Mikil uppbygging á sér stað á sviði landeldis hér á landi um þessar mundir. Fiskeldisfyrirtækið Landeldi er eitt þeirra sem áforma nú uppbyggingu tugþúsunda tonna afkastagetu á ári, nánar tiltekið um 50 þúsund tonn á ári þegar það sem nú er á teikniborði félagsins verður fullklárað á Þorlákshöfn að hálfum áratug liðnum.
„Við ætlum að einbeita okkur að gæðum frekar en magni,“ útskýrir Eggert Þór Kristófersson, framkvæmdastjóri Landeldis.
Hann segir þó stærðarhagkvæmni vissulega geta skipt máli, en hún skili sér mestmegnis upp að um 25 þúsund tonna árlegri afkastagetu. „Að búa til 10 þúsund tonna eldi væri örugglega áskorun. Þú vilt komast í svona 25-28 þúsund tonn allavega. Við ætlum í 50, en ég er ekkert viss um að við færum í 100 þó við gætum það. Ég held að það sé bara erfiðara verkefni að viðhalda gæðunum þegar þú ert orðinn svona stór,“ segir Eggert og tekur dæmi af Noregi, stærsta framleiðanda á laxi í heiminum: „Þeir eru meira í magninu en gæðunum.“ Á meðan séu Færeyingar sem dæmi meira í gæðunum, og fái því hærra verð fyrir sinn fisk.
Áætlaður kostnaður við uppbyggingu Landeldis á Þorlákshöfn er um 650 milljónir evra, eða rétt tæpir 100 milljarðar króna. Eggert segir stofnkostnað landeldis vissulega mikinn, mun meiri en í sjókvíaeldi, en á móti sé rekstrarkostnaðurinn lægri.
Nýlegar vaxtahækkanir hafa vissulega ekki verið til þess fallnar að bæta stöðu verkefnisins að sögn Eggerts, en hafa þó ekki sett svo stórt strik í reikninginn. „Þegar farið var af stað með þetta voru vextir náttúrulega ekki búnir að hækka svona mikið, en að því sögðu verður þetta erlent greiðsluflæði og við gerum því ráð fyrir að fjármagna þetta með erlendu lánsfé til samræmis,“ segir hann, en vextir eru enn sem komið er nokkru lægri í flestum okkar nágrannalöndum.
Stöðugleikinn gefi betri vöru
Þegar blaðamaður spyr út í samkeppni útskýrir Eggert að til þess að framleiða lax með því gegnumstreymisfyrirkomulagi sem Landeldi hyggst notast við, sem felur í sér mikið og sífellt flæði nýs sjávarvatns, séu aðstæður á Íslandi einstakar. „Það er ekki hægt að gera þetta hvar sem er.“
Auk lægri rekstrarkostnaðar þegar búið er að koma eldisstöðvunum upp segir Eggert vonir og væntingar standa til þess að betri vara fáist úr landeldinu en sjókvíaeldi. „Við erum að horfa á þetta út frá þessum stöðugleika sem felst í góðum vatnsgæðum með sama hitastiginu sem er eitthvað sem ætti að gefa okkur betri vöru,“ segir Eggert og útskýrir að vatnið verði þó raunverulegt sjávarvatn, sem borað sé eftir og undirgangist í raun náttúrulega hraunsíun áður en hann renni inn í eldiskörin.
Á meðan sjóhitinn í sjókvíaeldinu sveiflist frá 2-3 gráðum að vetri til upp í 12 að sumri verði hitinn hjá Landeldi alltaf sömu 9 gráðurnar. „Það teljum við að muni skila okkur betri fisk, sem við ætlum okkur að selja á hærra verði en markaðurinn almennt.“
Til að svo megi verða segir Eggert fiskinn fyrst og fremst þurfa að vera betri á bragðið og með góðan þéttleika og áferð, „en það er engin spurning að íslenska vatnið, íslenski sjórinn, allur þessi tærleiki og umhverfisvæna orkan sem við notum í þetta sem dæmi, það hjálpar klárlega mikið til.“
Verðið þyrfti að helmingast til að reksturinn færi í mínus
Þótt heimsmarkaðsverð á fiski sé í hæstu hæðum eftir miklar hækkanir síðustu ár hefur hann því litlar áhyggjur af þróun þess eða eftirspurn eftir vörunni til framtíðar, og nefnir meðal annars að á sjávarútvegssýningu í Boston á dögunum hafi afurðum Landeldis verið sýndur mikill áhugi.
Forsvarsmenn Landeldis hafa þegar fundað með helstu smásöluaðilum á markaði í Bretlandi, Noregi og Svíþjóð. „Það virtist vera mikill áhugi hjá þeirra viðskiptavinum á sjálfbærari vöru sem framleidd er með hreinni orku. Það er bara krafan frá þeim í dag og hún mun bara fara vaxandi,“ segir Eggert öruggur. „Miðað við horfur hvað framboð og eftirspurn eftir próteini varðar stefnir í vöntun á laxi í fyrirsjáanlegri framtíð.“
Að því sögðu geti auðvitað allt gerst segir hann og nefnir Úkraínu. „En að því gefnu að menn séu svona nokkurn veginn til friðs í heiminum þá er þetta mjög líklega markaður sem helst nú þarna einhversstaðar í 8-10 evrum á kílóið.“
„Það er góð framlegð í þessu,“ segir Eggert og vísar þar til svokallaðrar EBITDA-framlegðar, hlutfalls rekstrarhagnaðar af heildartekjum, sem hann segir vera um 40% í landeldi. Matvælaverð sé vissulega hátt í dag, en verðið á laxi þyrfti að lækka um sirka helming og fara undir 6 evrur til að reksturinn yrði óarðbær.
Uppbygging landeldis á laxi á Íslandi
- Laxeldisstöð Samherja á Reykjanesi. Fyrirhuguð ársframleiðsla er 40 þúsund tonn og áformað er að hefja starfsemi árið 2026.
- Laxeldisstöð Landeldis í Þorlákshöfn. Fyrirhuguð ársframleiðsla er 50 þúsund tonn og starfsemi er þegar hafin.
- Laxeldisstöð Geo Salmo í Þorlákshöfn. Fyrirhuguð ársframleiðsla er 24 þúsund tonn og áformað er að hefja starfsemi 2025.
- Laxeldisstöð Land Farmed Salmon í Vestmannaeyjum. Fyrirhuguð ársframleiðsla er 15 þúsund tonn með mögulegri stækkun í 30 þúsund tonn og áformað er að hefja starfsemi 2025.
Umfjöllunin birtist fyrst í sérblaðinu SFS: Auður hafsins - lífskjör framtíðar, sem kom út fimmtudaginn 23. mars 2023.