Hlustendur Ríkisútvarpsins fara ekki varhluta af því að Rás 2 fagnar fjörutíu ára starfsafmæli á árinu. Fjöldi þátta í útvarpi og sjónvarpi er helgaður afmælinu með einum eða öðrum hætti. Þannig geta sjónvarpsáhorfendur skemmt sér við að fylgjast með gömlum þáttastjórnendum Rásar 2 spreyta sig í spurningakeppni um stjórn starfsmanna útvarpsstöðvarinnar næstu sextán föstudagskvöld. Finnist mönnum ekki nóg um geta þeir hinir sömu hlustað á þáttinn Raddir Rásar 2 en þar ræðir Ólafur Páll Gunnarsson við sömu þáttastjórnendur og taka þátt í spurningakeppninni og verður þátturinn á dagskrá í þrettán vikur.

Þar sem er einkennandi við viðtalsþætti Ólafs Páls er sjálfsbirgingsháttur þáttastjórnenda og viðmælenda þegar kemur að meintu mikilvægi Rásar 2 í sögulegu samhengi. Á þetta sérstaklega við þegar Ólafur Páll ræddi við Jónatan Garðarsson og Kolbrúnu Halldórsdóttir. Um var að ræða linnulausan áróður fyrir því að Ríkisútvarpið væri sem umsvifamest á auglýsingamarkaði sökum þess að miðlar ríkisstofnunarinnar væru öðrum æðri og merkilegra.

Engin skynsamleg rök eru fyrir því að Ríkisútvarpið fjármagni sig á auglýsingamarkaði. Skattgreiðendur eru látnir borga ríflega fimm milljarða til reksturs Ríkisútvarpsins þar sem hver einasti Íslendingur 69 ára og yngri borgar 20.200 krónur í útvarpsgjald, svo lengi sem hann hefur 2 milljónir króna í árstekjur. Fréttir og efni ríkisútvarpsins eru því ekki ókeypis í neinum skilningi þessi orðs því útvarpsgjaldið er ekkert annað skylduáskrift.

Umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði eru að drepa frjálsa fjölmiðlun. Eins og segir í leiðara Viðskiptablaðsins 4. júní síðastliðinn:

„Ríkisútvarpið er eins og iðnaðarryksuga á íslenska auglýsingamarkaðnum, þar sem einkareknu miðlarnir reyna að sjúga upp smámolana sem risinn náði ekki. Í gegnum árin hefur þessi ráðahagur eðlilega haft mikil áhrif á rekstur einkarekinna fjölmiðla og framboðið. Síðasta fórnarlambið var Fréttablaðið.

Til þess að einkaframtakið fái þrifist hefur ítrekað verið kallað eftir þeirri sanngjörnu kröfu að RÚV fari hreinlega af auglýsingamarkaði enda á 5 milljarða ríkisframlag að vera meira en nóg til að halda úti fjölmiðli.“

***

Hafa verður í huga að Rás 2 var hleypt af stokkunum fyrir fjörutíu árum meðal annars til að bregðast við háværari kröfu um frjálsan útvarpsrekstur. Það er að segja Ríkisútvarpið var að treysta stöðu sína á útvarpsmarkaði sem flestir gengu út frá því sem vísu að yrði frjáls innan fárra ára.

Það er annarra að dæma hvernig Rás 2 hefur svo tekist til í samkeppninni við einkareknar útvarpsstöðvar. Vissulega hefur margt ágætlega verið gert gegnum tíðina uppi í Efstaleiti en það nákvæmlega sama á við um aðrar útvarpsstöðvar. Fjölmargar
aðrar útvarpsstöðvar hafa lagt rækt við að hlúa að flestum afkimum íslenskrar tónlistar ásamt því að sinna dægur- og fréttamálum auk íþrótta svo einhver dæmi séu tekin. Rás 2 hefur ekkert efnislega meira fram að færa í þessum efnum en aðrar útvarpsstöðvar og verður það í raun að teljast undrunarefni í ljósi hinna miklu fjárhagslegu yfirburði ríkis-
miðilsins.

