Kristín Morthens ólst upp í Reykjavík og er dóttir tveggja listamanna. Faðir hennar er Þorlákur Kristinsson Morthens, betur þekktur sem listamaðurinn Tolli og móðir hennar er Guðbjörg Thoroddsen leikkona. „Frá því ég var þriggja ára leyfði pabbi mér að mála með olíumálningu, sem ég hugsa oft um núna þar sem ég á sjálf dóttur,“ segir Kristín. „Það þykir mér fyndið, því ég myndi aldrei láta þriggja ára barn fá olíumálningu! En ég var stöðugt að mála og teikna, þó ég hugsaði ekki um þetta sem köllun strax í byrjun.“
VAR LÉLEGUST Í NÁMINU
Kristín tók ákvörðun um að verða listamaður þegar hún var sautján ára eftir að hafa stundað nám við Verzlunarskóla Íslands en ekki fundið sig þar. Þegar ákvörðunin var tekin var ekki aftur snúið. „Ég var dálítið alvarlegur unglingur hvað þetta varðaði. Ég nálgaðist þetta alltaf 100%.“
Hún upplifði sig þó ekki sem góðan listamann á þeim tíma. „Ég held að ég sé ágætur dómari á sjálfa mig. Þegar ég byrjaði í listnámi var ég langlélegust en ég er ótrúlega metnaðargjörn og ég teiknaði fjóra til fimm klukkutíma á hverjum degi í heilt ár, þangað til að ég varð ein af þeim bestu. Það eru til einstaklingar sem eru fæddir með þessa ótrúlegu náðargáfu en ég held að það sé oft meira hugmyndin um snillinginn sem fólk elskar. Í rauninni er þetta bara spurning um þessa stöðugu leit og hvað þú leggur mikið inn í bankann.“
VINNAN ALLTAF Í FORGANGI
„Þegar ég byrjaði að mála gerði ég mér ekki grein fyrir því hvernig listheimurinn virkaði,“ segir Kristín Morthens og rifjar upp fyrstu árin sín sem listamaður. „Ég var þó mjög heppin að hafa fyrirmyndir í kringum mig sem störfuðu sem listamenn. Það gaf mér mikið forskot.“
Hún útskýrir að frá upphafi hafi hún sett listina í forgang og komist að þeirri niðurstöðu að ef hún ætlaði að gera þetta að ævistarfi, þyrfti hún að nálgast þetta eins og hvers kyns vinnu. „Ég var á vinnustofunni í sjö til átta tíma á dag, og jafnvel lengur þegar ég var yngri. Það var mér mjög mikilvægt að taka þetta alvarlega frá byrjun, og ég held að það sé eitthvað sem margir ungir listamenn átta sig ekki á strax að þetta er ekki bara sköpun, heldur líka mikil vinna sem þarf að fylgja. Ég held að það sé ágætt að unglingar skilji það ekki strax,“ segir hún og brosir. „Ef maður myndi átta sig á öllum áskorununum fyrir fram, þá er ekki víst að maður myndi leggja þetta fyrir sig.“
Kristín lýsir einnig mikilvægi þess að hafa fyrirmynd í föður sínum, sem hefur starfað sem listamaður í áratugi. „Pabbi minn er 75 ára og mætir alltaf á vinnustofuna klukkan níu. Ég hef lært mikið af því að sjá hvernig hann nálgast starfið sitt sem listamaður, jafnvel þegar maður er illa stemmdur. Þá er mikilvægt að mæta og vinna að öðrum þáttum, undirbúa eða gera eitthvert handverk.“
SAMANBURÐURINN VIÐ TOLLA
Kristín viðurkennir að það hafi verið ákveðin áskorun að vera borin saman við föður sinn, listamanninn Tolla, sérstaklega á fyrstu stigum ferilsins. „Það var smá erfitt að þurfa að glíma við samanburðinn, en þess vegna var mjög mikilvægt fyrir mig að fara erlendis í nám þar sem enginn vissi hver pabbi minn var,“ segir hún. Hún útskýrir að þetta hafi gefið henni sjálfsöryggi og sjálfstæði sem listamaður.
Þrátt fyrir samanburðinn segir hún það að öðru leyti jákvætt að eiga föður sem starfar við sömu listgrein. „Pabbi er ótrúlegur málari og listamaður. Að sjá hvernig hann hefur byggt upp ferilinn sinn, nánast eins og fyrirtæki, hefur hjálpað mér ótrúlega mikið.“ Hún viðurkennir að nafnið hafi vakið athygli á verkum hennar til að byrja með og lítur á það sem mikil forréttindi. „Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið þessa athygli, en það var líka mikilvægt fyrir mig að sanna mig á eigin forsendum.“
LÍFIÐ TÓK ÓVÆNTA STEFNU VEGNA HEIMSFARALDURS
Árið 2014 flutti Kristín til Toronto til að stunda nám í málverki og teikningu, og eftir námið vann hún með galleríum í borginni. „Það gekk mjög vel og ég fékk mörg tækifæri,“ segir hún. Þrátt fyrir það kom Kristín reglulega til Íslands, því hún vissi að einn daginn myndi hún vilja setjast að heima og það var mikilvægt að halda tengslum. Í ársbyrjun 2020 sneri Kristín aftur til Íslands til að vinna að stuttu verkefni, en þá skall á Covid faraldurinn og landamærin lokuðust. Þetta hafði mikil áhrif á líf hennar. „Ég kynntist fyrrverandi manninum mínum og við eignuðumst barn fljótlega. Lífið tók þá nýja stefnu, og ég er ótrúlega þakklát fyrir það. Ég átti alltaf að koma hingað, því ég hef svo sterka tengingu við landið, fólkið og fjölskylduna.“
Eftir að Kristín eignaðist dóttur sína árið 2022 fann hún hvernig hún þróaðist enn frekar, bæði sem einstaklingur og listamaður. „Á síðustu tveimur árum hafa hlutirnir gerst mjög hratt,“ segir Kristín og bætir við að bæði samstarf hennar við Þulu gallerí og þátttaka í listamessum í Skandinavíu hafi verið lykilþættir í velgengninni. „Ég er komin inn í mjög flottar einkasafneignir í Skandinavíu, og á rúmu ári eru verkin mín komin inn í þrjár mikilvægar safneignir hérlendis: Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur og Seðlabankann. Það hefur allt komið saman á síðustu tveimur árum vegna þess að ég var orðin nógu kjörnuð sem listamaður til að leyfa þessu að gerast,“ segir hún.
