Á aðventunni fann sá sem þetta skrifar sig staddan í verslunarhúsnæði í miðbænum sem í gamla daga hýsti steikhúsið Argentínu. Erindið var að kaupa jólagjafir handa unglingunum í fjölskyldunni. Aldrei hafði hann heyrt minnst á þessar íþróttavörur sem voru þarna til sölu undir heitinu Metta Sport en þótti forvitnilegt að heyra að þetta væri afrakstur tveggja ungra íslenskra athafnamanna sem hafa byggt upp þetta vörumerki með miklum árangri.
Sem dæmi um þann ágæta árangur má benda á að Viðskiptablaðið sagði frá því um jólin að Metta Sport hefði hagnast um 93 milljónir árið 2023 og velta hefði þrefaldast milli ára og var tæplega 360 milljónir króna.
Þessi frétt hefur vakið athygli uppi í Efstaleiti. Í byrjun árs var fjallað um uppgang Metta Sport í þættinum Þetta helst í umsjón Inga Freys Vilhjálmssonar, fyrrverandi blaðamanns á Heimildinni. Efnistökin voru ekki þau að tveir ungir menn hefðu byggt upp vinsælt íþróttavörumerki upp úr engu heldur var fyrst og fremst verið að agnúast út í það að þeir saumi ekki fötin sjálfir inni í bílskúr á heimilum sínum heldur eru þau framleidd erlendis. Það er einmitt með þessum hætti sem flestir fataframleiðendur vinna og eru aðstandendur Metta Sport ekki að finna upp hjólið í þessum efnum.
Eigi að síður var framsetning þáttargerðarmannsins öll á þann veg að gera fyrirtækið tortryggilegt. Þannig var vitnað til einhvers óræðs orðróms um að fyrirtækið keypti vörur af þekktum framleiðendum og rifi af þeim merkið og saumaði sitt í staðinn. Eitthvað sem ætti undir eðlilegum kringumstæðum að flokkast sem lögbrot. Það vekur áleitnar spurningar hvers vegna slíkum ásökunum er haldið á lofti í fréttaskýringaþætti á ríkismiðlinum án þess að þær séu rökstuddar frekar. Vafalaust helgar tilgangurinn meðalið í þessum efnum hjá Ríkisútvarpinu.
Klifað er á í umfjöllun RÚV að aðaleigandi Metta Sport, Pétur
Kiernan, hafi ekki veitt RÚV viðtal vegna umfjöllunarinnar og ekki svarað spurningum sem voru sendar á hann. Í endursögn á þættinum á vef Ríkisútvarpsins segir:
„En þrátt fyrir mikinn vöxt þá hefur Metta Sport einnig verið gagnrýnt í gegnum tíðina.
Árið 2021 var til dæmis sagt frá því að fyrirtækið hefði verið vænt um það á samfélagsmiðlum að selja fatnað frá kínversku heimasíðunni Ali Express sem sína eigin hönnun. Árið 2023 var svo umræða um það í fjölmiðlum að fyrirtækið keypti föt frá bandarísku fyrirtæki sem heitir Los Angeles Apparel, klippti miðana af og setti sitt eigið merki í staðinn.
Þetta helst reyndi ítrekað að fá viðtal við eiganda Metta Sport, Pétur Kiernan, og sendi honum spurningar um fyrirtækið og starfsemi þess. Pétur veitti Þetta helst hins vegar ekki viðtal.”
Það er hvimleitt hversu algengt það er meðal íslenskra fréttamanna að halda að það sé til marks um vönduð vinnubrögð ef þeir sem eru til umfjöllunar kjósa ekki að veita viðtal vegna umfjöllunarinnar. Fyrir því geta verið margar góðar ástæður. Ein er að stundum eru fréttamenn búnir að ákveða hvaða þráð þeir ætla að spinna og skipta svör þeirra sem eru til umfjöllunar engu um endanlega framsetningu.
Að minnsta kosti virðast aðstandendur Metta Sport ekki forðast fjölmiðla. Í viðskiptakálfi Morgunblaðsins í síðustu viku er til að mynda ágætis umfjöllun um Metta Sport og talað við Pétur um vöxt og viðgang félagsins.