***

Ofmat á mikilvægi erindis Rásar 2 virðist vera starfsmönnum stofnunarinnar í blóð borið. Í því samhengi má nefna að fyrir nokkrum árum spurðist það út að Ríkisútvarpið ynni að stofnun nýrrar útvarpsstöðvar sem var ætlað að höfða sérstaklega til ungs fólks. Nafn útvarpsstöðvarinnar átti að vera Rás 3.

Í frétt Vísis um áformin um stofnun Rásar 3 er haft eftir einum starfsmanni Ríkisútvarpsins að stofnun Rásar 3 væri sanngirnismál gagnvart ungu fólki. Sér í lagi þegar litið er til þess að meðalhlustandi Rásar 1 og 2 er kominn yfir miðjan aldur. Var haft eftir starfsmanninum að þeir sem eru átján ára og eldri og hafa tekjur fjármagni RÚV í gegnum nefskatt. Því væri það ekki annað en réttlátt að sá hópur fengi sína útvarpsstöð.

Með öðrum orðum var Ríkisútvarpið komið á fremsta hlunn að fara í frekari samkeppni við einkareknar útvarpsstöðvar og tónlistarveitur á borð við Spotify og Youtube svo að unga fólkið á Íslandi gæti fengið sitt ríkisútvarp. Firn hljóta að teljast að ekki hafi hvarflað af neinum innan stofnunarinnar að þetta brölt væri vísbending um að endurskoða hlutverk og fjármögnun stofnunarinnar.

Reyndar hefur stjórnendum RÚV verið ungviðið hugleikið undanfarin ár. Fjallað var um fundargerð stjórnar RÚV frá september 2020 á þessum vettvangi á sínum tíma:

„Eins og fram kemur í fundargerðunum er töluvert mikið um að stjórnin færi til bókar hversu ánægð hún er með dagskrárgerð stofnunarinnar. Þannig er ritað í fundargerð í september í fyrra að stjórnin hafi rætt um að unga fólkið átti sig hugsanlega ekki á gæðum þess efnis sem Ríkisútvarpið framleiði fyrir það. Rætt er um hvort ríkismiðillinn ætti að koma að útgáfu vefrits til að unga fólkið átti sig betur á því gæðaefni sem boðið er upp á í útvarpinu.

Stjórn RÚV virðist þarna ekki átta sig á að dagskrá stofnunarinnar er öllum aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar. Enn fremur ræðir stjórnin um hvort ekki væri hægt að nota áhrifamátt útvarpsstjóra meðal ungmenna í þessum efnum: Að hann mæli með áhugaverðu efni fyrir unga fólkið að „sænskri fyrirmynd“. Orðrétt segir í fundargerð: „Umræða um hvort yngra fólk þurfi aðstoð við að átta sig á gæði dagskrár í útvarpi. Tillaga kom fram um gerð vefrits þar sem fram kæmi hver dagskráin framundan væri. Einnig rætt um hvort útvarpsstjóri gæti „mælt með“ tilteknum dagskrárliðum, að sænskri fyrirmynd“. Undarlegt verður að teljast að síðastnefndu hugmyndinni hafi ekki verið hrint í framkvæmd.“

***

Fjörutíu ára afmæli Rásar 2 er ágætt tilefni til að velta fyrir sér tilgangi og nauðsyn Ríkisútvarpsins. Eins og fyrr segir er margt ágætlega gert í Efstaleiti og þar er margt um hæfileikamanninn. En nauðsynlegt er að sníða þessum ríkisrekstri stakk eftir vexti. Íslensk menning og frjáls umræða stendur ekki og fellur með því hvort RÚV sé á auglýsingamarkaði og þiggi ríflega fimm milljarða frá skattgreiðendum á ári.

Þetta er hluti úr Fjölmiðlapistli sem birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pistilinn í heild sinni hér.