En hvað um það. Nú er stærsta ferðahelgi landsins fram undan. Þetta er erfiður tími fyrir fjölmiðlarýni Viðskiptablaðsins og væntanlega fleiri sem hlusta á útvarp að staðaldri. Ástæðan er hin yfirgengilega síbylja sem ríður yfir ljósvakann á þessum tíma árs. Fjölmiðlafólk verður heltekið af því hvert fólk sé að fara um helgina og rætt er við fólk víðsvegar um landið frá morgni til kvöld og inn á milli talað við lögreglu og fulltrúa Samgöngustofu um að fólk eigi „að flýta sér hægt“ og „halda góðu bili á milli bíla á þjóðveginum“.

Reyndar tók Rás 2 forskot á sæluna í síðustu viku. Þá var rætt við Sigrúnu Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóra ÁTVR. Tilefnið var að ríkisrekna áfengisverslunin hafði auglýst í blöðum dagana á undan að fólk ætti að kaupa sér áfengi tímanlega fyrir verslunarmannahelgina til þess að forðast örtröð. Það sem var merkilegt við þetta samtal ríkistarfsmannanna er að það kom aldrei fram að nú selur fjöldi fyrirtækja áfengi gegnum vefinn og er með heimsendingu þannig að enginn þarf að standa í röð í verslunum ÁTVR – hvorki um verslunarmannahelgi né aðra daga.

En hvað verslunarmannahelgina varðar hefur enginn blaðamaður fangað andrúmsloftið sem henni fylgir með nákvæmari hætti en Ásgeir Sverrisson. Það gerði hann í pistli sem birtist í Morgunblaðinu 4. ágúst á aldamótaárinu. Full ástæða er til að rifja þessi skrif upp og birtast þau hér með í heild sinni með góðfúslegu leyfi höfundar og Morgunblaðsins:

Liggjandi í straumnumÞá er mesta ferðahelgi ársins runnin upp eina ferðina enn. Mikið líður tíminn annars hratt. Ef hann flýgur ekki þá æðir hann, hið minnsta, áfram.Það hlýtur að hafa verið gaman.Ég veit ekki um ykkur en við hjónin hlustum alltaf á Rás 2 þegar við erum á ferðalagi um verslunarmannahelgina.

