Til að skilja hvað skilur á milli vína að því er eiginleika varðar, þarf að skyggnast undir yfirborðið og átta sig á jarðveginum en segja má að allar bestu vínekrur séu lagskiptar. Því skiptir máli að vínviðurinn sé kominn við aldur og hafi náð að róta sig tugi metra niður í leit að vatni og steinefnum. Vínviðnum svipar þannig til mannfólks að með hækkandi lífaldri minnka afköstin en gæðin batna eftir því sem plantan rótar sig betur í lífinu.

Þó að jarðvegur sé eiginleg frumforsenda skiptir sjálf víngerðin máli sem og veðurfarið sem skýrir mismunandi eiginleika hvers árs. Á norðlægum slóðum hafa gæði vína batnað samfara hlýnun þannig að það eru ekki bara Íslendingar sem njóta góðs af því að hlutfall koltvísýrings hafi farið úr 0,039% í 0,04%. Oft er rætt um snemmtæka eða langlífa árganga eftir því hvort styrkleikurinn liggur í hve aðgengileg vínin eru ung eða hið gagnstæða sem þá gefur oftast af sér vín sem verðlauna þolinmæði. Aðspurður dró okkar maður Emanuel Humbert ekkert undan „2022 er besti árgangur síðan 1959“. Öfugt við t.d. 2018 og 2020 þá eru vínin í 2022 mjög ljúffeng strax en munu hinsvegar verðlauna þolinmæði vel, kannski svona eins og að bæði sé hægt að borða kökuna og eiga.

Góð vín sem eiga mikið inni

Eftir að hafa smakkað (að mestu úr tunnum) frá nokkrum af okkar framleiðendum er tvennt sem stendur upp úr. Bæði hvítvín og rauðvín eru mjög ljúffeng og í annan stað að vínin eru afskaplega aðgengileg nú þegar. Flest vínin munu þó bæta sig næstu 5-10 ár. Einn virtasti sérfræðingur í vínum svæðisins, Jasper Morrisson, lýsir árganginum sem gjöfulum og góðum því loks var uppskeran einnig viðunandi eftir brest 2021. Jasper nefnir sérstaklega að hvítvínin frá Puligny Montrachet og rauðvínin frá Cote d’Beaune (Volnay/Pommard) hafi lukkast sérlega vel. Sömu sögu sé reyndar að segja um Vosne Romanée og nefnir þar til sögunnar Íslandsvininn Georges Noellat sem hafi aldrei gert betur (ath. hér er um áskriftarvín að ræða þar sem efirspurn er margföld á við framboðið).

Nýr Íslandsvinur

Nýjasti Íslandsvinurinn frá Bourgogne er Simon Colin sem hefur aldrei gert betur en í 2022 sem er von þar sem hér er um að ræða víngerðarhús á sínu öðru starfsári. Víngerðin hjá afa Símonar hét Colin-Deléger sem síðan skiptist í hendurnar á sonum hans, Philippe (faðir okkar manns) og Bruno. Aðrar greinar úr ættartrénu reka svo víngerðarhúsin Joseph Colin, Marc Colin og Pierre-Yves Colin-Morey sem er Íslendingum að góðu kunnugt.

Vel tókst einnig til norður eftir gullnu hlíðunum „Cote d’or“ og hafa vínin frá Arlaud aldrei fengið hærri dóma, t.d. Clos de la Roche og Vosne Romanée 1er Cru Petit Monts sem fá allt að 96 punkta einkunn hjá Jasper Morrison.