Fjárlagafrumvarp næsta árs var lagt fram í síðustu viku undir flaggi aðhalds og ráðdeildar. Aðhaldið felst í að útgjöld ríkissjóðs aukast um tæpa 150 milljarða eða hátt í 11% milli ára, fjárlagahallinn verður um 46 milljarðar á næsta ári og hrein staða ríkissjóðs versnar um 90 milljarða
Fjárlagafrumvarp næsta árs var lagt fram í síðustu viku undir flaggi aðhalds og ráðdeildar. Aðhaldið felst í að útgjöld ríkissjóðs aukast um tæpa 150 milljarða eða hátt í 11% milli ára, fjárlagahallinn verður um 46 milljarðar á næsta ári og hrein staða ríkissjóðs versnar um 90 milljarða
Ekki verður sagt að ofangreindar lykilstaðreyndir um fjárlögin hafi verið áberandi í kynningu fjármálaráðuneytisins á efni frumvarpsins. Sem fyrr segir var frumvarpið kynnt á forsendum aðhalds þó svo að fátt í því sýni merki um ráðdeild. Allt kynningarefnið virðist hafa verið skrifað með það að augnamiði að draga athygli frá þeirri staðreynd að fjárlög næsta árs fela í sér mikla aukningu ríkisútgjalda og verulegan hallarekstur og skuldasöfnun á verðbólgutímum.
Þannig má finna á nokkrum stöðum í fjárlagafrumvarpinu framsetningu á útgjöldum án launa-, gengis- og verðlagsbreytinga. Verður þetta að teljast með nokkrum ólíkindum. Á einum stað í fjárlagafrumvarpinu segir:
„Í samræmi við þá megin-áherslu frumvarpsins að bæta áfram afkomuna og vinna gegn verðbólguþrýstingi hefur það ekki að geyma stór ný útgjaldamál. Vöxtur útgjalda ríkissjóðs að nafnvirði er þannig að stærstum hluta drifinn áfram af launa- og verðlagsbreytingum en ekki nýjum ákvörðunum. Þær eru áætlaðar um 68 ma.kr. á næsta ári sem er um tveir þriðju hluta aukningarinnar á útgjaldahliðinni og eru þær hlutfallslega miklar í sögulegu samhengi. Hins vegar er áfram fjárfest í mikilvægum innviðum og vaxtargreinum hagkerfisins auk þess að bæta og styrkja þjónustu við almenning.“
Í efnahagslegu tilliti skiptir litlu hvort útgjaldavöxtur ríkissjóðs sé tilkominn vegna launakostnaðar eða annarra þátta á borð við „nýjar ákvarðanir“ eins og það er orðað í frumvarpinu. Skuldadrifinn vöxturinn hefur áhrif á eftirspurnarhliðina í hagkerfinu. Á öðrum stað í frumvarpinu segir:
„Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð um 1.478 ma.kr. á árinu 2024. Hækkun frá fjárlögum fyrra árs nemur 143,1 ma.kr. og vega launa-, gengis- og verðlagsbreytingar þyngst, eða 67,9 ma.kr. Að þeim frátöldum hækka heildarútgjöld ríkissjóðs um 75,2 ma.kr. milli ára, eða sem nemur 5,6%.“
Hvaða tilgangi þjónar það eiginlega að vera að framreiða hina miklu útgjaldaukningu með þessum hætti? Einu sjáanlegu rökin fyrir því er það að slá ryki í augu fólks. Þessi vinnubrögð benda til þess að starfsmenn fjármálaráðuneytisins séu farnir að sækja sér innblástur frá ráðhúsi Reykjavíkur þegar kemur að framsetningu gagna um stjórnun og stöðu fjármála. Þannig var lækkandi álverði meðal annars kennt um að afkoma borgarinnar var hvorki meira né minna en þrettán milljörðum lakari á fyrri helmingi ársins en spár gerðu ráð fyrir. Verður það að teljast afleit þróun.
Með þessari framsetningu, ásamt klifi á hugtökum á borð við hagsveifluleiðréttan frumjöfnuð, tókst höfundum að rugla suma fjölmiðla í ríminu. Þannig mátti lesa á textalýsingu Ríkisútvarpsins á kynningarfundi fjármálaráðherra að grunnrekstur ríkisins væri kominn í plús, og ef ekki væri fyrir skuldirnar þá yrði afgangur af fjárlögum næsta árs upp á 28 milljarða.
Rétt er að hlífa lesendum Viðskiptablaðsins við upprifjun á brandaranum um hagfræðinginn og dósaupptakarann. Þeir eru þó hvattir til þess að fara í næsta bankaútibú og freista þess að fá lánafyrirgreiðslu í krafti myndarlegs hagsveifluleiðrétts frumjafnaðar í rekstri heimilisins og frábærs lánshæfismats þegar horft er fram hjá skuldum.
