Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að fara að fjalla í frekara máli um ófarir og það sem virðist vera fullkomið taktleysi Vinstri grænna. Hrakfarirnar blasa við öllum.
Eigi að síður hefur verið athyglisvert að fylgjast með hvernig skósveinar flokksins hafa reynt að spinna nýjan þráð þar sem allt snýst um hvernig Vinstri grænir eru saklaus fórnarlömb klækja Bjarna Benediktssonar.
Sem er fremur ósennilegt miðað við forsöguna og ekki í góðu samræmi við atburðarásina, enda verður ekki séð að nokkur trúi spunanum. En samt er spunnið.
Hið furðulega er að þessi spunaþráður hefur að einhverju leyti ratað á síður fjölmiðla og bylgjulengdir ljósvakamiðlana og þá án alls fyrirvara eða minnstu efasemda.
Þannig var áhugavert að hlýða á þáttinn Þetta helst í umsjón Inga Freys Vilhjálmssonar í
Ríkisútvarpinu á þriðjudag í síðustu viku. Þar veitti Ingi Freyr tveimur flokksmönnum hreyfingarinnar tækifæri til þess að segja hvernig málin horfðu við þeim.
Annar af viðmælendum Inga Freys í þættinum var Álfheiður Ingadóttir, fyrrum ráðherra Vinstri grænna. Þetta hafði hún um málið að segja:
„Það var einhver desperasjón og æsingur í þessu sem mér fannst bæði klæða Bjarna illa og mér fannst niðurstaðan í þessu vera ábyrgðarlaus. Sérstaklega þegar maður horfir til þess hvernig staðan er í efnahagsmálum. Þetta getur í rauninni komið í veg fyrir að við getum haldið áfram að lækka vexti.“
Þá var talað við Steinunni Rögnvaldsdóttur sem sagði ákvörðun Bjarna Benediktssonar um að slíta stjórnarsamstarfinu hafa skaðað hagsmuni heildarinnar. Þetta er merkileg afstaða hjá Steinunni í ljósi þess að hún var ein af níu flokksfélögum sem lögðu fram tillögu á landsfundi VG á dögunum um að stjórnarsamstarfinu yrði slitið umsvifalaust.
Það er greinilegt að Steinunn og félagar hennar sem vildu slíta stjórnarsamstarfinu umsvifalaust höfðu ekki áhyggjur af því að þeir væru með því að skaða hagsmuni heildarinnar. Í þessu felst augljós tvískinnungur og það hefði farið vel ef varpað hefði verið ljósi á hann í þessum fréttaskýringaþætti RÚV.
Það sama á við fullyrðingu Álfheiðar. Engar vísbendingar eru um að óvænt þingrof og kosningar hafi skapað einhverja sérstaka óvissu um framhald á vaxtalækkunum Seðlabankans og að verðbólga haldi áfram að dragast saman. Þvert á móti. Markaðir virðast telja að pólitísk óvissa á fjármálamörkuðum hafi minnkað við stjórnarslitin – væntanlega vegna þess að ólíkindatólin í VG sitja ekki lengur í ráðherrastól.
Svo virðist sem fréttastofa Ríkisútvarpsins sé ekki síður áhugasöm um að taka þátt í þessum spuna Vinstri grænna. Og það þrátt fyrir að velflestir viti vel að Vinstri grænir hafi í reynd sjálfir slitið stjórnarsamstarfinu á landsfundi sínum í upphafi mánaðarins. Eða hvað halda menn að ályktun um að stjórnarsamstarfið væri á enda og kjósa ætti næstkomandi vor hafi annað þýtt?
Á fimmtudag tók svo starfsstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks undir forsæti Bjarna Benediktssonar við stjórnartaumunum. Þegar ný ríkisstjórn tekur við er það alltaf frétt og frá ýmsu að segja. Á fréttastofu RÚV þótti mönnum það hins vegar ekki hið fréttnæmasta, því í kvöldfréttatíma var kastljósinu beint að því hvað Svandísi þætti nú um þetta allt saman.!
Fyrsta fréttin það kvöldið var mærðarfullt viðtal við hana – þó svo að hún sé ekki í starfsstjórninni eins og frægt er orðið – þar sem hún lýsti yfir vonbrigðum sínum með stjórnarslitin og að ríkisstjórnin skuli ekki hafa setið út kjörtímabilið, eða að minnsta kosti þangað til henni sjálfri hentaði.
Í viðtalinu sagði Svandís án sérstakra athugasemda spyrils:
„Ég var ekki sammála þeirri niðurstöðu, kannski ekki vegna þess að hún kom til heldur miklu frekar vegna þess að hún var einhliða og hún bar með sér það að hann var fyrst og fremst að hugsa um Sjálfstæðisflokkinn og sína stöðu, tel ég vera, en ekki ríkisstjórnina og sínar skyldur sem forsætisráðherra og ég geri athugasemdir við það og gagnrýni það.“
Þetta eru frekar merkileg ummæli frá formanni Vinstri grænna sem fyrr segir hafði í reynd slitið stjórnarsáttmálanum með afarkostum um framgang mála og tímasetningu kosninga.
Yfirlýsingar Svandísar í fréttatíma Stöðvar 2 sama kvöld vöktu ekki síður athygli. Þar sagðist hún ekki vera viss um hvort hún myndi styðja fjárlagafrumvarpið, sem nú er til meðferðar þingsins. Þetta er sama fjárlagafrumvarpið og ráðherrar Vinstri grænna í hinni sprungnu ríkisstjórn samþykktu að leggja fram og hefðu að öllu öðru óbreyttu stutt.
Atburðarásin sem hófst þegar Bjarni Benediktsson baðst lausnar fyrir ríkisstjórnina við upphaf síðustu viku afhjúpaði meðal annars þekkingarleysi sumra þingmanna og fjölmiðlamanna á stjórnsýslunni og stjórnskipunarrétti í íslenskum lögum.
Sem betur fer brugðust sérfræðingar í þessum efnum skjótt við í Silfrinu á mánudaginn í síðustu viku þar sem þessi vanþekking afhjúpaðist með eftirminnilegum hætti og stigu þeir fram og útskýrðu ágætlega hvað starfsstjórn er og leiðréttu annan misskilning sem kom fram í þættinum.
Í stuttu máli er starfstjórn ríkisstjórn sem starfar áfram að beiðni forseta eftir að forsætisráðherra hefur beðist lausnar fyrir hennar hönd. Hún starfar til bráðabirgða þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð og er ætlað að sinna einungis þeim verkefnum sem nauðsynlegt er að sinna til að landið sé ekki stjórnlaust. Eitthvað virðist þetta hafa farið ofan garð og neðan hjá Ásmundi Einari Daðasyni barnamálaráðherra.
Eins og lesa mátti um í Morgunblaðinu var hans fyrsta verk á fyrsta starfsdegi starfsstjórnarinnar að bruna niður í Laugardal og láta taka mynd af sér og Einari Þorsteinssyni borgarstjóra að taka fyrstu skóflustunguna að hitunarkerfi og nýju grasi undir Laugardalsvöll.
Þetta eru kannski ekki stærstu syndir Ásmundar Einars í ráðherrastóli, en það verður að undirstrika sérstakt eðli starfsstjórna. Þær hafa ekki sama umboð og ráðherrum á ekki að líðast að fara fram í þeim af pólitískum þótta, allra síst í miðri kosningabaráttu. Það er óhæfa.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 23. október 2024.