Óhætt er að segja að 1994 hafi verið stórt ár í tónlistarsögunni. Straumhvörf í tónlistarstefnum einkenndu árið og ber þar einna helst að nefna innkomu Britpop, þar sem breskar rokkhljómsveitir kepptust um athygli hlustenda.
Nokkrum dögum eftir að fyrsta tölublað Viðskiptablaðsins kom út gáfu Íslandsvinurinn Damon Albarn – sem varð íslenskur ríkisborgari árið 2021 – og vinir hans í Blur út þriðju hljóðversplötu sína, Parklife, sem naut gríðarlegra vinsælda.

Síðar sama ár kom Oasis, með bræðrunum Noel og Liam Gallagher fremst í flokki, fram á sjónarsviðið með plötuna Definitely Maybe og var rígurinn milli Oasis og Blur vægast sagt mikill. Suede, önnur hljómsveit sem var stór í Britpop-senunni, gaf einnig út plötuna Dog Man Star þetta ár.

Það var þó ekki aðeins Britpop sem var áberandi þetta ár en rapp og ryþmablús, eða R&B, voru einnig í mikilli uppsveiflu. Notorious B.I.G. og Warren G gáfu til að mynda út sínar fyrstu plötur, þar sem lögin Juicy og Reglulate voru hvað vinsælust, auk þess sem Nas sló í gegn með plötunni Illuminate.

Söngkonan Aaliyah, sem lést fyrir aldur fram, gaf einnig út sína fyrstu plötu og það gerðu sömuleiðis rapp-dúóið Big Boi og André 3000 í OutKast og Fugees, með Lauryn Hill í fararbroddi. Stúlknasveitin TLC gaf þá út plötuna CrazySexyCool, sem átti eftir að njóta mikilla vinsælda.

Fjöldi annarra tónlistarmanna og hljómsveita kom fram á sjónarsviðið á árinu. Sumir sjokkeruðu með ýmsum gerðum af þungarokki, þar á meðal Korn, Nine Inch Nails og Marilyn Manson en aðrir gerðu út á jaðarrokk, þar á meðal Portishead, Green Day og Jimmy Eat World. Einnig má nefna The Offspring, Radiohead, R.E.M. Soundgarden, Hole, Beastie Boys og Weezer sem gáfu út vinsælar plötur þetta ár.

Frá Cobain til Carey

Úr nægu er því að velja þegar farið er yfir merkilegar plötur þessa árs. Ein sem iðulega er nefnd er platan Grace með Jeff Buckley en þar má til að mynda finna ódauðlega útgáfu af laginu Hallelujah. Margir töldu Buckley sérstaklega efnilegan en þetta átti eftir að verða fyrsta og eina hljóðversplatan hans, þar sem hann drukknaði árið 1997.

Að lokum er ekki hægt að tala um tónlistarsenu ársins án þess að nefna örlög Nirvana söngvarans Kurt Cobain, sem framdi sjálfsvíg í apríl 1994 eftir langa baráttu við fíkn og þunglyndi. Síðasta plata Nirvana, sem var upptaka af MTV-tónleikum í New York frá árinu 1993, kom út nokkrum mánuðum eftir andlát hans.
Árið endaði þó á allt öðrum nótum þegar poppstjarnan Mariah Carey gaf út jólaplötuna Merry Christmas, sem innihélt meðal annars lagið All I Want for Christmas Is You. Líklega átti dívunni ekki eftir að óra fyrir að lagið ætti eftir að klífa upp vinsældalista á hverju einasta ári eftir þetta og yrði enn vinsælt þremur áratugum síðar. Í byrjun 2020 varð hún fyrsti tónlistarmaðurinn til að eiga lag á toppi vinsældalistans í Bandaríkjunum á fjórum áratugum, þökk sé jólalaginu.
Björk og íslenska tungan
Hér á landi virtist árið nokkuð tíðindalítið, sem sést til að mynda þegar rennt er yfir tónlista-áramótauppgjör blaðamanns Dagblaðsins Vísi.

Viðmælendur vöktu þó meðal annars athygli á vinsældum sveitarinnar Vinir vors og blóma og töldu að búast mætti við góðum hlutum frá hljómsveitinni Unun – sem átti einn stærsta smell ársins, Lög unga fólksins af plötunni Æ – auk Emilíönu Torrini – sem hafði unnið Söngvakeppni framhaldsskólanna þetta ár – Jet Black Joe – sem var valin hljómsveit ársins – og Kolrössu krókríðandi.
Sá tónlistarmaður sem var þó efst í huga fólks var söngkonan Björk Guðmundsdóttir. Björk, sem vakti upprunalega mikla athygli með hljómsveitinni Sykurmolunum, hafði gefið út fyrstu sólóplötuna sína, Debut, árið áður og unnið tvenn verðlaun á Brit Awards hátíðinni 1994.
Þá er athyglisvert að sjá að umræða um varðveislu íslenskrar tungu – sem hefur mikið verið í umræðunni upp á síðkastið – var einnig áberandi fyrir þremur áratugum. Í umfjöllun Dagblaðsins Vísi 29. desember 1994 segir:
„Fólk var sammála um að textagerð færi aftur um þessar mundir og nokkrir lýstu sig andvíga því að íslenskir popparar syngju á ensku. Aðrir töluðu um að ekki skipti máli hvort popparar syngju á íslensku, ensku eða ísl-ensku. Aðalatriðið væri að hafa eitthvað að segja.“