Benedikt Sveinsson, lögmaður og athafnamaður, gekk á vit feðra sinna í síðustu viku. Benedikt var mikilvirkur þátttakandi í íslensku efnahagslífi og beitti sér í margvíslegum félagsmálum þess utan. Benedikt var sem kunnugt er faðir Bjarna, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins.

Benedikt Sveinsson, lögmaður og athafnamaður, gekk á vit feðra sinna í síðustu viku. Benedikt var mikilvirkur þátttakandi í íslensku efnahagslífi og beitti sér í margvíslegum félagsmálum þess utan. Benedikt var sem kunnugt er faðir Bjarna, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins.

Eins og oft þegar þjóðþekktir menn falla frá er greint sérstaklega frá því í fjölmiðlum að andlát hans hafi borið að garði. Engin undantekning var gerð á því við fráfall Benedikts. Flestir fjölmiðlar greindu frá því með hefðbundnum hætti: sögðu frá andlátinu og röktu lífshlaup hins látna í stórum dráttum.

Þegar um er að ræða mann eins og Benedikt er fjölmiðlum raunar vorkunn, því hann var bæði langlífur og fjölhæfur, starfssamur og áhrifamikill á mörgum sviðum. Lesendur Viðskiptablaðsins þekkja vel ítök hans í viðskipta- og athafnalífi, en hvernig má koma orðum að því öllu í stuttu máli? Hann beitti sér líka í stjórnmálum í sínum heimabæ og var þar í bæjarstjórn um árabil á mesta uppvaxtartíma Garðabæjar, svo þar er frá nægu að greina líka. Segir kannski sína sögu að klukkuturninn á Garðatorgi er óformlega við hann kenndur: Big Ben. Sömuleiðis var hann helsti bakhjarl Stjörnunnar um áratugaskeið og það væri einnig mikill bálkur.

Það var sem sagt úr miklu að moða.

***

Ríkisútvarpið ákvað hins vegar að feta aðra leið í þetta sinn. Þar var mest gert úr tvennu því, sem hafði áhrif á pólitískan feril sonar hans, en samt með svo óljósum og einhliða hætti að hvergi glitti í að þar hefði pólitísk óvild og uppnám ráðið einhverju.

Ekki verður annað ráðið en að samskonar óvild sé rótin að efnistökum fréttastofu RÚV, þar sem fréttamaðurinn Brynjólfur Þór Guðmundsson notaði dánarfregn til þess að skilja eftir ávirðingar um látinn mann, sem ekki getur varist þeim, og hann beinlínis spyrtur saman við barnaníðing.

Það er í senn einstaklega lágkúrulegt og lítilmannlegt.

***

Einhverjum ættingjum og vinum Benedikts gramdist þetta skiljanlega og kvörtuðu sumir þeirra til Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra og Heiðars Arnar Sigurfinnssonar, fréttastjóra RÚV. Páll Vilhjálmsson, bloggari á Seltjarnarnesi, greindi frá þessum samskiptum á vefsvæði sínu í kjölfarið, en Heiðar Örn hafi svarað þessum umkvörtunum með stöðluðum pósti, sem Páll vitnar til:

„Það er mikilvægt að hafa í huga að RÚV flytur ekki minningargreinar um látið fólk en segir hins vegar stundum frá andláti fólks – þá aðallega fólks sem hefur sett svip sinn á samtíð sína. Þegar slíkar fréttir eru sagðar þarf að setja hlutina í samhengi – rifja upp hvernig viðkomandi hafði áhrif á samtíð sína, bein eða óbein. Í þessu tilfelli er ekki hægt að líta fram hjá því að óbein áhrif Benedikts heitins á stjórnmálasöguna voru talsverð. Með því að taka þetta fram er ekki verið að kasta rýrð á látinn mann heldur er einungis verið að rifja upp staðreyndir sem voru mikið í fréttum á sínum tíma.“

Þetta er athyglisvert svar hjá fréttastjóra ríkismiðilsins og kallast með einhverjum hætti á nýlega auglýsingaherferð Blaðamannafélagsins þar sem mikið er gert úr mikilvægi blaðamanna þegar kemur að samhengi hlutanna.