Þar segir hann meðal annars frá því að hugmyndin að framleiðslunni hafi kviknað þegar námsför til Bandaríkjanna hafi frestast vegna heimsfaraldursins og hann hafi séð tækifæri til aukinnar fjölbreytni á markaðnum með íþróttaföt hér á landi. Gefum Pétri orðið:
„Hönnunin er unnin af okkur en við leitum einnig til vina okkar sem gefa okkur endurgjöf á efnin sem við notum og sniðin. Við leggjum mikla áherslu á að vera með vandaða vöru og eru lífsstílsfötin okkar t.d. úr 100% bómull sem ég og margir aðrir erum hrifnir af. Við höfum hins vegar tekið eftir því að sumir viðskiptavinir okkar kjósa léttari fatnað. Við fórum því til Portúgals fyrr á árinu til að hitta framleiðendur og skoða verksmiðjur í þeim tilgangi að kynna okkur mismunandi tegundir efna til að geta boðið upp á fleiri útgáfur af lífsstílsfatnaði okkar á árinu 2025.“
Þar með er ekki sagt að þeir sem hanna og selja íþróttafatnað fái alla jafna óblíðar mótttökur frá starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Í Kastljósinu í síðustu viku var fjallað um fatamerkið Vecct í Kastljósinu. Vecct framleiðir fatnað fyrir skokkara og er að sögn Kastljóssins „megináhersla Vecct að framleiða hlaupaföt sem standast íslenskar aðstæður, virkni þeirra er í fyrsta sæti og fagurfræðin bara plús“ eins og fréttamaður orðar það í endursögn á umfjölluninni á vef Ríkisútvarpsins.
Það er sérstaklega áhugavert að bera saman umfjöllun Inga Frey Vilhjálmssonar, þáttastjórnanda Þetta helst, um Metta Sport annars vegar og svo umfjöllun Kastljóssins um Vecct hins vegar.
Af nægu er að taka þegar kemur að Ríkisútvarpinu í því að tortryggja hefðbundna atvinnustarfsemi með aðstoð Heimildarmanna. Þannig bauð þátturinn Samfélagið á Rás 1 upp á umfjöllun á þriðjudaginn í síðustu viku þar sem spurt hvort íslenskar matvöruverslanir beri hag neytenda fyrir brjósti eða hvort „gróðasjónarmið“ þeirra ráði einfaldlega ríkjum?
Í kynningu á þættinum sagði:
„Við ætlum að ræða hækkanir á matvöruverði, mikinn hagnað matvöruverslanakeðja hér á landi undanfarin ár og hegðun þeirra gagnvart neytendum, við Aðalstein Kjartansson, rannsóknarblaðamann á Heimildinni, sem skrifað hefur ítarlega um matvörumarkaðinn og við Benjamin Julian, verkefnastjóra hjá verðlagseftirliti ASÍ, sem segir okkur meðal annars hvaða matvara er að hækka eða lækka á þessari stundu.“
Þessi umfjöllun Aðalsteins sem birtist í Heimildinni síðastliðinn nóvember er svo rómuð uppi í Efstaleiti. Í stuttu máli er um að ræða langa grein þar sem samanlagður hagnaður smásölurisanna er lagður saman og er svo býsnast yfir því í löngu máli. Umræðan í þættinum Samfélaginu var sama marki brennd og sérlega óupplýsandi sem slík.
Ef matvörumarkaðurinn hér á landi væri eitt allsherjar gróðabrall þá myndu þess merki sjást í afkomu félaganna. Það er ekki raunin. Eins og má lesa úr umfjöllun Frjálsrar verslunar undanfarin ár þá er matvörumarkaðurinn ekkert sérstaklega arðbær í samanburði við annan rekstur.
Undanfarin ár hefur hagnaðarhlutfall í rekstri Haga, Krónunnar og Samkaupa verið kringum 2% að meðaltali. Hagnaðarhlutfallið mælir hagnað fyrir hverja krónu af sölu fyrirtækis. Meðan hlutfallið er í kringum 2% þar þá er það að meðaltali sjö prósent þegar afkoma þrjú hundruð stærstu fyrirtækja landsins eru skoðuð.
Aðföng hækka og lækka í verði eins og gengur og gerist og það sama á við um aðra rekstrarþætti. Ekki verður með neinu móti séð að matvöruverslanir hafi hagnast sérstaklega á verðbólgu eins og til að mynda er haldið fram í grein Aðalsteins.
Að lokum er kannski tímabært að halda því til haga að hagnaður af starfsemi er jákvætt fyrirbrigði. Hagnaður gerir fyrirtækjum kleift að greiða niður skuldir, fjárfesta í nýsköpun og skapar svigrúm til að bjóða starfsfólki betri kjör svo eitthvað sé nefnt.
Það er í raun og veru umhugsunarefni að skattgreiðendur borgi hátt í sjö milljarða til Ríkisútvarpsins sem hefur ekkert annað til málanna að leggja þegar kemur að umfjöllun um efnahagsmál og atvinnurekstur en það sem kemur daglega fram við Rauða borðið á Samstöðinni.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 15. janúar 2025.