Lílý Erla Adamsdóttir er listamaður mánaðarins í Eftir vinnu, lífstílsblaði Viðskiptablaðsins. Hún er þekktust fyrir textílverkin sín sem unnin eru með tufttækni og hún lýsir sem loðnum málverkum eða dansandi útsaum.

Hvenær byrjaðirðu að búa til myndlist og hvernig kom það til að þú fórst yfir í textílverk?

Ég var umkringd textíl og handverks fólki sem barn. Ömmur mínar báðar og mamma hafa mikið unnið með textíl á fjölbreyttan hátt. Ég sótti mikið í ömmu og alnöfnu mína sem kenndi mér snemma ýmis handtök. Mér leið alltaf eins og himnarnir stæðu opnir upp á gátt þegar við sátum saman og brösuðum við brugðnar lykkjur og franska útsaumshnúta.

Hún kenndi mér líka að hlæja að mistökum og hafa gaman að ferlinu. Ég heillaðist af þræðinum sem gat orðið að svo mörgu. Þetta strik sem hagar sér eins og ormur. Fannst töfrandi að geta tekið band og búið til þrívíða nytjahluti, geta tekið þráð og teiknað með honum í hægum takti ofan á efni. Undantekningarlaust varð til eitthvað sem gaman var að koma við og spilaði inn á snertiskynið.

Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér?

Ég er að lesa Guðberg Bergsson núna. Stundum þarf ég að lesa línur úr bókinni upphátt fyrir kærkominn því þær eru svo sannar og tærar, vængjaðar launfyndni fljúga þær með mann og setjast svo inn í kjarnann. Tove Jansson er uppáhalds. Hún var ótrúleg fjöllistakona, rithöfundur, skúlptúristi, teiknari af Guðs náð og næm fyrir manneskjunni. Svo hef ég lengi haldið upp á Louise Bourgeois, Yayoi Kusama, Þorvald Þorsteinsson, Aðalheiði Eysteinsdóttur og Auði Lóu Guðnadóttur.

Hvaðan ertu helst að fá innblástur þessa dagana?

Þessa dagana er ég að fara í gegnum sjónræna rannsóknarvinnu sem ég vann í kringum Stykkishólm í vetur. Ég fór þangað yfir helgi og saug í mig náttúru og litbrigði eins og svampur. Nú er ég að vinna úr þessum áhrifum.

Hvað hvetur þig áfram í listinni?

Einhver innri púls. Ég verð eirðarlaus og ómöguleg ef ég finn ekki farveg til sköpunnar. Það er hvatning sem kemur að innan, líklega náttúran í mér. En ég fæ líka hvatningu úr nærumhverfinu mínu sem er mér mjög dýrmæt. Áhugi annara er ómetanlegur hvati. Það er hvetjandi að skynja fólk upplifa verkin. Best þykir mér að sjá fólk týna sér, stundinni og staðnum, hverfa inn í mjúkan myndheim, liti og áferð.

Hverju ertu að vinna að núna/hvað er næst?

Núna er ég að vinna að sýningu sem opnar 13. Júlí í Norska húsinu á Stykkishólmi. Það verður mikið fjör í bænum. Hátíðin Heima í Hólmi verður haldin þessa sömu helgi, þá er boðið upp á tónleika í heima húsum og görðum víða um bæinn. Verkin á sýningunni verða áframhaldandi þróun á ljóðrænu myndmáli sem ég hef verið að byggja upp í sterkri tengingu við íslenska náttúru og gróðurinn okkar.

Svo eru framundan ein fjögur samstarfsverkefni, hér heima og erlendis. Ég get ekki farið nánar út í það að sinni, en hvet fólk til að finna mig undir nafninu lilyerla á Instagram, hlakka til að sýna og segja frá síðar.

Viðtalið við Lilý Erlu er að finna í blaðinu Eftir vinnu sem kom út á miðvikudaginn. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.