***
Það er vissulega margt í frumvarpi fjármálaráðherra til fjárlaga næsta árs sem vekur undrun og eftirtekt. Tökum tvö dæmi:
„Markmið þessara ráðstafana er m.a. að hvetja ráðuneyti og stofnanir til að leita sífellt leiða til að nýta þá takmörkuðu fjármuni sem til ráðstöfunar eru á sem hagkvæmastan hátt og skapa rými fyrir ný verkefni í samræmi við áherslur og markmið stjórnvalda sem vega á móti aðhaldskröfunni að einhverju leyti.“
Enn fremur:
„Vakin er athygli á því að sértækar aðhaldsráðstafanir vega í einhverjum tilvikum á móti ákvörðunum um ný og aukin útgjaldatilefni. Það felur í sér að aukning framlaga til tiltekinna verkefna eða framkvæmda hefði án aðhaldsráðstafana verið meiri en birtist í frumvarpinu.“
Segja má að þessar tvær stuttu setningar fangi viðhorf og anda hins nýframlagða frumvarps. Það ættu að minnsta kosti þeir sem eru almæltir á nýlensku að sjá. Seinni setningin fangar hina endalausu baráttu þar sem aðhald og „ný og aukin útgjaldatilefni“ vegast á. Í þeim tilfellum er aukningin aðhaldinu yfirsterkari. Ellegar hefði vafalaust verið útskýrt að samdráttur framlaga, þar sem til áðurnefnds árekstrar kæmi, væri í reynd meiri en tölurnar gæfu til kynna, því til hafi staðið að bæta í viðkomandi útgjaldalið.
Það sem þá situr eftir af meintu aðhaldinu er sú framsetning að í eyðslugleðinni felist í raun aðhald – þótt erfitt geti verið að sjá þess merki í heildarniðurstöðunni – vegna þess að hugur frumvarpshöfunda hafi staðið til þess að eyða enn meiru. Með þessu vitsmunalega rothöggi má svo galdra fram hvaða tölu sem er um umfang aðhaldsins. Ráðherra gæti allt eins sagt það hafa verið hugsunina að tvöfalda útgjöld ríkisins, svo í reynd feli tæp 11% aukningin og áframhaldandi hallarekstur í sér á annað þúsund milljarða niðurskurð.
***
Fjárfestingafélagið FL Group setti Íslandsmet í taprekstri á öðrum ársfjórðungi ársins 2007. Tapið á fjórðungnum nam ríflega 60 milljörðum eða sem nemur 141 milljarði að núvirði. Þetta þótti nokkuð vel af sér vikið. Forráðamenn félagsins voru eigi að síður upplitsdjarfir og bentu á í fjölmiðlum að „undirliggjandi rekstur væri góður“. Margir veltu þá fyrir sér hvað væri átt við með undirliggjandi rekstri fjárfestingafélags – var hann góður vegna þess að starfsmenn mættu alla jafnan á réttum tíma og lítil afföll væru í eldhúsinu?
Það er ekki að ástæðulausu að þetta rifjaðist upp fyrir fjölmiðlarýni við lestur fjárlagafrumvarpsins. Þannig er gegnumgangandi talað um það í fjárlagafrumvarpinu að skuldir ríkisins séu að lækka samkvæmt skuldareglu sem hlutfall af landsframleiðslu auk þess heildarskuldir fari lækkandi í krónum talið. En litlu plássi er varið í þá staðreynd að hreinar skuldir ríkissjóðs sem og samkvæmt skuldareglu vaxa enn hratt. Hreinar skuldir ríkissjóðs eru að aukast um yfir 50 milljarða milli ára, og það sem verra er, hrein staða ríkisins versnar um tæpa 90 milljarða og mun hafa versnað um 900 milljarða á 5 árum í lok næsta árs samkvæmt frumvarpinu.
Í þeim hluta fjárlagafrumvarpsins sem fjallar um skuldir ríkisins segir:
„Hrein staða ríkissjóðs hefur versnað samhliða hallarekstri undanfarinna ára. Hægt er að skilgreina hreina stöðu á ýmsa vegu. Í eftirfarandi töflu er hún samsett úr veittum lánum og innstæðum og nettóstöðu á viðskiptareikningum ríkissjóðs að frádregnum skuldum. Hrein staða verður helst fyrir áhrifum frá annars vegar greiðsluafkomu ríkissjóðs og hins vegar fjárfestingahreyfingum en einnig verðbólgu og gengisbreytingum.“
Það hlýtur að teljast fréttnæmt að hrein staða – það er að segja eignir að frádregnum skuldum – sé orðið huglægt og teygjanlegt hugtak að mati embættismanna fjármálaráðuneytisins.
Fjölmiðlarýni er einn föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í blaðinu sem kom út 20. september.