Það er eins og þeir sem starfa á fjölmiðlum telji mat á fjárhagsstöðu sveitarfélaga vera að einhverju leyti huglægt. Annaðhvort treysta þeir því ekki að tölurnar tali sínu máli eða hafa ekki sjálfstraust í að leggja á þær mat upp á eigin spýtur.
Þannig hefur um árabil verið tekist á um það í fjölmiðlum hvort fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar sé erfið eða ekki. Svarið við þeirri spurningu ræðst svo af því hvar á hinu pólitíska litrófi sá sem er spurður er staddur.
Glæsilegt dæmi um þetta mátti sjá á samfélagsmiðlum snemma í maímánuði. Þá skrifaði Gylfi Magnússon, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, á Facebook um hversu sterk fjárhagsstaða borgarinnar væri og vitnaði þar í úttekt Heimildarinnar sem sýndi einhverja mælikvarða á að skuldir Reykjavík væru sambærilegar og í nágrannasveitarfélögum.
Uppskáru skrif Gylfa mikið lof hjá fylgjendum hans. Enginn lofaði stjórnarformanninn meira en Stefán Ólafsson, félagsfræðingur Eflingar, en hann svaraði
færslunni með eftirfarandi orðum: „Góð regla að trúa aldrei tali um opinber fjármál fyrr en Gylfi Magnússon hefur tjáð sig um staðreyndir málsins.“
***
Skuldastaðan er reyndar ekki hlutfallslega góð í samanburði við nágrannasveitarfélögin, það er að segja þegar horft er til stöðu A- og B-hlutans. Eðlilegt er að bera samstæðuna saman í þessu samhengi sökum þess hversu mikið Reykjavíkurborg reiðir sig á arðgreiðslur frá Orkuveitunni og matsbreytingar Félagsbústaða til að fegra bókhaldið.
Skuldir eru eitt en getan til þess að borga þær niður er annað. Veltufé frá rekstri segir til um hversu mikið svigrúm fjárhagurinn veitir til annars en að borga af skuldum og fjárfestingum.
Sérfræðingar borgarinnar hafa bent á að miklar greiðsluskuldbindingar og uppsöfnuð fjárfestingarþörf kalli á mikið veltufé frá rekstri. Það er ekki staðan hvað svo sem menn kunna að segja og staðreynd málsins er sú að þegar búið er að taka tillit til afborgana lána og lífeyrisskuldbindinga þá standa veltufé frá rekstri og fjárfestingatekjur ekki undir fjárfestingum nema að takmörkuðum hluta. Í greinargerð með fjárhagsáætlun borgarinnar til næstu fimm ára kemur fram að veltufjárhlutfall A-hlutans verði umtalsvert lægra en á spátímanum. Sem kunnugt er þá þýðir veltufjárhlutfall undir einum að viðkomandi rekstur á ekki sjóði til þess að standa straum af skuldbindingum næstu tólf mánaða.
***
Að þessu sögðu er áhugavert að skoða umfjöllun fjölmiðla um fimmtán milljarða króna lán Þróunarbanka Evrópuráðsins. Skrifað var undir lánaskjölin í síðustu viku.
Frá því var sagt í fjölmiðlum: viðtöl tekin við Einar Þorsteinsson borgarstjóra og sagt frá mjóróma gagnrýni minnihlutans í borginni og svo framvegis. En fjölmiðlar gáfu því lítinn gaum að lánið frá Þróunarbankanum væri fyrst og fremst rekstrarlán. Segir það meira en mörg orð um alvarlega fjárhagsstöðu borgarinnar.
Eins og fjallað var um í Viðskiptablaðinu í apríl þá lítur Þróunarbankinn svo á að lánveitingin eigi að renna til fjárfestingar í skólum út frá svokölluðum LOI-stuðli en segir til um hvar þurfi að „aðlaga skólastarf betur að félagslegum breytileika milli skóla þannig að skólar í viðkvæmu samfélagi geti betur mætt þörfum nemendahópsins fyrir aukin tækifæri til náms“ eins og það er orðað í kynningu í borgarráði í september 2021. En eins og komið hefur fram í máli meirihlutans á fjármagnið fyrst og fremst að renna til lagfæringar á skemmdu skólahúsnæði vegna myglu.
