Jökull Júlíusson, söngvari og lagahöfundur hljómsveitarinnar KALEO, hefur á síðustu árum skipað sér sess sem einn helsti fulltrúi íslenskrar tónlistar á alþjóðavísu. Með einstaka söngrödd og kraftmiklar lagasmíðar hefur hann hrifið áheyrendur um heim allan og leitt hljómsveit sína frá því að spila á hverfiskránni í Mosfellsbæ, í að koma fram á stærstu tónleikastöðum heims. Með lögum á borð við Way Down We Go og með útgáfu á Vor í Vaglaskógi og Sofðu unga ástin mín hefur KALEO skapað sér sterka sérstöðu sem alþjóðleg hljómsveit með djúpar íslenskar rætur.

Þegar blaðamaður ræðir við Jökul er hann búinn að vera á tónleikaferðalagi um langt skeið og er að sinna Evrópuhluta tónleikaferðalagsins. „Við höfum verið á ferðalagi stanslaust síðustu mánuði,“ segir Jökull. Hljómsveitin hefur undanfarið spilað víða um Norður-Ameríku, þar sem þeir hófu ferðalag sitt í júní. Einn af hápunktunum voru tónleikar í Red Rocks í Colorado sextánda júní.

„Það var magnað kvöld,“ segir Jökull. „Við gáfum út lagið Sofðu unga ástin mín á miðnætti, sem var sérstakt augnablik fyrir mig. Það var einnig gaman að finna hversu margir Íslendingar komu en um tvöhundruð gestir voru komnir frá Íslandi til að njóta tónleikanna.“

Red Rocks, sem margir telja einn glæsilegasta tónleikastað í Bandaríkjunum, er aðeins einn af mörgum stöðum sem KALEO hefur troðið upp á. Þeir hafa spilað á stórum hátíðum, tónleikahöllum og fjölbreyttum vettvangi víðsvegar um heiminn. „Bandaríkin eru okkar stærsti markaður,“ útskýrir Jökull. „En við erum líka heppnir að vera alþjóðleg hljómsveit og eiga aðdáendur víða.“

Kaleo tók upp tónlistarmyndband við nýja lagið Lonely Cowboy í Kólosseum í Róm.

Áskoranir tónleikabransans

Tónleikabransinn hefur breyst mikið á síðustu árum, og Jökull útskýrir hvernig mikil aukning í framboði tónleika hefur haft áhrif. „Eftir að geisladiskasala dróst saman og streymisveitur tóku yfir, þurfa allir tónlistarmenn að vera á ferðalagi til að skapa tekjur. Það hefur aldrei verið meira framboð af tónleikum en núna, sem gerir það erfiðara að bóka góða tónleikastaði.“ Hann nefnir að Red Rocks þurfi til dæmis að bóka að minnsta kosti ári fyrirfram, og það er jafnframt nauðsynlegt að selja upp fljótt.

Þetta er þó aðeins hluti af áskorununum. „Það er mikil vinna á bak við svona tónleikaferðalag,“ segir Jökull. „Við erum með tvær rútur, vörubíl og hátt í tuttugu manns í teyminu sem þarf að fæða og klæða. Það er gríðarlega kostnaðarsamt að ferðast með svona stórt batterí og þess vegna þurfum við að spila svona oft til þess að allt gangi upp.“ Hann segir að það sé komin þreyta í hópinn en þrátt fyrir það sé góð stemning. „Það er mjög góður andi og búið að vera gaman að spila, sérstaklega þegar maður er með eitthvað nýtt efni.“

Jökull segir það taka á að syngja níutíu mínútna rokktónleika dag eftir dag.

Glamúrinn minni en fólk grunar

Þrátt fyrir að vera orðinn vanur ferðalögum viðurkennir Jökull að lífið á tónleikaferðalagi geti tekið á. „Að syngja í 90 mínútur sex sinnum í viku gengur á þolmörkin. Ég hef þurft að tileinka mér mjög agaðan lífsstíl til að halda þetta út.“ Hann útskýrir að röddin og líkaminn sé hljóðfærið hans, og því sé nauðsynlegt fyrir hann að hlúa að sér. „Ég nota öll trixin sem ég hef lært um ævina til að halda röddinni í lagi og passa upp á mig líkamlega, veikjast ekki af kvefi og annað slíkt. Stærsta áskorunin er samt oft að sofa í rútu á ferð. Maður þarf alltaf að venjast því upp á nýtt.“

