Þrátt fyrir að sundurlyndisfjandinn sé fyrirferðamikill hér á landi og landsmönnum greinir á um flesta hluti hljóta þeir að geta komið sér saman um eitt: Að Kenny gamli Rogers hafi nú verið karl í krapinu.

Kenny Rogers, sem lést í marsmánuði árið 2020, er með söluhæstu tónlistarmönnum sögunnar en plötur hans hafa selst í meira 100 milljónum eintaka. En Rogers var ekki eingöngu hæfileikaríkur lagahöfundur og söngvari sem markaði djúp spor á samtímamenningu vestanhafs. Hann var líka ástríðukokkur og athafnamaður.

Í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar stofnaði hann veitingahúsakeðju sem naut um tíma mikillar hylli. Um var að ræða veitingastaði sem báru nafn hans: Kenny Rogers Roasters eða Hlóðir Kenny Rogers á íslensku. Rekstrarsagan var hins vegar skrautleg og skrykkjótt og endaði með sama hætti og rekstrarsaga Icelandair hotels í höndum Berjaya samasteypunnar sem er í eigu malasíska auðkýfingsins Vincent Tan.

Nú er Rogersbúð stekkur

Eignarhaldið er með þeim hætti að nánast allir veitingastaðir keðjunnar eru staðsettir í Suðaustur-Asíu. Þannig að hinn andlit þessa vinalega gráskeggs sem Kenny Roger vissulega var hefur svipuð hughrif á veitingahúsagesti í Malasíu og Filipseyjum og ónefndur ofursti frá Kentucky hefur hér á landi og víðar. Ekki leiðum að líkjast.

Af er það sem áður var. Eftir stofnun Kenny Rogers Roasters á tíunda áratugnum varð vöxturinn hraður. Enda var kántrístjarnan ekki með neinn aukvisa við stjórnartaumana. John Y. Brown yngri vissi sitthvað um matreiðslu kjúklinga og smekk manna fyrir þeim enda fyrrum ríkisstjóri Kentucky og bar ábyrgð á því að Kentucky Fried Chicken varð að því stórveldi sem það er í skyndibitaheiminum. Eftir að Rogers gaf út vinsæla matreiðslubók rugluðu þeim saman reitum og Roasters leit dagsins ljós.

Eldgrillaður kjúklingur og kornmúffur léku aðalhlutverk á matseðlinum ásamt öðrum réttum sem einkenna suðurríki Bandaríkjanna. Fyrstu staðirnir opnuðu í Flórída en innan fárra ára voru staðirnir orðnir um 350 og var þá að finna í Evrópu og Miðausturlöndum auk Bandaríkjanna.

Barist á kjúklingaspjótum

Eldgrillaður kjúklingur þykir heilsusamlegri en djúpsteiktur. Og stemmning var fyrir slíkum mat í Bandaríkjunum á þessum tíma og olían á útleið. En það þýddi aukna samkeppni. KFC hóf að selja eldgrillaða kjúklinga á þessum tíma en sú tilraun rann út í sandinn. Þeir sem búsettir voru í Bandaríkjunum á þessum árum líkt og undirritaður og smökkuðu þann eldgrillaða frá ofurstanum skilja mæta vel þau örlög öll.

En Kenny Rogers þurfti einnig að berjast við Boston Market sem einnig seldi grillaða kjúkling og minni veitingahúsakeðja – Cluckers – reyndist örlagavaldur í þessari sögu. Stjórnendur Cluckers fóru í mál við Kenny Rogers Roasters á grundvelli ásakana um að stjórnendur síðarnefndu keðjunnar hefðu stolið uppskriftum og matseðlinum. Málaferlin enduðu með því að Kenny Rogers Roasters keypti meirihlutaeign í Cluckers.

Syrta tók í álinn þegar líða tók á tíunda áratuginn. Ekki það að Bandaríkjamenn og aðrir vesturlandabúar misstu smekk fyrir grilluðum kjúklingi. Aukin samkeppni á markaðnum og önnur öfl voru að verki. Skipti mestu máli að eldgrillaður kjúklingur varð algengur í matvöruverslunum í Bandaríkjunum sem og hér á landi ef út í það er farið. Það þótti ódýrara og þægilegra að grípa slíkan kjúkling með annarri matvöru á leiðinni heim úr vinnu í stað þess að fara með fjölskylduna á veitingastað í eigu Kenny Rogers.

Roasters sótti um greiðslustöðvun árið 1998. Nathan‘s Famous keypti þrotabúið að rak keðjuna um stund þar til að hún komst í eigu Íslandsvinanna í Berjaya samsteypunni. Berjaya rekur nú um 400 staði í Asíu. Þar um slóðir vita fæstir um framlag Kenny Rogers til sveita- og dægurlagatónlistar en staðirnir njóta vinsælda og menn ganga út frá því sem vísu að þessi Kenny kunni handtökin þegar kom að því grilla kjúlla.

Grilluð hermikráka að hætti Kenny

Þrátt fyrir að eignarhald Berjaya á Kenny Rogers Roasters annars vegar og hótelkeðju á Íslandi kunni að magna upp væntingar um að von bráðar geti landsmenn gætt sér að gómsætum kjúkling af hlóðum Kenny Rogers innan tíðar er ekki hægt að ganga út frá því sem vísu. Þó er hægt að benda á að á Netinu er hægt að finna urmul svokallaðra hermikrákuuppskrifta (e. copycat recipes) sem er ætlað að fanga bragð rétta á frægum veitingahúsakeðjum. Hér kemur ein slík byggða á kjúllanum hans Kenny.

Hráefni:

Heill kjúklingur

Hálfur bolli af sjávarsalti

Marinering:

½ teskeið af muldum svörtum pipar

¼ teskeið af sinnepsdufti

¼ bolli af límónusafa

¼ bolli af hnetuolíu

¼ bolli sojasósa

1 matskeið af hunangi

1 matskeið af tómapúrru

¼ teskeið af vökvareyki (e. liquid smoke)

Kryddblanda:

1 matskeið af salti

¼ teskeið af cayenne pipar

1 teskeið laukduft

1 teskeið hvítlauksduft

¼ teskeið af svörtum pipar

2 teskeiðar af reyktri papriku

¼ teskeið af hvítum pipar

1 teskeið af tímíam

Aðferð:

  1. Setjið kjúklinginn í fat og setjið sjávarsaltið á hann. Látið standa í tuttugu mínútur. Hreinsið saltið og þerrið fuglinn.
  2. Blandið saman hráefninu í marineringuna. Hellið yfir fuglinn og makið marineringu á hann allan. Setjið lok á fatið og látið það standa í ísskáp í sólahring.
  3. Látið kjúklinginn standa við stofuhita í tuttugu mínútur. Hitið ofninn í 135 gráður.
  4. Blandið saman kryddblöndunni. Takið kjúklinginn úr fatinu en leyfið marineringu að leka í fatið. Notið hana til að pensla fuglinn reglulega meðan hann er í ofninum.
  5. Grillið kjúklinginn í fjóra tíma og penslið hann reglulega.
  6. Látið kjúklinginn standa í tuttugu mínútur áður en hann er snæddur.