Síldarvinnslan í Neskaupstað hefur verið kjölfestufyrirtæki í sjávarútvegi allt frá stofnun og hefur félagið vaxið og dafnað síðustu ár og áratugi, bæði með ytri og innri vexti. Rekstrargrundvöllur félagsins hefur verið sterkur og hafa hluthafar, sem eru í dag um 3200 talsins, notið góðs af því.

„Umræða um gagnsæi og ákall um skráningu sjávarútvegsfélaga á markað gerði það að verkum að hluthafar Síldarvinnslunnar ákváðu að skrá félagið á markað og við það margfaldaðist fjöldi hluthafa og lífeyrissjóðir hafa komið sterkir inn í hluthafahópinn. Þetta var lærdómsríkt og ánægjulegt skref og hefur áhugi á félaginu verið töluverður,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

Áskoranir í rekstrarumhverfi félagsins, sem og annarra í sjávarútvegi, hafa þó færst í aukana undanfarin ár og má þar meðal annars nefna loðnubrest, eldsumbrot á Reykjanesi og orkuskort. Einnig er óvissa um helstu deilistofna þar sem ekki ríkir samkomulag um skiptingu eða nýtingu þeirra.

Þá hefur gjaldtaka í sjávarútvegi aukist til muna og ekkert lát er þar á. Gunnþór er meðal þeirra sem gagnrýna nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar um „leiðréttingu“ á veiðigjaldi sem kynnt var á dögunum.

„Þau geta kallað skattahækkanir öllum nöfnum, talað um leiðréttingar og annað sem er auðvitað rangnefni. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta ekkert annað en skattahækkun. Mér finnst þetta líka illa unnið, það er að segja að ég held að þau sem standa að baki þessum tillögum séu ekki búin að átta sig á breyttu umhverfi greinarinnar. Menn tala um 2023 sem dæmi en það er auðvitað búinn að vera gríðarlegur samdráttur í afkomu sjávarútvegs frá því ári, þannig fór hagnaður Síldarvinnslunnar niður um 40% milli áranna“ segir Gunnþór.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 2.749 kr. á mánuði