Það er óþarfi að taka fram að óvissa ríkir í alþjóðahagkerfinu vegna tollastefnu Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Sérfræðinga og álitsgjafar, bæði hérlendis og erlendis, stíga fram daglega og benda á þau augljósu sannindi.

Hins vegar virðast fáir kafa djúpt í undirliggjandi ástæður og spyrja hvað annað kunni að hanga á spýtunni. Eins og staðan er nú hefur álagningu svonefndra ofurtolla Trump verið frestað um þriggja mánaða skeið, að Kína undanskildu. Bjartsýnustu stuðningsmenn forsetans telja mögulegt að ná samkomulagi við tugi ríkja á þessum stutta tíma – sem virðist ólíklegt við fyrstu sýn. Saga milliríkjaviðræðna í tollamálum kennir að slíkt ferli er bæði flókið og tímafrekt og tekur yfirleitt mörg ár.

Arkitektinn að baki tollastefnunni

Bak við tjöldin hefur Peter Navarro, helsti ráðgjafi forsetans í tollamálum, haft mikil áhrif. Hann er hagfræðingur og höfundur fjölda bóka þar sem hann dregur upp dökka mynd af stöðu Bandaríkjanna í alþjóðaviðskiptum og ógninni sem hann telur stafa af efnahagslegum uppgangi Kína.

Þrátt fyrir að hafa ekki stundað akademíska hagfræði um áratugaskeið kenndi Navarro áður við Harvard-háskóla. Kenningar hans eru umdeildar – ekki síst vegna þess að hann einblínir eingöngu á vöruskiptajöfnuð og hunsar þjónustujöfnuð og fjármagnsflutninga í greiningum sínum. Tollastefnan sem Trump hefur tekið upp byggir sem kunnugt er á viðvarandi vöruskiptahalla Bandaríkjanna við fjölmörg ríki og ekkert tillit er tekið til áhrifa ofangreindra þátta,

Þetta sjónarhorn hefur verið harðlega gagnrýnt, ekki síst í ljósi þess að þjónustujöfnuður Bandaríkjanna við Evrópusambandið og Kína er jákvæður. Eins og hagfræðingurinn Robert Solow benti á með kaldhæðni: „Það er viðvarandi halli á viðskiptum mínum við rakarann minn, hann kaupir aldrei nokkurn skapaðan hlut af mér.“

Ný hernaðarlist í viðskiptum

Ofurtollar vegna vöruskiptahalla eru þó aðeins hluti af stefnu Navarro. Í nýlegri aðsendri grein í Financial Times útskýrir hann að tollar séu einungis upphafið. Hann telur að Bandaríkin hafi yfir að ráða fjölmörgum „vopnum“ til að bregðast við því sem hann lýsir sem óréttlátu viðskiptakerfi heimsins gagnvart Bandaríkjunum.

Meðal atriða sem Navarro nefnir eru: Gengisfellingar annarra ríkja sem skerða samkeppnishæfni bandarískra fyrirtækja, leyfismál og regluverk sem halla á bandarísk
fyrirtæki og skattalög og persónuverndarreglur sem virka sem hindranir fyrir bandarískan efnahag.

Sérstaka athygli vekur að Navarro telur virðisaukaskattinn í Evrópu vera ósanngjarnan gagnvart Bandaríkjunum – þótt sá skattur leggist á allar vörur, ekki aðeins bandarískar.

Tollastefna gegn eigin myntveldi

Rörsýn stjórnvalda í Washington á mikilvægi vöruskiptajafnaðar hefur ekki einungis verið gagnrýnd fyrir að hunsa þjónustuviðskipti. Hún lítur einnig fram hjá fjármagnsflutningum sem hafa veruleg áhrif á stöðu Bandaríkjadalsins. Flest þau ríki sem bera háan vöruskiptahalla gagnvart Bandaríkjunum eru fátæk og selja ódýran varning en hafa ekki ráð á dýrum bandarískum útflutningi.

© epa (epa)

Á móti kemur að þau safna gjaldeyrisforða í formi bandarískra ríkisskuldabréfa. Sú fjárfesting dregur úr ávöxtunarkröfu á bandarískum skuldum og gerir bandarískum fyrirtækjum kleift að hagnast á vaxtamun. Svartsýnustu hagfræðingar telja að tollastefnan kunni að grafa undan þessari lykilstöðu Bandaríkjadalsins í heimshagkerfinu. Slíkt gæti haft í för með sér að þau sérréttindi sem Bandaríkin hafa notið í krafti gjaldmiðils síns smám saman fjari út. Í þessu samhengi er rétt að halda til kínversk stjórnvöld hafa selt meira af bandarískum ríkisskuldabréfum en keypt undanfarin misseri.

Hvort þetta sé boðberi þess sem koma skal skal ekki sagt enda myndu neikvæð áhrif þess gæta á alþjóðahagkerfið í heild sinni og sýnir það ágætlega hversu samofnir hagsmunir ríkja eru og djúpstæðar afleiðingar tollastefnu Trump eru.