AÐ FINNA SÍNA RÖDD
„Myndlistin sem ég skapa í dag er í raun kjarni minn,“ segir Kristín og útskýrir hvernig hún hefur þróast sem listamaður. „Þegar ég byrjaði, þá lærði ég klassíska módelteikningu og hefðbundna málaratækni. Ég eyddi oft 10 tímum á dag í stúdíóinu á meðan ég var í námi og fór inn í námið með opinn hug. Ég var stöðugt að leita að röddinni minni, að prófa ólíka hluti og finna leiðir til að láta þá virka fyrir mig.“ Hún útskýrir að þetta ferli hafi ekki alltaf verið auðvelt og að hún hafi þurft að gera margar tilraunir áður en hún fann þann stíl sem hún upplifir nú sem „sinn eigin“.
Kristín rifjar upp hvernig ákveðnir þættir í listsköpun hennar fóru að taka á sig mynd þegar hún var í námi. „Partar af minni myndlist, eins og hún er í dag, byrjuðu að koma í ljós á öðru árinu mínu í skólanum. Þá var ég farin að prófa ólíkar áferðir og efni og hvernig þau stangast á.“ Hún útskýrir hvernig verkin hennar hafi ákveðið flæði þar sem fletir byrja að dansa fram og aftur, þannig að áhorfandinn sér ekki alltaf hvað er fyrir framan eða hvað er aftan.
„Að finna sína rödd getur verið flókið, en þegar maður loksins finnur hana, þá flæðir sköpunin betur,“ segir Kristín. Hún segir að það hafi tekið tíma að komast á þann stað þar sem hún nú er. „Þegar þú hefur fundið þinn eigin stíl, þá hefurðu líka frelsi til að kanna nýja möguleika innan þíns eigin heims, hvort sem það er í miðlum, litum eða einhverju öðru.“
HÉLT AÐ ALLT ÆTTI AÐ VERA ERFITT
„Það var ákveðinn tímapunktur þar sem mér fannst málverkin mín verða of auðveld. Ég hélt að til þess að vera betri málari þyrfti ég alltaf að gera eitthvað erfitt, að vera stöðugt að finna upp hjólið.“ Hún útskýrir að þetta hafi leitt til þess að hún eyddi þremur árum í að flækjast fyrir sjálfri sér. „Ég var stöðugt að reyna að gera hlutina flóknari en þeir þurftu að vera, og fannst ég vera að svindla þegar hlutirnir gengu upp of auðveldlega.“
Það var ekki fyrr en hún eignaðist dóttur sína að hún áttaði sig á því að þetta ferli hafði verið óþarfa flækja. „Þá fór ég að sjá hlutina skýrar. Ég áttaði mig á því að ég hafði fundið kjarnann minn sem listamaður og þess vegna voru verkin mín orðin auðveldari að skapa. Þetta eru málverkin sem ég á að vera gera,“ segir hún.
FORRÉTTINDI AÐ LIFA AF LISTINNI
Kristín lítur á það sem mikil forréttindi að geta lifað af listinni. „Það er ótrúlegt að geta helgað sig listinni fullkomlega. Það gefur manni svigrúm til að vaxa og þroskast sem listamaður. Mér finnst það svo gott að geta þetta af því að mér finnst ég sjá mig verða betri og betri málari með hverjum deginum,“ segir hún.
Hún telur að listamannalaun séu lykilatriði í þessu samhengi, því þau veiti listamönnum þann tíma sem þeir þurfa til að þróa sig. „Ef maður er með þau forréttindi að hafa tímann til þess að iðka þetta þá eru geggjuð tækifæri hér. Ísland er mjög sérstakt með það. Þú getur verið í 10 ár í New York, alltaf í stúdíóinu, alltaf að reyna fá sýningu og það gerist ekkert. Þú munt aldrei sýna. Og það er ekki af því að viðkomandi er lélegur, þetta er bara ekki sjálfsagt.“
VELGENGNI OG FRAMTÍÐIN
Á síðustu árum hefur verið nóg að gera hjá Kristínu, og biðlistar myndast eftir verkum hennar. Hún viðurkennir að það hafi verið mikið að gera, en segir að hún reyni að vinna jafnt og þétt og leyfi verkunum að taka þann tíma sem þau þurfa. Hún segist aldrei hafa getað þetta án Þulu sem sér um viðskiptahliðina. Fyrir vikið geti hún varið sínum tíma í að mála. „Sumir koma þó til mín á vinnustofuna og mér finnst alltaf jafn gaman að hitta einstaklinga og safnara. Ég elska líka að vita hvert verkin mín eru að fara.“
Framtíðarsýn Kristínar er skýr. Hún stefnir á að starfa á alþjóðavettvangi og sýna verk sín víða um heim en hún er með tvær sýningar í gangi núna. Öxull í Þulu og Óþekkt alúð í Hafnarborg. „Svo vona ég að bara að þetta verði ævistarfið mitt og ég stefni á að verða besti málari sem ég get hugsanlega orðið,“ segir hún að lokum.