Katrín Edda Þorsteinsdóttir er 34 ára Íslendingur sem er búsett í Þýskalandi. Hún er sem stendur með fimm mánaða gamlli dóttur sinni í fæðingarorlofi en starfar utan þess sem verkfræðingur hjá Bosch og á samfélagsmiðlum.

Katrín Edda ásamt dóttur sinni og eiginmanni.
Katrín Edda ásamt dóttur sinni og eiginmanni.

Hvar ertu búsett og
hversu lengi hefur þú búið þar?

Ég bý í grennd við Stuttgart og hef búið þar á mismunandi stöðum síðan 2015 þegar ég byrjaði að vinna hjá Bosch eftir nám.

Þar áður bjó ég í rúm tvö ár í Karlsruhe þar sem ég var að klára mastersnámið mitt í orkuverkfræði.

Hver var ástæðan fyrir því að þú fluttir?

Ég kláraði grunnnám í vélaverkfræði í Háskóla Íslands og vildi fara eitthvert út í framhaldsnám. Þýskaland er með ótal möguleika á námi og vinnu, sem og frábært veður og góð lífsskilyrði og varð það því fyrir valinu.

Varst þú fljót að aðlagast nýjum aðstæðum og ertu búin að læra tungumálið?

Myndi ekki segja fljót endilega en námið var mestmegnis á ensku og það var ekki fyrr en á öðru ári þar sem ég átti að gera verknám sem ég fór að læra þýskuna. Ég gerði það nefnilega í framleiðsludeild í Bosch þar sem enginn kunni ensku og þá lærði ég að spreyta mig og tók miklum framförum.

Í dag er ég reiprennandi og tala til að mynda við manninn minn á þýsku, sem og alla í vinnunni.

Er mikill munur á menningunni úti og hér heima?

Þjóðverjar eru talsvert skipulagðari og stundvísari en Íslendingar og plana hluti langt fram í tímann. Skipulagið er yfirleitt kostur finnst mér en það er til dæmis ómögulegt að hagga Þjóðverja með einhverjar reglur líkt og á Íslandi eða fá einhvers konar undanþágur, sem getur verið erfitt fyrir Íslendinginn sem reiðir sig oft á "þetta reddast" mottóið.

En annars er ekki neinn stórkostlegur munur myndi ég segja en ég hef reyndar búið hérna í tæp 11 ár, er kannski orðin svolítið samdauna mannlífinu.

Hvernig er venjulegur dagur í þínu lífi úti?

Núna er lífið allt öðruvísi þar sem ég er í fæðingarorlofi.

Við vorum að koma úr tæplega þriggja vikna ferð á Íslandi (þegar þetta er skrifað) og förum aftur eftir sex vikur þar sem við maðurinn minn erum að fara að gifta okkur og halda brúðkaupsveisluna á Íslandi í lok júlí.

Dagurinn fer því yfirleitt núna mikið í að snúast í kringum stelpuna mína, plana brúðkaupið, fara í gönguferðir og mæta á æfingar. Á sunnudögum förum við oft í heimsókn til tengdaforeldra minna en tengdamóðir mín gerir flottustu og bestu tertur sem fyrirfinnast í Þýskalandi.

Hvað er planið að búa lengi úti?

Þú spyrð eins og það sé ekki planið að búa alltaf úti:) En það er ekkert fast planað að flytja heim, mest vildi ég að öll fjölskylda mín og vinir myndu flytja hingað því Þýskaland er mjög gott land til að búa í.

Ég sakna samt fólksins míns mikið og sá það alltaf fyrir mér að búa einhvern tíma aftur á Íslandi.

Mig langar til að eignast annað barn hér og mögulega flytja heim þá þegar leikskólamálin á Íslandi hafa skánað aðeins.

Eitthvað að lokum?

Það eru 26°C og sól í dag (þegar þetta er skrifað) og ég skrifa þetta úti í garðinum mínum í sólinni. Mæli með að prófa að fara til Þýskalands í frí í staðinn fyrir Tenerife.