En það er auðvitað ekki til neitt rétt samhengi fyrir eitt né neitt í þessum efnum. Það liggur oftar en ekki gildishlaðin ákvörðun að baki því í hvaða samhengi hlutirnir eru settir hverju sinni. Rétt eins og Páll bloggari bendir á valdi RÚV sértækt samhengi til að varpa rýrð á nýlátinn mann. Páll segir:

„Samhengið valdi RÚV til að réttlæta fyrri atlögu að Benedikt heitnum Sveinssyni. Staðreyndirnar sem fréttastofan teflir fram eru handvaldar til að ófrægja og meiða. Vinnubrögð ríkisfjölmiðilsins eru til háborinnar skammar.“

***

Aftur að svari Heiðars Arnar. Er það svo „að óbein áhrif“ Benedikts heitins á stjórnmálasöguna voru talsverð“? Svarið við því er ekki svo augljóst þegar horft er til þeirra atburða sem RÚV dró fram þegar fréttin var sögð um fráfall Benedikts.

Er ekki full mikið í lagt þegar sagt er að Benedikt hafi haft „óbein áhrif“ á atburðarásina sem varð til þess að þingmenn Bjartrar framtíðar sprengdu upp stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn haustið 2017? Voru það ekki þeir sem þyrluðu málinu upp með þátttöku meðvirkra fjölmiðla sem höfðu þau óbeinu áhrif?

Hvað með síðara Íslandsbankaútboðið? Hvaða óbeinu áhrif hafði Benedikt á þann farsa sem hófst eftir að því lauk? Hann eins og fjöldi annarra fagfjárfesta tók þátt í útboðinu. Eru ekki þeir, sem þyrluðu upp moldviðrinu og dellunni um að þáverandi fjármálaráðherra hafi þar með selt föður sínum bankann, sem höfðu þau óbeinu áhrif?

Telji starfsmenn fréttastofu RÚV Benedikt virkilega haft mikil óbein áhrif á atburðarásina sem hófst eftir síðasta útboð í Íslandsbanka þá hljóta þeir nú leita svara við því hvort Bjarna Benediktssyni sé stætt sem forsætisráðherra nú þegar hann er við það að erfa Íslandsbanka í hugarheimi þeirra sem hæst létu í málinu. Það færi vel á því að fréttamenn RÚV spyrðu Björn Leví Gunnarsson og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttir, þingmenn Pírata, út í þau mál.

***

En svar fréttastjórans var ekki einu sinni satt, því þetta eru ekki einhlítar vinnureglur hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Ekki er langt síðan Svavar Gestsson, fv. ritstjóri, ráðherra og sendiherra, féll frá. Hann var ekki óumdeildur maður og ráðherraferill hans ekki samfellt
ævintýri. Enn síður á það þó við um störf hans sem aðalsamningarmanns Íslands um Icesave-málið, sem meirihluti kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu taldi stefna hagsmunum, öryggi og fullveldi landsins í stórhættu.

Í frétt RÚV hinn 18. janúar 2021 var tíundað hverra manna og eftirlifenda Svavar væri, hvar hann hefði verið skólaður (þar sagði þó aðeins að hann hefði verið við nám í Berlín, ekki að hann hefði lært í Austur-Berlín), stjórnmálaferill og ferill í utanríkisþjónustunni rakinn. Þar var ekki minnst á að hann hefði komið nálægt Icesave-samningunum, hvað þá að skoðanir á því næstum framlagi hans hefðu verið skiptar.

***

Kílon frá Spörtu meitlaði það í orð: Mæl ekkert nema gott um hina dauðu, sem menn þekkja líka á latínu De mortuis nil nisi bonum. Það á fyrst og fremst við það sem sagt er opinberlega, auðvitað hugsa menn sitt, og það spakmæli þýðir auðvitað ekki að menn eigi að mæra gengna þrjóta. Þarna var hins vegar sneitt hjá flestu því, sem maðurinn gerði um dagana (og það var ekki lítið), en athyglinni beint að tvennu því sem snerti pólitískan feril sonar hans.

Hverjar voru sakir Benedikts?

Að hann hefði verið hrekklaus eða óþarflega greiðvikinn við smælingja? Varðandi stjórnarathöfn, sem sérfræðingar ráðuneytisins töldu sér ekki stætt á að hafna? Að það hafi óhjákvæmilega verið stjórnarslitaástæða? Kjósendur virtust því a.m.k. ósammála.

Að hann mætti ekki koma nálægt neinum viðskiptum, sem tengdust ríkinu, meðan sonurinn væri fjármálaráðherra? Þetta var eftir allt útboð, svo mönnum hefði verið í lófa lagið að hafna tilboði hans, þættu slíkir meinbugir á.

Nei, hvort tveggja gekk út á að koma höggi á Bjarna. En núna? Jú, enn högg á Bjarna en verið að sverta orðstír látins manns með síðustu umfjölluninni um hann í útvarpi allra landsmanna. Ríkisútvarpið – ristir dýpra.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 25. september 2024.