Í nóvember birtist viðtal Í Viðskiptablaðinu við Ásgerði Ósk Pétursdóttir sem gekk til liðs við peningastefnunefnd Seðlabankans á árinu. Ásgerður er búsett á Englandi og kennir við háskólann í Bath. Í viðtalinu kemur fram að henni þykir ágætt að hafa ákveðna fjarlægð frá störfum sínum í peningastefnunefndinni.
Fjarlægðin veitir henni greinilega ágæta sýn á umræðuna um efnahagsmál hér á landi:
„ Ásgerður, sem býr í og kennir við háskólann í Bath á Englandi, segir á vissan hátt ágætt að geta farið heim að loknum nefndarfundum og vera í ákveðinni fjarlægð frá umræðunni.
„Það er skiljanlegt að það sé mikil umræða um störf peningastefnunefndar. Hins vegar verður hún stundum persónuleg og ómálefnaleg. Því er þægilegt að geta komið út til Englands og enginn bregst við þegar ég er spurð við hvað ég vinn eða hvað ég hafi verið að gera á Íslandi.“
Hún nefnir einnig í þessu samhengi að sumir fjölmiðlar mættu vera duglegri að gera athugasemdir við eða í það minnsta spyrja nánar út í fullyrðingar sem standist ekki skoðun. „Það mætti kannski stundum krefja viðmælendur um að útskýra mál sitt aðeins betur og spyrja nánar út í fullyrðingar sem stangast á við viðteknar venjur og vísindi.”
Horngrýtis gróðaverðbólgan
Þetta er hárrétt hjá Ásgerði. Þegar litið er um öxl sést hversu umræðan um efnahagsmál á árinu hefur einkennst af miklum upphrópunum og fullyrðingum sem standast enga skoðun. Eins og hún bendir á þá gera íslenskir fjölmiðlar ekki mikið af því að spyrja mestu vindbelgina út í fullyrðingar og fá þá til þess að útskýra mál sitt og fullyrðingar sem eru þvert á viðteknar skoðanir.
***
Það segir kannski meira en mörg orð um stöðu efnahagsumræðu hér á landi að helstu hagfræðiritin sem voru gefin út á árinu voru annars vegar skrifuð af geðlækni sem aðhyllist samsæriskenningar öfgafólks í dýpstu jöðrum umræðunnar á samfélagsmiðlum um samsæri fjármálaelítunnar og lykilstofnana hennar og hins vegar manni sem fann sig knúinn til að skrifa bók þar sem hann útskýrir grundvallarkenningar hagfræðinnar fyrir hálfvitum.
Þannig var umræða um svokallaða gróðaverðbólgu og ofurhagnað fyrirtækja á kostnað almennings áberandi á árinu. Ráðherrar virtust vera ginkeyptir fyrir þessari umræðu og sumir þeirra fljótir að bregðast við með boðum um hvalrekaskatt og ýmislegt annað misgáfulegt.
Þetta átti sér stað þó svo að staðreynd málsins væri sú að engin innstæða væri fyrir fullyrðingum um ofurhagnað. Allar athuganir á afkomu í smásölu sýndu fram á fremur hóflega framlegð og engar miklar breytingar á milli ára. Þess vegna þurfti Samkeppniseftirlitið að fara í geitarhús að leita ullar áður en það birti úttekt um þróun framlegðar á dagvörumarkaði. Þegar úttektin var skoðuð ofan í kjölinn kom í ljós að Samkeppniseftirlitið var að draga ákaflega vafasamar ályktanir út frá skrýtnum gögnum.
***
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR lét sitt ekki eftir liggja þegar það kom að veifa röngu tré fremur en engu í umræðum um efnahagsmál. Honum var tíðrætt um viðamikla greiningu VR á afkomu allra fyrirtækja landsins sem leiddi í ljós að hér á landi þrífist hið mesta gróðabrall. Þessi greining hefur aldrei komið fyrir auga almennings af einhverjum ástæðum. Það væri forvitnilegt þar sem niðurstöðurnar sem Ragnar talar um er ekki að finna í tölum um afkomu fyrirtækja.