Rétt er að taka fram að slíkar framkvæmdir flokkast að sjálfsögðu undir hefðbundið viðhald og undir eðlilegum kringumstæðum ætti útsvarið að standa undir slíkum kostnaði. Það blasir auðvitað við að lántaka í evrum með tilheyrandi gjaldeyrisáhættu er ekki fyrsti kostur þegar kemur að fjármögnun viðhaldsverkefna. Staðreynd málsins er hins vegar sú að borgin hefur átt í erfiðleikum með að fjármagna sig á skuldabréfamarkaðnum undanfarið og eftirspurnin var lítil í síðustu útboðum borgarinnar. Að sama skapi geta íslensku bankarnir ekki lánað borginni meira fé vegna áhættustýringar. Yfirdráttur borgarinnar í bankakerfinu er um fjórtán milljarðar eða álíka mikill og lánshæðin frá
Þróunarbankanum.
Efist menn um að lánveiting Þróunarbankans sé til marks um alvarlega fjárhagsstöðu ætti tilkynning borgarinnar um að Perlan, ónýtt asbesthús í Elliðaárdal og nokkur bílastæði niðrí bæ séu nú til sölu með að eyða honum endanlega. Það fé sem borgin kemur til að fá fyrir þessar eignir mun rétt eins og lánið frá Þróunarbankanum renna í þá hít sem rekstur borgarinnar er orðin.
***
Átta mánuðir eru liðnir frá því að hryðjuverkamenn Hamas gerðu árás á Ísrael. Þessara tímamóta var minnst í sjónvarpsfréttatíma RÚV á föstudagskvöld.
Í fréttinni, sem var unnin af Oddi Þórðarsyni, er sagt að 38 þúsund manns hafi fallið í hernaðaraðgerðum ísraelskra stjórnvalda á Gaza-svæðinu í kjölfar hryðjuverkaárásar Hamas. Fréttamaðurinn gerði enga tilraun til þess að greina á milli falls óbreyttra borgara og vígamanna Hamas í þessu samhengi en markmið hernaðaraðgerða Ísraela er að uppræta hryðjuverkasamtökin.
Þess í stað reiðir RÚV sig alfarið á tölur frá heilbrigðisyfirvöldum á Gaza. Þær tölur hafa verið véfengdar að undanförnu. Þannig hefur franska fréttastofan AP leitt að því líkum að hlutfall vígamanna Hamas í mannfallinu á Gaza sé umtalsvert hærra en látið hefur verið í veðri vaka.
En það breytir auðvitað ekki um ömurleika ástandsins. Það gerir ósmekklegur samanburður ekki heldur. Í fréttinni gerir Oddur fréttamaður af einhverjum óskiljanlegum ástæðum tilraun til þess að setja mannfallið í eitthvert íslenskt samhengi fyrir áhorfendur. Í fréttinni segir:
„Til þess að setja hörmungar af þessu tagi í skýrara samhengi er gott að taka nærtæk dæmi. 38 þúsund manns, sem gera má ráð fyrir að hafi verið drepnir hið minnsta síðar þessi hildarleikur hófst, myndu fylla Eldborgarsal Hörpu, tæplega 24 sinnum.
Þegar karlalandsliðið í knattspyrnu var hyllt á Arnarhóli eftir góðan árangur á EM 2016 í Frakklandi, er áætlað að á bilinu 30-40 þúsund manns hafi lagt leið sína niður í bæ.
Og ef 38 þúsund manns tækju sig saman og stofnuðu sveitarfélag, yrði það þriðja fjölmennasta sveitarfélag á Íslandi, aðeins um þúsund færri en í Kópavogi.“
Það er í besta falli ósmekklegt að tala um hversu oft hafi verið hægt að fylla Hörpuna af líkum þegar Sinfóníuhljómsveitin flutti þriðju sinfóníu Mahlers í síðustu viku eða þegar íslenska popplandsliðið setur upp næstu sýningu til heiðurs Meatloaf.
***
Meira um þekkingu fréttamanna Ríkisútvarpsins á ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs. Í lokakappræðum neðri deildarinnar fyrir forsetakosningarnar spurðu Sigrún Hagalín Björnsdóttir og Valgeir Örn Ragnarsson frambjóðendurna hver bæri eiginlega ábyrgðina á stríðsástandinu á Gaza.
Óneitanlega mikil spurning til að svara í örfáum orðum. En látum það liggja milli hluta. Eins og oft áður reyndist Viktor Traustason vera rödd skynseminnar á þessum vettvangi. Hann spurði fréttamenn RÚV á móti hvort Hamas hefðu leyst gíslana sem þeir námu á brott í hryðjuverkaárás sinni fyrir átta mánuðum. Fát kom á spyrlana og þeir viðurkenndu að þau vissu það hreinlega ekki. Það er eftirtektarvert að fólk sem er að fjalla um svo flókin mál viti ekki neitt um grundvallar-
atriði þess.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 12. júní.