Fyrstu leiðtogakappræðurnar fyrir komandi alþingiskosningar fóru fram í Ríkisútvarpinu á föstudag. Þar kom fátt nýtt fram og umræðurnar því marki brenndar að boðað var til kosninganna með skömmum fyrirvara og flokkarnir kannski ekki búnir að ydda helstu áherslumál sín.

Þó mátti greina af umræðunum að kosningarnar munu snúast um efnahagsmál, ríkisfjármálin, stöðuna á fasteignamarkaðnum, orkumál og móttöku hælisleitenda.

Þrátt fyrir að töluverður tími hafi farið í að ræða um efnahagsmálin, verðbólguna og vaxtastigið, fékk fíllinn í herberginu nánast enga athygli. Það er furðu lítið rætt um þá staðreynd – hvorki í fjölmiðlum né á vettvangi stjórnmálanna – að kennarar og læknar eru að búa sig undir að sprengja í loft upp þá sátt sem myndaðist á almenna vinnumarkaðnum í vor þegar skrifað var undir stöðug-leikasamningana svokölluðu milli Samtaka atvinnulífsins og Eflingar, Samiðnar og Starfsgreinasambandsins.

Þeir samningar voru gerðir til lengri tíma í þeirri von að það myndi auka fyrirsjáanleika í efnahagsmálum til að leggja lóð á vogarskálar verðstöðugleika og lægri vaxta. Grundvöllur samningsins var sameiginlegur skilningur viðsemjenda um að svigrúm til launahækkana verði að samræmast markmiðum um verðstöðugleika.

Nú þegar útlit er fyrir að markmið um verðstöðugleika séu að nást og svigrúm er að skapast til markvissra vaxtalækkana Seðlabankans stíga kennarar fram og krefjast hækkunar launa upp á hátt í fjörutíu prósent sem virðist ekki þykja neitt tiltökumál. Það er ekki síst áhugavert í ljósi þeirrar staðreyndar að eftir að stöðugleikasamningarnir voru undirritaðir brugðust bæði fjölmiðlar og stjórnmálamenn alla jafnan fljótt við um leið og það spurðist út að eitthvað hefði hækkað. Voru fyrirtæki, sérstaklega í smásölu, krafin um samstöðu í baráttunni gegn verðbólgu. En þegar kennarar fara í verkfall til þess að krefjast þess að höfrungarhlaup á íslenskum vinnumarkaði hefjist á ný heyrist ekki neitt.

***

En það eru ekki bara kennarar sem langar í höfrungahlaup. Læknar kjósa nú á ný hvort þeir leggi niður störf síðar í mánuðinum eftir að þeir voru gerðir afturreka með fyrri verkfallsboðun.

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélagsins, hefur verið áberandi í fjölmiðlum á undanförnum vikum vegna þessa. Á fimmtudag í síðustu viku mætti hún til Erlu Bjargar Gunnarsdóttur, ritstjóra fréttastofu Stöðvar 2, í viðtal í kvöldfréttatímanum.

Viðtalið einkenndist af þeirri miklu meðvirkni sem fjölmiðlar hafa tilhneigingu til þess að sýna læknum í kjarabaráttu sinni. Þannig sagði ritstjórinn hafa staðið í þeirri meiningu að læknar væru á góðum launum en þegar hún hafi litið á taxta samkvæmt gildandi kjarasamningum komst hún að því að svo var ekki. Formaður læknafélagsins tók á móti þessari laglegu fyrirgjöf ritstjórans og skaut boltanum örugglega í þaknetið.

Það breytir ekki þeirri staðreynd að læknastéttin er vel launuð á allan mælikvarða í hinu íslenska samhengi. Eðli starfsins er þannig að taxti grunnlauna segir lítið um hver hin raunverulega staða er. Það hvarflar ekki að nokkrum manni að ímynda sér að skipstjórar séu að lepja dauðann úr skel vegna þess að launatrygging þeirra er svo lág. Dagvinnutaxti flugstjóra er merkingarlaus. Þegar læknar fóru í verkfall fyrir tæpum áratug síðan náðu þeir að knýja fram 30% launahækkun. Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu á dögunum eru meðallaun lækna sem starfa á Landspítalanum um 2,2 milljónir króna á mánuði eða sem nemur þreföldum launum í landinu. Það rímar ágætlega við aðrar tölur. Þannig sýna tölur Hagstofunnar að meðallaun þeirra sem starfa við lækningar voru um tvær milljónir á mánuði. Á sama tíma eru meðallaun þeirra sem eru í sérfræðistörfum samkvæmt skilgreiningum Hagstofunnar um ein milljón á mánuði eða tæplega helmingur af launum lækna.

