttasemjari hefði sent kennara af fundi með heimaverkefni: til að skýra kröfugerðir sínar betur og gerast markvissari í málflutningi sínum, eins og það var orðað í frétt Ríkisútvarpsins.

Þögn annarra verkalýðsleiðtoga um boðað verkfall kennara vekur einnig eftirtekt. Það hversu kennaraforystan er óskýr þegar talið berst að kröfum hennar bendir ótvírætt til að hún muni fara fram á mun meiri hækkanir en samið var um í kjarasamningum á almenna markaðnum fyrr á þessu ári og hætt er við því að uppnám verði á vinnumarkaði ef fallist verður á þær kröfur á endanum.

Óhætt er að segja að mikið sé í húfi og töluverðar líkur eru á því að þegar kennarar láta sverfa til stáls síðar í mánuðinum muni það á endanum hafa alvarlegar efnahagslegar afleiðingar – það er að segja grafa undan líkum á vaxtalækkunum samhliða hjaðnandi verðbólgu.

***

Áhugaverð frétt birtist á Innherja, viðskiptavef Vísis, í síðustu viku. Í henni er fjallað um greinargerð stjórnar fasteignafélagsins Eikar um yfirtökutilboð Langasjós í félagið.
Það sem vakti sérstaka athygli við greinargerðina er að stjórn Eikar telur að félagið eigi ekki að fara í almenna útleigu á íbúðarhúsnæði líkt og Alma, dótturfélag Langasjós, gerir.

Ástæðan fyrir þeirri skoðun stjórnarinnar er tvíþætt: Í fyrsta lagi lág arðsemi af slíkri útleigu og í annan stað orðsporsáhættan sem hlýst af slíkri starfsemi. Það segir eitt og annað um hvernig fréttaflutningi af leigumarkaðnum á liðnum árum hefur verið háttað að sérfróðir meta orðsporsáhættuna sem fylgir því að leigja út húsnæði til einstaklinga vera svo verulega að rétt sé að forðast slíkan rekstur. Er þarna vafalaust verið að vísa til nokkurs fjölda mála sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum og snúa að deilum leigjenda við leigusala sína.

En fleira má tína til sem vinnur gegn leigumarkaðnum. Nýlega tóku ný húsaleigulög gildi en gildistaka þeirra takmarkar mjög samningsfrelsi á leigumarkaði og aftengir að vissu marki markaðslögmálin þegar kemur að ákvörðun leiguverðs. Fróðlegt væri ef fjölmiðlar leituðu upplýsinga um hver reynslan af þessari lagasetningu hefur verið og áhrif hennar á framboð á leiguíbúðum.

Þá hefur Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra hreyft með einum eða öðrum hætti við hugmyndum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur viðrað og lúta að skattlagningu í tengslum við leigueignir.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 16. október.