Miðfjarðará er sú á sem skilaði flestum löxum á stöng síðasta sumar eða 273. Andakílsá er í öðru sæti listans með 263 laxa á stöng. Laxveiðin batnaði mikið á milli ára og var meðalveiðin í þeim 50 ám sem fjallað er um hér 121 lax á stöng samanborið við 94 sumarið 2023.

Þó heildarveiðin hafi verið 30% betri en sumarið 2023 þá var hún 11% undir meðaltalsveiði í íslenskum ám frá aldamótum. Þegar horft er á aflahæstu árnar þá var Ytri-Rangá með flesta laxa síðasta sumar eða um 4.600. Þar á eftir komu Miðfjarðará og Þverá og Kjarrá.

Allar aðstæður til stangaveiði voru með besta móti síðasta sumar. Gott vatn var í ám víðsvegar um landið, sem var mikil breyting frá veiðisumrinu 2023 þegar veiðimenn glímdu við vatnsleysi víða, og þá sérstaklega í ám á Suðvestur- og Vesturlandi.

Samkvæmt bráðbirgðatölum, sem Hafrannsóknarstofnun birti í haust, veiddust 42.400 laxar í íslenskum ám síðasta sumar. Til samanburðar veiddust ríflega 32.700 laxar sumarið 2023. Hlutfallslega er aukningin mikil á milli ára eða sem nemur 30% og var aukning í veiði í ám í öllum landshlutum.

Í samanburði við veiðisumarið 2023 verður að hafa í huga að það veiðisumar var það fjórða lakasta á þessari öld. Veiðin var einungis minni árin 2000, 2001 og í vatnsleysinu 2019.

Veiðin sumarið 2024 var 11% undir meðaltalsveiðinni á þessari öld sem er 47.875 laxar. Laxveiðin síðasta sumar var raunar mjög svipuð og sumarið 2022 þegar það veiddust samtals 43.200 laxar í öllum íslenskum laxveiðiám.

Besta laxveiðiár Íslandssögunnar var árið 2008 þegar ríflega 84.100 laxar veiddust. Þar á eftir kemur árið 2010 með um 75.000 laxa og árið 2008 með um 74.400 laxa. Vert er að geta þess að þessi ár hafði góð veiði í hafbeitarám mikið að segja, sem dæmi veiddust um 29.000 laxar hafbeitarám sumarið 2008.

Villti laxinn

Í bráðabirgðaskýrslu Hafrannóknarstofnunar frá því haust er að finna tölur fyrir á veiði á villtum löxum, sem og löxum úr hafbeitarám. Alls veiddust um 35.100 villtir laxar síðasta sumar og í hafbeitarám var veiðin um 7.300 laxar. Helstu hafbeitarár landsins eru Ytri-Rangá, Eystri-Rangá, Affalið í Landeyjum og Þverá í Fljótshlíð. Í þessum ám er gönguseiðum sleppt að vori. Þau ganga til sjávar og koma aftur í árnar einu ári seinna sem smálaxar eða tveimur árum seinna sem stórlaxar. Sjálfsagt er að geta þess að seiðum er sleppt í ýmsar aðrar laxveiðiár í þeim tilgangi að styrkja laxveiðigöngur. Þegar það er gert koma seiðin úr náttúrulegum stofnum viðkomandi áa.

Í tölum yfir veiði á villtum laxi síðasta sumar leynast örlitlar jákvæðar fréttir því veiði úr villta laxastofninum hefur ekki verið meiri síðan árið 2018. Í þessu samhengi verður samt að geta þess síðustu ár hafa verið léleg. Því til sönnunar má nefna að árið 2015 veiddust 57.900 laxar úr villta laxastofninum. Stofninn á því undir högg að sækja eins og veiðimenn vita.

Áskrifendur geta skoðað listann yfir árnar 50 hér.

Veiði á stöng

Lokaskýrsla Hafrannsóknastofnunar um laxveiðina sumarið 2024 kemur ekki út fyrr en í júní á næsta ári. Líkt og undanfarin ár tekur Viðskiptablaðið smá forskot á sæluna og rýnir í veiðitölur, þar sem m.a. er stuðst við vefsíðu Landssambands veiðifélaga (LV), angling.is.

Hefur Viðskiptablaðið fengið upplýsingar um lokatölur í 49 laxveiðiám og reiknað veiði á stöng en sá mælikvarði gefur nokkuð góða mynd af veiði í ám. Veiði á stöng er líka besti mælikvarðinn til þess að bera saman laxveiðiár. Fjöldi stanga í ám getur verið misjafn milli ára en einnig eru þónokkur dæmi um að veitt sé á mismargar stangir í ám yfir sumartímann. Ágætt dæmi um það eru Elliðaárnar, en þar er ýmist veitt á fjórar eða sex stangir á veiðitímabilinu. Viðskiptablaðið hefur reynt eftir bestu getu að taka tillit til þessara þátta.

