Ívar Arndal fráfarandi forstjóri ÁTVR gerir grein fyrir minnkandi áfengissölu hjá ríkisverslununinni í ávarpi í síðustu ársskýrslu. Þar segir.

„Ólögleg áfengissala einkaaðila vegur þar þungt. Vegna minnkandi sölu og til þess að skila viðunandi arðsemi þurfti ÁTVR að draga saman í rekstrinum og fara í ýmsar hagræðingaraðgerðir. Aðgerðirnar tókust vel og var afkoma ársins betri en áætlanir gerðu ráð fyrir.“

Þrátt fyrir þessar fullyrðingar forstjórans er erfitt að koma auga á þessar hagræðingaraðgerðir – að minnsta sjást þær ekki í ársreikningum ÁTVR. Þvert á móti blasa við skær viðvörunarljós þegar litið er til þróunar rekstrarkostnaðar.

Þegar litið er til áranna 2020 til 2024 má sjá að skrifstofu- og stjórnunarkostnaður ÁTVR hefur aukist um 62% og hefur hann var úr því að vera 381 milljónir króna árið 2020 yfir að vera 617 milljónir í fyrra. Á sama tíma hefur veltan dregist saman um 6%. Þeir sérfræðingar í verslunarrekstri sem Viðskiptablaðið bara þetta undir bentu á að svo mikil aukning í yfirkostnaði án samsvarandi aukningar í veltu bendir til djúpstæðra vandamála í rekstri og kostnaðarstýringu. Sérstaklegt áhyggjuefni er að kostnaðaraukningin virðist vera kerfisbundin og viðvarandi yfir allt tímabilið. Viðmælendur blaðsins segja að samanburður  við aðrar sambærilegar verslanir sýnir að þetta hlutfall er óvenjulega hátt og bendir til stórfelldrar óhagkvæmni í rekstri ríkiseinkasölunnar.

Ekki brugðist við breytingum á markaði

Annað sem vekur sérstaka athygli í rekstri ÁTVR er að það er neikvæð fylgni milli veltu og skrifstofu- og stjórnunarkostnaðar. Alla jafna ætti að vera jákvætt samband milli þessara stærða, það er að segja að kostnaður eykst samhliða vaxandi veltu og öfugt.

Þessu er þveröfugt farið hjá ríkisversluninni og bendir það til þess að kostnaðarstýring rekstrarins sé ekki í neinum tengslum við rekstrarumfangið og stýrist af öðrum þáttum. Þeir sem blaðið ræddi við voru sammála um að þetta mynstur sýni að ríkiseinkasalan bregðist ekki við breytingum á markaði með viðeigandi aðlögun kostnaðar, sem er grundvallarþáttur í skilvirkum rekstri. Þetta er skýrt merki um rekstur sem er á hraðri leið í ógöngur

Kerfislæg vandamál í rekstrinum

Oft er gripið til skoðunar á svokölluðu skilvirknihlutfalli þegar rekstur fyrirtækja. Það segir til hversu mörgum krónum í veltu aukinn skrifstofu- og stjórnunarkostnaður skilar. Skilvirknihlutfall hefur fallið um 42,8% frá 2020 til 2024, úr 117,86 í 68,41. Mesta lækkunin var á milli 2021-2022 (-23,35%), en skilvirkni hefur haldið áfram að lækka á hverju ári síðan 2021. Þetta þýðir að fyrir hverja krónu sem ÁTVR eyðir í skrifstofu- og stjórnunarkostnað, skilar það sífellt minni veltu.

Einn viðmælandi blaðsins bendir á að þessi stöðuga og hraða lækkun á skilvirkni yfir fjögurra ára tímabil bendir til kerfislægra vandamála í rekstri sem eru ekki að lagast með tímanum heldur versna stöðugt. Ef þessi þróun heldur áfram mun reksturinn verða algjörlega ósjálfbær innan fárra ára.

Áleitnar spurningar vakna

Það er því ljóst að nýr forstjóri ÁTVR stendur frammi fyrir erfiðu úrlausnarefni. Ljóst er að ÁTVR glímir við alvarlegan rekstrarvanda , sérstaklega varðandi skrifstofu- og stjórnunarkostnað sem vex óhóflega miðað við veltu.

Þessi þróun er augljóslega ósjálfbær til lengri tíma. Þróunin undanfarin ár sýna að ríkiseinkasalan sé að verða sífellt óskilvirkari í rekstri, sem vekur alvarlegar spurningar um hvort núverandi rekstrarform þjóni hagsmunum almennings á nokkurn hátt. Sú staðreynd hlýtur að kalla á áleitnar spurningar um rekstrarformið og um framtíð ríkisáfengisverslunarinnar.

Ítarlega er fjallað um afkomu ÁTVR í Viðskiptablaðinu sem kom út 7. maí. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.