Sikiley er stærsta eyjan í Miðjarðarhafinu og er rík blanda af sögulegum, náttúrulegum og menningarlegum undrum. Eyjan hefur verið þungamiðja menningarheima í þúsundir ára, þar sem Grikkir, Rómverjar, Arabar og Normannar hafa skilið eftir sig djúp spor. Best er að sækja eyna heim frá apríl til júní og september fram í október, jafnvel nóvember. Við fjöllum um tvo bæi, Taormina og Siracusa, sem báðir eru á austanverðri eyjunni. Í næsta blaði verður fjallað um höfuðborgina Palermo og smábæinn Corleone.

Taormina

Austast á eynni er bærinn Taormina. Sá hefur verið talinn einn sá fallegasti á Ítalíu, og þar af leiðandi í allri Evrópu.Í nágrenni bæjarins er eldfjallið Etna sem hefur verið virkt meira og minna í 3 þúsund ár.

Bærinn hefur frá upphafi laðað að sér listafólk og meðal þeirra var Halldór Laxness sem skrifaði Vefarann mikla frá Kasmír þar árið 1925, en bókin kom út 1927.

Í ferðagrein í júní 1925, sem birtist í Morgunblaðinu, sagði Laxness.

„Hér leika allar heimsins tungur í einni ringulreið: Kínverskir pótentátar skála við hispursmeyjar úr Bandaríkjunum, og málaðar auðmæringa- frúr frá Piume og Marseille rétta handarbakið að vörum hálfblankra listamanna norðan úr heimi og þiggja koss, en enskar kellingar, sem líta út eins og hundrað og fertugir indjánahöfingjar, taka upp vindlinhylki og bjóða hómósexúalistískum dansmeisturum frá napóli, en meðan alt þetta gerist, er stiginn foxtrott og tangó, sungið og híað og hlegið, eða talað hljóðskraf og þuklað og strokið, en jazz-djöfullinn grenjar á alt saman með viðlíka krafti og uppskipunarvél í Leith.“

Þekktustu kennileitin í bænum eru Gríska leikhúsið, Isola Bella – lítil eyja tengd við stöndina með þunnri landræmu og aðalgatan Corso Umberto.

Grand Hotel Timeo

Ferðamannastraumurinn er þungur í borginni og má segja að þrjú hótel séu nokkurskonar vin í eyðimörkinni.

Við hlið gríska leikhússins er Grand Hotel Timeo þar sem rekið hefur verið hótel frá 1873. Byggingin stendur í nokkuð brattri hlíð er glæsilegt og þaðan er stórkostlegt útsýni út á Mazzarò flóann. Hótelið varð hluti af Belmond keðjunni árið 2010.

Rétt eins og systurhótelið Villa Sant’Andrea sem stendur í fjörunni við flóann, örskammt frá Isola Bella á strönd. Hótelið var byggt sem einkabústaður á 19. öld og umbreytt í hótel með áherslu á rómantíska og afslappaða upplifun. Svo brött er hlíðin að sólin hverfur snemma dags af ströndinni þá mánuði sem hún er lægra á lofti.

Villa sant'andrea
Siracusa er þekkt fyrir sínar einstöku fornminjar.

Siracusa – Söguleg menningarperla

Siracusa er á suðausturhluta Sikileyjar og er forn borg sem eitt sinn var ein mikilvægasta borg Grikkja í Miðjarðarhafinu. Með stórfenglega blöndu af sögu, menningu og náttúru hefur borgin heillað heimsóknargesti í árþúsundir. Í dag er hún þekkt fyrir sínar einstöku fornminjar, en UNESCO skilti eru nánast á hverju götuhorni.

Eitt helsta aðdráttarafl Siracusa er Neapolis fornleifasvæðið, sem er sannkölluð tímavél inn í fortíðina. Þar er að finna gríska leikhúsið, eitt stærsta leikhús fornaldar, sem enn er notað fyrir sýningar í dag. Á svæðinu má einnig skoða rómverskt hringleikahús og Ear of Dionysius, sérstakan helli sem er þekktur fyrir ótrúlegan hljómburð og goðsagnir sem tengjast honum.

2D7PD9P Temple of Apollo, ancient Greek monument in Syracuse, Sicily, Italy.
© Alamy Stock Photo (Alamy Stock Photo)

Umfjöllunin um Sikiley er að finna í nýjasta tölublaði Eftir vinnu.

Áskrifendur geta lesið blaðið í heild hér.