Lögregluinngrip í verslunarrekstur hefur verið nokkuð algengur hér á landi gegnum tíðina.

Oftar en ekki á hæpnum forsendum eða þá á grundvelli laga og reglna sem höfðu dagað upp sem nátttröll væru á meðan að þjóðfélaginu fleygði fram án þess að nokkur hafi veitt því sérstaka athygli.

Netsala með áfengi er lögleg á Íslandi – að minnsta kosti mega erlendar netverslanir vera með afhendingarstaði hér á landi –  og hefur hún verið stunduð um árabil hér á landi. Þetta hafa neytendur kunnað meta og sést það ekki síst í þeirri staðreynd að slíkum verslunum hefur fjölgað og matvörukeðjur á borð við Hagkaup og Heimkaup bjóða viðskiptavinum sínum upp á slíka þjónustu.

Að kæra sjálfan sig í þágu lýðheilsu

En ekki eru allir á eitt sáttir. Viðbrögð þess fólks hefur meðal annars verið að óska eftir afskiptum lögreglunnar af slíkri netverslun. Árni Árnason lýðheilsufrömuður hefur verið manna háværastur í þessum hópi – þannig hefur hann kært sjálfan sig til lögreglu vegna eigin kaupa á áfengi í slíkum verslunum. Allt kom fyrir ekki og þessar ákærur Árna hafa engu breytt.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þá fjármála- og efnahagsráðherra, sigaði lögreglunni á netsölur með áfengi í síðasta sumar og munu aðrar eftirlitsstofnanir á borð við Heilbrigðiseftirlitið hafa slegist með úr för. Þetta breytti engu og netsalan heldur áfram.

Vafalaust sakna andstæðingar netverslunar með áfengis gömlu og góðu dagana þegar lögreglan gekk harðar fram gegn óvönduðum vertum og verslunarmönnum. Margir muna eftir að á tíunda áratug síðustu aldar virtist helsta sumarverk lögreglunnar vera að koma í veg fyrir að fólk sæti úti í góðu veðri með bjór við hönd. Það var alls ekki leyft á þeim árum.

Skýr framtíðarsýn

Á þessum árum þurfti lögreglan ekki einungis að koma í veg fyrir að veitingamenn settu stóla fyrir utan veitingastaði sína á sumrin. Hún þurfti einnig að sjá til þess að algjörlega eftirlitslaus sala á sjóntækjum færi fram í verslunum.

Þannig mátti lesa um það í DV árið 1985 að lögregluaðgerðir væru yfirvofandi vegna sölu á lestrargleraugum í verslunum Hagkaups. Þetta var kolólöglegt enda máttu einungis sjóntækjafræðingar selja gleraugu. Eftir mikinn þrýsting frá Landlæknisembættinu og Læknafélagi Íslands ásamt óttanum við afskipti lögreglunnar var sölu lesgleraugna hætt nokkrum vikum síðar.

Jógúrtstríðið

Ekki er að sjá á heimildum að ríkisvaldið hafi þurft að beita lögreglunni í jógúrtstríðinu sem geisaði hér á landi árið 1983. Framleiðsluráð landbúnaðarins beitti sér eigi að síður gegn því að Húsavíkurjógúrt væri selt í verslunum Hagkaups enda þótti það fjarstæðukennt að landsbyggðarjógúrt væri að finna á mölinni.

Á endanum þurfti ríkisvaldið að lúffa og leyfa Húsavíkurjógúrtina í verslunum Hagkaups. Rétt eins og frjálst útvarp var á endanum leyft og á smám saman varð frjálsræðið ríkinu yfirsterkara þegar kom að viðskiptum með kartöflur, ilmvötn og bökunardropum, svo einhverjar af þeim vörum sem eitt var talið lýðheilsumál að ríkið stjórnaði sölu á, séu nefndar.

Leitni að jafnvægi

Þrátt fyrir yfirvofandi lögregluaðgerðir hefur þróunin verið á þann veg að íslensk stjórnvöld hafa þurft að sætta sig við innreið frjálsræðisins í verslun og þjónustu. Það er að segja þegar um leitni í átt því hvernig nágrannaríkin haga sínum málum er um að ræða. Þessi leið hefur þó oft verið skrykkjótt.

Það er einmitt ástæða þess að verslunin Santé, sem er frumkvöðull í netverslun með áfengi hér á landi,  ásamt Málfundafélaginu Lögréttu stendur fyrir umræðufundi um atvinnufrelsi og stjórnarskrána. Atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, sem kveðið er á um í 75. gr., tryggir öllum frelsi til að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þetta ákvæði er grundvallarréttur í íslensku samfélagi, en takmarkanir á því verða að byggja á skýrum lagaheimildum og þjóna almannahagsmunum.

Atvinnufrelsi og lýðheilsa

Deilur um netsölu áfengis snerta kjarna þessarar umræðu – hvar liggja mörk atvinnufrelsis gagnvart öðrum hagsmunum eins og lýðheilsu? Hvernig túlka dómstólar atvinnufrelsisákvæðið þegar kemur að nýjum viðskiptaháttum sem ögra hefðbundnu regluverki? Fundurinn mun varpa ljósi á þessi mikilvægu álitaefni og greina hvernig stjórnarskráin hefur þróast til að styðja aukið viðskiptafrelsi, þrátt fyrir sjónarmið um ríkisafskipti.

Frummælendur eru Elías Blöndal Guðjónsson lögfræðingur og annar eigenda Santé, Birgir Már Björnsson lögmaður og aðjúnkt við lagadeild HR, Helga Kristín Auðunsdóttir lektor við lagadeild HR og Hafsteinn Dan Kristjánsson prófessor við lagadeild HR. Að loknum framsögum verður boðið upp á opnar umræður þar sem gestir geta tekið þátt í samtalinu um þetta mikilvæga málefni. Boðið verður upp á veitingar að fundi loknum.

Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 13. mars í höfuðstöðvum Santé í Skeifunni 8. Hann hefst klukkan 17.