Í fjármálamola síðustu viku fengum við stelpurnar í Fortuna Invest til að hjálpa okkur að útskýra fyrir okkur hvað sjóður sé. Í fjármálamola dagsins ætla þær hins vegar að útskýra ítarlega afhverju maður ætti að fjárfesta í sjóðum.
Einn helsti kostur þess að fjárfesta í sjóðum frekar en stökum verðbréfum er að þannig má dreifa áhættu.
Það getur líka verið hagkvæmt að kaupa í sjóði vegna þess að það er ódýrara en að kaupa einstök verðbréf. Viðskipti með lágar fjárhæðir í einstökum verðbréfum geta nefnilega verið dýr.
Sjóðurinn stundar hins vegar viðskipti með miklu hærri fjárhæðir og þannig verður kostnaður hlutfallslega lægri fyrir þá sem eiga hlutdeild í honum. Með því að kaupa í sjóði hefurðu þar að auki aðgang að sérþekkingu sjóðstjóra sem hefur það að atvinnu að kaupa og selja verðbréf fyrir hönd sjóðsins.
Afhverju að fjárfesta?
Þrátt fyrir að hægt sé að fá fína ávöxtun á sparnaðarreikningum í vaxtastiginu eins og það er í dag eru eflaust einhverjir sem velta fyrir sér hvernig fjárfestingar virka og af hverju fjárfestingar gætu verið góð viðbót við eignasafnið.
Fjárfestingar geta nýst sem hluti af sparnaði þegar verið er að stefna að ákveðnu markmiði en þannig er hægt að fjárfesta í fasteign, bíl eða ferðalögum. Síðan geta fjárfestingar líka verið langtímaverkefni til að ávaxta fjármuni til lengri tíma þótt ekki sé verið að spara fyrir einhverju ákveðnu.
En af hverju að fjárfesta?
Í fyrsta lagi eigum við að vilja viðhalda verðgildi peningana okkar. Fjárfestingar eru eitt af þeim atriðum sem hjálpa okkur að viðhalda verðgildi peningana. Við eyðum miklum tíma í að vinna okkur inn fyrir peningunum en gleymum mögulega að hlúa að þeim til framtíðar.
Í öðru lagi getum við nýtt okkur áhrif vaxtavaxta í fjárfestingum. Því fyrr sem maður byrjar að fjárfesta því betra ef maður er að horfa á fjárfestingu út frá því að nýta sér áhrif vaxtavaxta sem eru vextir sem reiknast ofan á aðra vexti. Þeir valda því að upphæðin vex hraðar en ef vextirnir væru eingöngu reiknaðir af upphaflegri fjárhæð.
Í þriðja lagi getum við haft áhrif með fjárfestingunum. Peningar stýra stórum breytum í samfélaginu, hvaða verkefni fá fjármagn, hvaða sjúkdómar eru rannsakaðir og hvaða lyf eru þróuð svo dæmi séu tekin. Það er líklegt að hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað að þú sjáir fjárfestingu sem þú tengir við sem betri fjárfestingu heldur en eitthvað sem hefur enga tengingu við.
Hvert er þá fyrsta skrefið?
Til að geta átt verðbréfaviðskipti er nauðsynlegt að eiga vörslureikning og því er fyrsta skrefið að stofna slíkan reikning.
Vörslureikningur er bankareikningur fyrir verðbréf. Hann er sambærilegur hefðbundnum bankareikningi nema í stað þess að geyma peninga heldur hann utan um verðbréf eins og hlutabréf, skuldabréf eða eign í sjóðum. Viðskiptabankar bjóða upp á stofnun vörslureiknings, en það er ýmist hægt að gera í netbanka eða hjá bankanum sjálfum.
Næst er að kynna sér hvaða fjárfestingarmöguleikar eru í boði og hvað þú telur ákjósanlegt en hægt er að velja úr fjölbreyttu úrvali fjárfestingarkosta eins og hlutabréf, skuldabréf og sjóðir.
Síðan þarf að taka skrefið en það eru eflaust margir sem upplifa að verkefnin virðast flókin og jafnvel óyfirstíganleg áður en hafist er handa. Fjárfestingar eru þar engin undantekning. Fyrsta skrefið er oft það erfiðasta. Með því að byrja smátt og auka þekkinguna samhliða upphæð fjárfestingar verður með tímanum til verðmæt reynsla sem mun nýtast þér út lífið.