Allt frá því í marsbyrjun, frá því að Trump tók að hrinda í framkvæmd sem virðist vera handahófskennd og jafnvel þversagnakennd stefna í tollamálum, hafa verðbréfamarkaðir vestanhafs verið rauðglóandi og óvissa gripið um sig á öðrum mörkuðum, þar með talið þeim íslenska.
Bandaríska hagkerfið hefur verið á fullu skriði undanfarin ár og hefur það endurspeglast í þróuninni á hlutabréfamörkuðum. Ekki minnkaði lúðrablásturinn á mörkuðum við kjör Trump. Fjárfestar litu á að seinni valdatíð Trump myndi hvað svo sem öðru liði einkennast af stefnum og áherslum sem myndi styðja við hlutabréfamarkaðinn – skattalækkanir, afregluvæðing og fleira í þeim dúr.
En sem fyrr segir varð ljóst í byrjun marsmánaðar að ekkert slíkt yrði á ferðinni. Þá setti Trump á eða hótaði ofurtollum á Evrópusambandið, Mexíkó, Kína og Kanada en þessi hagkerfi standa undir um 60% af öllum innfluttum vörum til Bandaríkjanna. Ákvarðanir eru teknar í krafti heimildar forsetanum slíkar viðskiptaþvinganir gagnvart ríkjum sem Bandaríkin eiga í átökum við. Á sama tíma ákváðu bandarísk stjórnvöld að hætta stuðningi við varnir Úkraínu gegn innrásarstríði Rússa.
Þetta voru afdrifaríkar ákvarðanir sem eiga eftir að draga mikinn dilk á eftir sér. Það varð öllum ljóst um leið. Þegar þetta er skrifað er auðvitað ekkert vitað hvernig hildarleikurinn vegna innrásarstríðs Rússa og enn er ekki komin skýr mynd á tollastefnu Trump-stjórnarinnar. Eigi að síður blasir við öllum að framferði Trump markar vatnaskil – jafnvel aldahvörf – í alþjóðamálum og alþjóðlegum viðskiptum.
Leitin að glötuðum mætti
Margir dyggir stuðningsmenn Trump hafa látið að því að liggja að hótanir um ofurtolla á helstu viðskiptalönd Bandaríkjanna séu einhvers konar samningatækni annálaðs samningasnillings og ekki sé full alvara að baki. Þeir sem hafa hins vegar kynnt sér stjórnmálaheimspeki Trumps eins og hún hefur birst í viðtölum við hann allt frá tíunda áratugnum átta sig á að honum er full alvara. Hann aðhyllist „hagræna þjóðernishyggju“ eins og Hafsteinn Hauksson aðalhagfræðingur Kviku orðaði það í nýlegri greiningu frá bankanum.
Hugsunin er samofin MAGA-hugmyndafræðinni. Endurreisa þarf fyrri mátt Bandaríkjanna en hann hefur meðal annars farið þverrandi vegna viðvarandi vöruskiptahalla við útlönd sem er tilkominn vegna þess að svindlað er á Ameríkönunum í alþjóðaviðskiptum. Það svindl verður ekki upprætt nema með ofurtollum.
Úr fjölfræði þess fetótta
En gallinn við þessa hugmyndafræði er meðal annars sá að hún byggir á grundvallarmisskilningi á hagfræðilegum áhrifum ofurtolla og rótum óhagstæðs vöruskiptajafnaðar Bandaríkjanna.
Ágæta skilgreiningu á tollum er að finna í Fjölfræðibók þess fetótta (The Devil‘s Dictionary) eftir bandaríska blaðamanninn Ambrose Bierce sem kom út við upphaf 20. aldarinnar. Þar segir að tollar séu tegundir af sköttum á innflutning sem er ætlað að verja innlenda framleiðendur fyrir græðgi neytenda.
Ekki fer mikið fyrir þeirri staðreynd í málflutningi og rökstuðningi Trumps fyrir ofurtollum á helstu viðskiptalönd að það eru þeir sem flytja inn vörur sem borga kostnaðinn sem af þeim hlýst og þeim kostnaði er svo ýtt yfir á neytendur – það er að segja bandaríska kjósendur. Þetta þarf ekki að útskýra fyrir þeim sem hafa alist upp í viðjum íslenska landbúnaðarkerfisins en málið sýnist flóknara í augum Bandaríkjamanna.
Það er kannski ekki skrýtið svona í ljósi þess að bandaríska hagkerfið reiðir sig ekki mikið á innflutning – að minnsta kosti þegar kemur að hefðbundnum neytendavörum á meðan Bandaríkjamenn flytja inn vín, bíla og allra handa varning óheft frá Evrópu. En á móti kemur að virðiskeðjan í alþjóðaviðskiptum er svo margþætt og flókin að tollastefna Trump mun hafa afdrifaríkar afleiðingar yfir bandarískan iðnað og neytendur vestanhafs.
Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.