Í viðtalinu kom fram í máli Steinunnar að kjörin þyrftu að tryggja að hægt sé að laða til landsins í alþjóðlegri samkeppni lækna. Rétt er að minna á að mikil hækkun á launum lækna var réttlætt á sínum tíma til að tryggja einmitt það. Hefur eitthvað breyst í þeim efnum? Það verður að teljast ósennilegt.

Enn fremur sagði Steinunn:

„En launin hafa dregist aftur úr eins og hjá mörgum stéttum sem vinna með fólki. Því miður. Við erum að skapa gríðarlegt virði í samfélaginu, það er bara ekki í beinhörðum peningum eins og í sumum öðrum geirum. Það er sjaldnast horft á það, og það birtist ekki í launaumslaginu.“

Þarna komst formaður Læknafélagsins að kjarna málsins þó svo að það hafi farið fram hjá fréttamanninum og þeim í stéttinni sem fjallað hafa um kjaramál lækna að undanförnu. Læknar eru fyrst og fremst að fara í verkfall vegna þess að kjör ófaglærðra hafa hækkað of mikið að þeirra mati.

bindiskylda (13)
bindiskylda (13)

Í síðustu viku skrifaði Steinunn ásamt Guðbjörgu Pálsdóttir, formanni Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Kolbrúnu Halldórsdóttir, formanni BHM, og Svönu Helenu Björnsdóttir, formanni Verkfræðingafélagsins, grein á Vísi. Greinin er ákall til stjórnmálamanna í aðdraganda alþingiskosninga um að beita sér fyrir auknum launaójöfnuði á vinnumarkaði og segjast þær stöllur geta beitt þrjátíu þúsund atkvæðum þeirra sem eiga aðild að verkalýðsfélögunum sem þær leiða.

Í greininni segir:

„Enn og aftur sjáum við okkur knúnar til að minna á hver staða háskólamenntaðra er hér á landi. Launamunur háskólamenntaðra og ófaglærðra er einn sá minnsti í Evrópu. Við það geta háskólamenntaðar stéttir ekki unað öllu lengur.”

Svo mörg voru þau orð. Einsýnt er að ef gengið verður að ítrustu kröfum lækna og kennara munu fleiri opinberar stéttir fylgja í kjölfarið og langtímakjarasamningar á hinum almenna markaði fara í uppnám. Það er rannsóknarefni hversu lítinn áhuga fjölmiðlar hafa á þessum þætti málsins enda snertir það hagsmuni allra landsmanna enda er þarna verið að rjúfa þá sátt sem hefur ríkt um að forgangsúrlausnarefni efnahagsmála sé að festa verðstöðugleika í sessi og skapa svigrúm fyrir vaxtalækkanir Seðlabankans.

Óhætt er að mæla með hreint út sagt framúrskarandi skemmtilegri útvarpsþáttaröð sem flutt hefur verið á Rás 1 undanfarnar vikur. Í þættinum bregða þeir Eiríkur Stephensen og Úlfur Eldjárn í gervi þeirra Saxa og Sachsa sem er sagður stimamýksti saxófóndúett landsins.

Í þáttunum rannsaka þeir félagar það flókna samband sem margir tónlistaráhugamenn eiga við hljóðfærið saxófón og ris og fall þessa blásturshljóðfæris í dægurmenningu undanfarinna áratuga og ábyrgð Kenny G. í þeim efnum, eitraða saxmennsku og fleira áhugavert.

Þættirnir eru sex talsins og rísa einna hæst í atriði þar sem settur er á svið leikþáttur sem snýst um þegar kynþokkafyllsti saxófónleikari landsins er krýndur að viðstöddum heiðursgestunum og „hinum ofstuðluðu eðalvinum“ Ringo Star og Rod Stewart og að sjálfsögðu er Jakob Frímann Magnússon, þingmannsefni Miðflokksins, kynnir á keppninni.

Útvarpsefni í þessum gæðaflokki heyrist því miður allt of sjaldan.