Síðasta sumar veiddust ríflega 36.665 laxar í þeim 50 ám sem hér er fjallað um, sem gerir 121 lax á stöng að meðaltali. Til samanburðar veiddust um 28.407 laxar sumarið 2023 eða 94 laxar á stöng en þá náði úttektin til 49 áa. Sjálfsagt er að beina því til leigutaka áa og veiðiréttarhafa að skila lokatölum yfir veiði til Landssambands veiðifélaga. Þegar einblínt er á 50 aflahæstu árnar þá var veiðin síðasta sumar ekki ósvipuð veiðinni 2020 en þá veiddust  37.800 laxar, sem gerir 123 laxa á stöng að meðaltali.

Viðskiptablaðið hefur tekið saman tölur yfir veiði í 50 bestu ánum frá árinu 2012 og frá þeim tíma hefur veiðin mest farið í ríflega 63.600 laxa eða 198 laxa á stöng. Þetta var sumarið 2015. Til þess að setja þetta í samhengi þá veiddust nærri 27.000 fleiri laxar sumarið 2015 en sumarið 2024.

Miðfjarðará á toppnum

Af þeim 50 ám sem fjallað er um hér voru sex með yfir 200 laxa á stöng á stöng síðasta sumar. Er þetta mikil breyting frá árinu 2023 þegar einungis Selá í Vopnafirði var yfir þessu marki með 213 laxa á stöng. Veiðin jókst á milli ára í 36 ám af 48, en tölur fyrir Fljótaá og Sunnudalsá fyrir sumarið 2023 liggja ekki fyrir.

Miðfjarðará í Miðfirði trónir á toppi listan yfir 50 bestu laxveiðiár landsins veiðisumarið 2024 miðað við veiði á stöng. Alls veiddust 273 laxar á stöng í Miðfjarðará síðasta sumar samanborið við 148 sumarið 2023. Þetta þýðir að veiðin jókst um 84% milli ára. Sumarið 2023 var Miðfjarðará í 9. sæti listan yfir 50 bestu ár landsins miðað við veiði á stöng.

Miðfjarðará hefur verið mjög ofarlega á þessum lista í gegnum árin og var meðal annars í efsta sæti hans árið 2017 með 418 laxa á stöng.

Í öðru sæti listans er Andakílsá með 263 laxa á stöng. Veiðin í Andakílsá tók heldur betur kipp á milli ára því sumarið 2023 veiddust 89 laxar á stöng í ánni. Aukningin milli ára nemur því 197%.

Síðustu ár hefur Andakílsá tvisvar verið á toppi listans yfir bestu árnar miðað við veiði á stöng en það var árið 2021 þegar það veiddust 259 laxar á stöng í ánni og árið 2020 þegar veiðin var ævintýraleg eða 661 lax á stöng. Ástæðuna fyrir þessari gríðarlegu veiði má ekki síst rekja til nauðsynlegra seiðasleppinga eftir slys sem varð vorið 2017. Þá var inntakslón Andakílsvirkjunar tæmt með þeim afleiðingum að árfarvegurinn fylltist af aur, sem hafði mikil áhrif á lífríki árinnar. Vegna þessa var áin friðuð sumarið 2017, sem og 2018 og 2019. Í kjölfarið hófust seiðasleppingar til að byggja aftur upp stofn árinnar.

Í 3. sæti listans er Laxá í Dölum með 255 laxa á stöng, sem er 110% aukning frá sumrinu 2023 þegar 122 laxar veiddust á stöng í ánni. Laxá í Dölum hefur oft verið mjög ofarlega á þessum lista. Sem dæmdi veiddust 323 laxar á stöng í ánni árið 2016 og það ár var hún í 3. sæti listans.

Í fjórða sæti er Laxá á Ásum með 252 laxa á stöng. Þess má geta að Laxá á Ásum sprengdi alla skala á þessum lista árið 2015 þegar hún skilaði 898 löxum á stöng. Þess ber að geta að á þeim árum var einungis veitt á 2 stangir í ánni en frá árinu 2017 hefur verið veitt á 4 stangir í Laxá á Ásum. Í 5 sæti er Ytri-Rangá með 241 lax á stöng og í 6. sæti er Selá í Vopnafirði með 233 laxa á stöng en Selá var á toppi listans í fyrra. Í 7. sæti eru svo sjálfar Elliðaárnar með 186 laxa á stöng. Þar á eftir kemur Urriðafoss í Þjórsá, Þverá og Kjarrá og svo Hrútafjarðará.

Nánar er fjallað um málið í tímaritinu Áramót, sem kom út í dag. Áskrifendur geta séð allan listann og lesið umfjöllunina í heild hér.