Verduno Pelaverga eru afar ljós og svipar til Pinot Noir, þau eru létt og ilma af rauðum berjum og hvítum pipar sem gerir þau fjölhæf í matarpörun, t.d. með hvítu kjöti og pastaréttum

Fyrir þá sem vilja lifa á brúninni gætum við stungið upp á hæfilega krydduðum asískum réttum en fyrir hina er hér frábær samsetning frá Leifi Kolbeinssyni á La Primavera sem rímar ágætlega við þá fjölbreytni sem er að finna þegar helstu rétti Piemonte-héraðs ber á góma í bókstaflegri merkingu.

IMG_0729
IMG_0729

Ljóðskáld og frelsishetja fá sér hádegismat

Blaðamaður hitti á dögunum þá Arnar Sigurðsson, handhafa frelsisverðlauna Sambands ungra sjálfstæðismanna árið 2017, og Elías Blöndal Guðjónsson, höfund ljóðasafnsins Lóan er farin. Svo skemmtilega vill til að þeir eru jafnframt eigendur verslunarinnar Sante, sem flytur inn vín sem eru gerð úr Pelaverga-þrúgunni. Erindið var að dreypa á vínunum og para þau við það sem boðið var upp á það hádegið á La Primavera á Granda – það og fagna styttingu vinnuvikunnar.

IMG_0728
IMG_0728

Forréttirnir voru saltfiskur, tómatsúpa og bruschetta með burrata-osti. Það segir allt sem segja þarf um fjölhæfni Pelavarga-vínanna að þau smellpössuðu með öllum þessum réttum. Bæði hvíta vínið og það rauða pöruðust vel með saltfisknum, sem var vel að merkja framúrskarandi góður. Eins og flestir vita tíðkast nú að kalla nætursaltaðan þorsk saltfisk en á La Primavera taka menn ekki þátt í slíku rugli.

Flugeldasýning og varnaðarorð Jeff Goldblum

Flugeldasýningin hélt áfram þegar aðalréttirnir voru bornir fram. Langa dagsins var í þetta sinn ekki langa heldur þorskur, sem var góður og rann ljúflega niður. Talið barst að eldisfiski og hvar endimörk þess iðnaðar liggja. Blaðamanni rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar Arnar viðhafði fræg viðvörunarorð Jeff Goldblum úr Jurassic Park í því samhengi. Rauðvínið féll frábærlega að pastaréttinum, sem var paccheri-pasta með sólþurrkuðum tómötum, skelfiski og parmaskinku. Pörunin við hvítvínið var ekki síðri. Ekki léttur réttur í hádegi en framúrskarandi góður. Það sama má segja um hægelduðu andalærin, sem voru borin fram með cannellini-baunum og sveppum. Sá réttur verður lengi í minni hafður rétt eins og félagsskapurinn.

Jarðvegurinn á Verduno-svæðinu er það sem mest hefur að segja um eiginleika vínanna en veðurfar þar er einnig mildara en á öðrum nærliggjandi svæðum. Þorpið Verduno er í um 380 metra hæð nærri Tanaro-ánni.

Það er vandasamt að framleiða vín úr Pelaverga Piccolo en þeir sem reyna eru yfirleitt eldri en tvævetur í greininni og kunna sitt fag vel. Einn af þessum framleiðendum er Reverdito-fjölskyldan. Áherslur Reverdito eru í tvíþættar: Í fyrsta lagi er megináhersla lögð á sjálfa ræktunina (án eiturefna) með það að markmiði að uppskera full-þroskaðar og heilbrigðar þrúgur. Víngerðin sjálf er síðan í stórum tunnum og ámum til að lágmarka áhrif eikarinnar svo að uppruna einkenni haldist. Verduno Pelaverga frá Reverdito er víngert í leirkerum. Vínið fæst á Sante.is og kostar kr. 3.800.