Helga Elíasdóttir hefur tekið við starfi fjármálastjóra hjá Ísorku. Hún tekur við keflinu af Reyni Valbergssyni sem hverfur til annarra verkefna.

Helga hefur víðtæka reynslu af fjármálum og rekstri m.a. fyrir Ölgerðina, þar sem hún starfaði sem deildarstjóri reikningshalds, og tengd félög. Hún hefur jafnframt starfað sem sérfræðingur í fjármálum hjá Iceland Spring og CCP og sem Rekstrarstjóri Iceland Go Tours.

Helga er með MSc próf í fjármálum fyrirtækja og BSc í fjármálum og reikningshaldi.

„Við hjá Ísorku höfum á undanförnum mánuðum unnið að endurskoðun á rekstri félagsins, innri ferlum og skipulagi með það að markmiði að styrkja starfsemina og bæta þjónustu við viðskiptavini okkar. Helga hefur yfirgripsmikla reynslu og þekkingu af rekstri og fjármálum. Ráðning hennar er liður í því að skapa félaginu traustan grunn fyrir áframhaldandi vöxt,” segir Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ísorku.

Ísorka er með um 55.000 virka notendur hleðslustöðva fyrir rafbíla vítt og breitt um landið. Fyrirtækið sérhæfir sig í heildstæðum hleðslulausnum fyrir einstaklinga og fyrirtæki, býður viðskiptavinum sínum ráðgjöf og annast uppsetningu og umsjón með rekstri og þjónustu hleðslustöðva.

„Ég er full tilhlökkunar að takast á við komandi tíma með starfsmönnum Ísorku og leggja mitt af mörkum til frekari framþróunar fyrirtækisins,“ segir Helga.