Jökull viðurkennir að tónleikalífið sé ekki alveg eins glæsilegt og margir vilja ímynda sér. „Glamúrinn er ekki jafn mikill og fólk heldur,“ segir hann og hlær. „Auðvitað eru þetta ótrúleg forréttindi og margt mjög gott, en það fylgir því líka gífurleg vinna sem fólk gerir sér oft ekki grein fyrir. Þetta er ekki starf sem margir myndu hafa úthald í og það er ekkert stéttarfélag sem passar upp á okkur,“ segir hann.

Hann leggur þó áherslu á að þetta sé alltaf þess virði. „Þetta byggir að mörgu leyti á þakklæti. Það er erfitt að finna meira kikk en það að spila tónlist sem maður hefur sjálfur samið fyrir mörg þúsund manns og sjá hvernig hún snertir fólk. Tónlist er auðvitað algjörir töfrar.“

Jökull segir að heimsfaraldurinn hafi einnig varpað skýru ljósi á gildi lifandi tónlistar. „Eftir heimsfaraldurinn fann maður enn betur hversu mikilvægir lifandi tónleikar eru. Það er ekki hægt að endurskapa þá upplifun með streymi. Það er eitthvað einstakt við það að koma saman og deila þessari reynslu – það myndast tenging sem er ólýsanlega falleg. Það eru algjör forréttindi að fá að vinna við þetta.“

Tónlist sem ádeila

Eitt af lögunum sem KALEO hefur gefið út upp á þessu ári, er lagið USA Today sem hefur vakið mikla athygli og var meðal annars notað í fyrstu stiklunni fyrir sjónvarpsþáttaröðina Yellowstone. Lagið vakti meðal annars athygli vegna ádeilunnar sem það inniheldur. „Plötufyrirtækið og fleiri höfðu miklar áhyggjur af því að lagið væri pólitískt,“ segir Jökull. „En mér finnst það mikilvægt sem listamaður að hafa frelsi til að tjá mig. Ég er ekki að segja að ég hafi öll svörin, heldur að benda á raunveruleika sem margir búa við.“

Lagið fjallar óbeint um viðfangsefni sem Jökull segir hafa verið framandi fyrir hann sem Íslending. „Í Bandaríkjunum upplifir maður vikulegar fréttir af fjöldamorðum og skotárásum í skólum – eitthvað sem við, sem betur fer, þekkjum ekki hér heima. Þetta er svo óraunverulegt fyrir okkur, en það er daglegt líf fyrir svo marga þar.“

Vill vernda íslenska tungu

Eitt af því sem Jökull hefur lagt áherslu á í ferlinum er að halda íslenskri tungu á lofti. „Ég ákvað að gefa út Sofðu unga ástin mín, því þetta lag hefur alltaf haft sérstaka merkingu fyrir mig. Mamma söng það fyrir mig þegar ég var lítill, og það hefur fylgt mér alla ævi.“ Hann útskýrir að lög eins og Vor í Vaglaskógi séu í miklu uppáhaldi hjá tónleikagestum, hvar sem er í heiminum.

„Þetta er alltaf sérstakt augnablik á tónleikunum þegar þessi lög eru spiluð. Það verður algjör þögn í salnum, og það er fallegt að sjá hvernig tónlistin tengir fólk saman, óháð tungumáli.“ Jökull segir einnig að honum finnist mikilvægt að kynna íslenska menningu fyrir alþjóðlegum áhorfendum. „Íslenskan er eitt elsta tungumál sem er enn talað í dag, og það er okkar skylda að halda henni lifandi.“

Jökull er stoltur af upprunanum og reynir að lyfta Mosfellsbæ á allan hátt sem honum er fært.