MBL0187002
MBL0187002

Umferðarútvarpið þeirra er einfaldlega betra. Þeir á Rás 2 eru líka í stöðugu sambandi við fólkið hjá Umferðarráði. Það er alltaf svo undur hresst og skemmtilegt enda er jafnan ánægjulegt að þiggja þaðan heilræði og ábendingar. Bara passa að hafa góða skapið meðferðis! Og muna nú að ganga úr skugga um að tengingarnar fyrir fellihýsið séu í samræmi við reglugerðir.Þetta fólk vinnur algjörlega ómetanlegt starf og léttir svo sannarlega lífið þegar út á þjóðveginn er komið.Á Rás 2 eru líka bestu umferðarfréttirnar auk þess sem ítarlega er greint frá gangi mála á útihátíðasvæðum. Þannig getur maður stöðugt fylgst með hvernig gengur í umferðinni og fengið svar við þeirri spurningu, sem brennur á vörum allrar þjóðarinnar um þessa verslunarmannahelgi sem aðrar:Hvert liggur straumurinn?Við hjónin skrýðumst alltaf íþróttagöllunum okkar þegar við leggjum upp í ferðalög. Af klæðnaði annarra ökumanna að dæma sýnist okkur sem fólk geri sér almennt ekki grein fyrir hvað það er nauðsynlegt að klæðast þægilegum fatnaði þegar ekið er um þjóðvegina. Víður, léttur klæðnaður er bestur á langkeyrslum.Við tölum um þetta á leiðinni út úr bænum.Og líka á leiðinni heim.Í hanskahólfinu er síðan alltaf geymd úrklippan góða með ráðleggingum um hvernig stytta megi börnunum stundirnar á ferðalögum.Hún er ómissandi. Merkilegt annars hvað þessi góðu ráð vilja gleymast.Þá kemur sér vel að hafa tekið nokkur ljósrit.Við leggjum á það þunga áherslu við börnin að þau megi ekkert það gera, sem truflað geti aksturinn. Þau eru alin upp við að akstur ökutækis krefjist óskiptrar athygli bifreiðarstjórans. Vart þarf að taka fram að mjög virðist skorta á slíkt umferðaruppeldi hjá mörgum enda veitum við hjónin því athygli á ferðalögum okkar um verslunarmannahelgina hversu algengt er að börn og ferfætlingar séu á iði í bílum. Enginn vafi leikur á að þeir, sem hvorki hafa stjórn á afkvæmum sínum né heimilisdýrum, ógna öryggi annarra í umferðinni.Okkar reynsla er sú að best sé að nota plástra bæði á börnin og hundinn.Við hjónin höfum oft hringt í Umferðarráð til að vekja athygli á þessu og þar eru allar ábendingar alltaf vel þegnar enda segir starfsfólkið að nákvæmlega ekkert sé mikilvægara en að vera í stöðugu sambandi við þá, sem fara um þjóðvegi landsins um þessa mestu ferðahelgi ársins.Hið sama verður hins vegar ekki sagt um íslenska bílstjóra. Oft höfum við hjónin mátt þola dónaskap og beinlínis svívirðingar af hálfu þeirra ökumanna, sem við höfum rætt við þegar stoppað hefur verið til að kaupa þjónustu. Svo virðist sem íslenskir ökumenn hafi ekki til að bera nauðsynlegan þroska til að taka ábendingum, sem lúta að framkomu þeirra í umferðinni eða útbúnaði bifreiða þeirra. Venjulega skiptum við hjónin liði þannig að annað okkar tekur viðkomandi bifreiðarstjóra tali en hitt skoðar ökutæki hans.Þetta er vanþakklátt starf en við teljum það skyldu okkar að leggja okkar af mörkum um þessa mestu ferðahelgi ársins.Við hjónin teljum okkur ekkert yfir aðra hafin og líkt og aðrir

Íslendingar kaupum við flestar okkar máltíðir á bensínstöðvum um verslunarmannahelgina. Við vitum líka að þægilegra er að nálgast ökumenn og veita þeim ráðgjöf þar sem þeir sitja að snæðingi með fjölskyldum sínum.Þetta er að vísu dýrt. En – kannski er þetta þjóðarstolt – við hjónin fáum einhvern sérstakan unað út úr því að stíga inn í bensínstöðina og segja:– Eina með öllu.Þetta geta svonefndar „menningarþjóðir“ á borð við Breta ekki. Halda menn kannski að það þýði eitthvað að fara út í söluturn þar í landi og biðja um „one with

everything“? Þeir sem borðað hafa á þýskum bensínstöðvum (sem eru frábærar) vita að þar stoðar lítt að biðja um „eine mit alles“. Spænskir sjoppueigendur, svo ekki sé nú talað um þjónana á þessum drepleiðinlegu tapas-börum, koma gjörsamlega af fjöllum ef maður biður um „un perrito con todo“.Hvernig má það annars vera að pulsan og hamborgarinn séu ekki til sýnis í Þjóðmenningarhúsinu? Þessi þjóðlega fæða á ekkert síður heima þar en barnabörn Vilhjálms Stefánssonar. Og vel færi á því að gestum væri boðið upp á þessa íslensku rétti; okkur hjónunum skilst að Þorsteinn Noregskonungur og drottning hans, Lóló, hafi hvorki fengið vott né þurrt þegar þau skoðuðu Þjóðmenningarhúsið um daginn.Fjölmiðlar eru oft gagnrýndir fyrir neikvæðni en við hjónin viljum benda á hversu ánægjulegt það er að þeir skuli sameinast í því átaki að koma sem flestum út á þjóðvegina og á hátíðasvæðin um þessa helgi. Nógu mikið er fjallað um vonda vegi, umferðarslys, ofbeldi, unglingadrykkju, sumarbústaðabruna, eiturlyf og eyrnasviptingar hina daga ársins.Fréttatímarnir líða einn af öðrum og brátt er komið að því að athuga þarf hvort stjórntæki bifreiðarinnar séu ekki í fullkomnu ástandi fyrir heimferðina.