Tengingin við Mosfellsbæ

Þrátt fyrir miklar annir á alþjóðavísu hefur Jökull aldrei gleymt rótum sínum. Hann ólst upp í Mosfellsbæ og er stoltur af tengslum sínum við heimabæinn. „Við höfum verið að styrkja Aftureldingu, og það hefur verið ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með þeim komast upp í efstu deild. Þetta samstarf hefur einnig hjálpað mér að tengjast samfélaginu betur, sérstaklega þegar maður er mikið í burtu.“

Hann nefnir einnig að fyrstu tónleikar Evróputúrsins hafi verið í Lissabon, þar sem um tvöhundruð Mosfellingar mættu á tónleikana. „Það var ótrúlega gaman. Þessar ferðir minna örlítið á það þegar Ísland fer á stórmót í íþróttum erlendis og fólk hópast út til að styðja nema að í okkar tilfelli erum við bara með okkar bæjarfélag. Það má segja að Mosfellingar hafi málað bæinn rauðan í Portúgal. “

List eða markaðsvara?

Jökull stefnir á að endast í bransanum og ná öllum sínum markmiðum. „Ég hef fulla trú á því að við getum gert þetta lengi,“ segir hann ákveðinn. „Ég er alltaf jafn spenntur fyrir þessu, og við erum á þeim stað í dag að við þurfum nánast ekki að gefa út nýtt efni til að fylla tónleikastaði. Enn sem komið er höfum við aðeins gefið út tvær plötur alþjóðlega.“

Hann dregur þó enga dul á þær áskoranir sem fylgja því að vera listamaður í nútímasamfélagi. „Þetta er tvíeggjað sverð. Auðvitað vill maður höfða til breiðari hóps, en það fylgir því oft skerðing á listrænu frelsi. Margir listamenn neyðast til að aðlaga sig að einhverri ákveðinni stefnu eða stíl til að ná vinsældum.“

Hann viðurkennir að hann hafi stundum þurft að hafna tækifærum sem gætu hafa orðið vinsæl, en samræmdust ekki hans listrænu sýn. „Það er ekki auðvelt að segja nei, en það er nauðsynlegt. Listin og markaðurinn fara ekki alltaf saman, og áskorunin felst í því að halda sínum listrænu heilindum án þess að fórna öllu fyrir vinsældir.“

Jökull veltir einnig fyrir sér breyttri tónlistarsenu og áhrifum samfélagsmiðla. „Það er ekki jafn heillandi fyrir mig að ná markmiðum í dag eins og það hefði verið á sjöunda eða áttunda áratugnum. Það að allir þurfi alltaf að vera sýnilegir á samfélagsmiðlum, deila hvað þeir borða í hádeginu eða bara öllu um líf sitt, dregur úr allri dulúð. Ég á erfitt með að ímynda mér hvernig listamenn eins og Jim Morrison gætu verið það sem þeir voru, í svona tíðaranda.“

Þrátt fyrir þessar áskoranir sér Jökull einnig jákvæðar hliðar. „Markaðurinn er víðari í dag, og það er ótrúlegt framboð af nýjum tækifærum. Þetta gerir það að verkum að fleiri listamenn fá pláss og rödd, sem er það jákvæða í þessu. Fyrir mig snýst þetta allt um jafnvægi – hversu miklu er maður tilbúinn að fórna til að ná markmiðum sínum?“

Jökull prýðir flösku einnar tegundarinnar af vínum þeirra Jökuls og Maison Wessman.
© Jón Ragnar Jónsson (Jón Ragnar Jónsson)

Samstarf við Maison Wessman

Samhliða tónlistinni hefur Jökull tekið þátt í verkefnum sem fela í sér skapandi tjáningu á öðrum sviðum. Eitt slíkt er samstarf hans við athafnamanninn Robert Wessman við framleiðslu vína í Bergerac í Frakklandi. „Ég er mikill vínáhugamaður og elska góð vín, þannig að þetta verkefni var algjör draumur fyrir mig,“ segir Jökull.

Fyrsti afrakstur samstarfsins eru tvær tegundir af hvítvíni úr Chardonnay þrúgu og tvær tegundir af rauðvíni úr Merlot og Cabernet Sauvignon-þrúgum. Jökull og Róbert blönduðu vínin undir leiðsögn Julians Viaud, frá Michel Rolland Associates. Fyrstu vínin, sem framleidd eru í takmörkuðu magni, verða í boði á Íslandi og í Frakklandi frá og með desember.

„Þetta eru vín í hæsta gæðaflokki, og ég er mjög stoltur af útkomunni.“ Hann bætir við að vinnuferlið hafi verið einstök upplifun. „Það var ótrúlega fallegt að dvelja í Bergerac og taka þátt í þessu verkefni. Ég reyni alltaf að gera allt sem ég tek mér fyrir hendur vel, og þetta er engin undantekning.“

Jökull segir það mikla upplifun að hafa fengið tækifæri til þess að búa til sitt eigið vín og njóta fegurðarinnar á heimili Róberts Wessman í Bergerac.
© Jón Ragnar Jónsson (Jón Ragnar Jónsson)

Tíska sem tjáningarform

Tíska hefur lengi verið hluti af sköpun Jökuls, og hann sér hana sem leið til að tjá sig á annan hátt en í gegnum tónlistina. „Tíska er fyrir mér eins konar aukalag af listrænni tjáningu,“ segir hann. Persónulegur stíll hans hefur þróast með árunum og er í dag blanda af áhrifum frá vestrænum menningarheimi og hönnun frá heimsþekktum tískumerkjum.

„Ég hef unnið mikið með Ralph Lauren og frænda hans Greg Lauren, og það hefur verið ótrúlega skemmtilegt.“ Hann nefnir einnig hvernig stíll hans hefur orðið fyrir áhrifum frá því að hafa verið á ferðalagi um Bandaríkin svo lengi. „Það er eitthvað við vestrænan stíl sem höfðar til mín. Ég elska að blanda saman einhverju hráu og náttúrulegu, við fágaðri stíla frá stærri merkjum eins og Gucci og Versace.“

Hann viðurkennir að höfuðföt skipi sérstakan sess hjá honum. „Ég á mjög stórt hattasafn og hef meira að segja fengið tækifæri til að taka þátt í að hanna mína eigin hatta, sem var ótrúlega skemmtilegt.“

Jökull er mikill áhugamaður um hatta og hefur meðal annars fengið að taka þátt í að hanna sína eigin hatta.
© Jón Ragnar Jónsson (Jón Ragnar Jónsson)

Heimilið í Nashville

Þegar Jökull er ekki á tónleikaferðalagi, skiptir hann tíma sínum milli Íslands og Nashville í Bandaríkjunum. „Nashville er ótrúleg borg og örugglega ein sú mest lifandi í heiminum í dag,“ segir hann. Hann bætir við að borgin hafi breyst mikið síðan hann fór þangað fyrst fyrir tíu árum. „Þetta er miðstöð tónlistarinnar, en hún er líka svo margt annað. Ég er sjúklega spenntur fyrir því að Icelandair sé byrjað að fljúga þangað beint. Ég held að Íslendingar muni elska þessa borg.“

Nashville hefur orðið eins konar annað heimili fyrir Jökul, og hann segist njóta þess að vinna þar að nýrri tónlist í skapandi umhverfi. „Þetta er góður staður til að hlaða batteríin og fá nýjan innblástur.“

Jökull er með einstakan stíl og hefur mikinn áhuga á fatnaði og skarti.

Þétt dagskrá framundan

Þrátt fyrir annasama daga á tónleikaferðalagi segist Jökull alltaf reyna að halda ákveðnum hefðum í heiðri. „Ég stefni á að halda jól heima á Íslandi eins og ég hef alltaf gert,“ segir Jökull. Eftir áramótin tekur hins vegar við krefjandi og spennandi dagskrá. „Við förum til Ástralíu, Nýja-Sjálands og Suður-Ameríku í byrjun árs,“ útskýrir hann.

Þar að auki er KALEO í óða önn að undirbúa útgáfu nýrrar plötu, sem er væntanleg næsta vor. „Það er alltaf sérstök tilfinning að gefa út nýtt efni og við erum mjög spennt fyrir því að deila því með áhorfendum.“

Þrátt fyrir þétta dagskrá og ótal ferðir um heiminn er Jökull jarðbundinn og þakklátur fyrir það sem hann hefur náð að byggja upp. „Ég nýt þess að ferðast, semja og koma fram, en það er líka dýrmætt að koma heim og verja tíma með fólkinu mínu.“

Eftir langt tónleikaferðalag, hlakkar Jökull til að halda jólin heima með fjölskyldunni.

Viðtalið við Jökul Júlíusson birtist fyrst í nýjasta tölublaði Eftir vinnu.

Áskrifendur geta lesið blaið í heild hér.