Umræðan um gróðaverðbólgu komst inn í almenna umræðu hér á landi eftir að fjallað var um hugtakið í Guardian. Hún gerði það þrátt fyrir að engar vísbendingar væri að finna um að verðbólgan hér á landi stafaði af öðru en peningaprentun og skorti á aðhaldi. En sumir taka viljann fyrir verkið samanber eftirminnileg ummæli Ásgeirs Brynjars Torfasonar ritstjóra Vísbendingar:
„Það að sannanir skorti fyrir óeðlilegri hagnaðaraukningu fyrirtækja þýðir ekki að sannað sé að um hana sé ekki að ræða.“
***
Maðurinn sem bindur saman miðjuna
Áðurnefndur Ragnar sýndi það og sannaði á árinu að hann er lykilleikmaður í liði góða fólksins: Virkilega bindur saman miðjuspilið og ógnar sífellt með hraða sínum og krafti. Í maí setti Ragnar svo nýtt drengjamet í lýðskrumi þegar hann boðaði til allsherjarmótmæla á Austurvelli.
Reyndar gerðist það nánast vikulega að Ragnar boðaði til mótmæla á Austurvelli en hann reiddi sérstaklega hátt til höggs í maí. Hvatning hans hljóðaði svo:
„Ef þú hefur fengið nóg af hagnaði bankanna og stórfyrirtækja, ef þú hefur fengið nóg af kerfisbundnu niðurrifi grunnstoða samfélagsins, ef þú hefur fengið nóg af aðgerðarleysi stjórnvalda, ef þú hefur fengið af stýrivaxtahækkunum Seðlabankans, ef þú hefur fengið nóg af versnandi stöðu í heilbrigðiskerfinu, ef að þú fengið nóg af stöðunni á húsnæðismarkaði, ef þú hefur fengið nóg af versnandi afkomu eða hefur áhyggjur af framtíð barnanna okkar. Eða hefur þú fengið nóg af einhverju öðru sem betur má fara í okkar samfélagi.“
Í ljós kom að rétt ríflega tvö hundruð manns höfðu fengið sig fullsadda af einhverju þegar þarna var komið til sögu og mótmæltu með Ragnari. Hann datt þó ekki af baki og var farinn að ávarpa samstarfsfólk sitt og viðsemjendur gegnum gjallarhorn undir lok ársins.
***
Fjölmiðill kveður
Fréttablaðið hætti útgáfu á árinu. Þrátt fyrir að blaðið hafi markað djúp spor í fjölmiðlasögu landsins var það orðið heilsulaust undir lokin. Blaðið tók málstað Viðreisnar síðustu útgáfuárin. Fjölmiðlar geta haft skoðanir án þess að það hafi nokkur áhrif á fagleg vinnubrögð.
Í því samhengi má rifja upp fleyg ummæli þegar Hacker útskýrir fyrir Humphrey og Wolley hverjir læsu blöðin í þáttunum Yes Prime Minister:
„„Þú þarft ekki að útskýra fyrir mér hver lesendahópur blaðanna er. Daily Mirror er lesinn af fólki sem heldur að það stjórni þjóðfélaginu. Guardian er lesið af fólki sem finnst að það ætti að stjórna þjóðfélaginu. Lesendur The Times stjórna raunverulega landinu. Fólkið sem les Financial Times á þjóðfélagið. The Morning Star er lesið af fólki sem heldur að annað ríki eigi að stjórna Bretlandi og lesendur The Daily Telegraph telja að þannig sé í pottinn búið.“
Þegar talið berst svo að lesendum The Sun svarar Wolley því til að þeim sé sama hver stjórni landinu svo lengi sem hún er með breiðan barm. Það var ekki áhugi Fréttablaðsins á hugðarefnum Viðreisnar sem varð blaðinu að falli. Undir lok Fréttablaðsins var Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, getið í nánast hverri frétt eða þá annarra þingmanna flokksins. Lesendur sjá auðvitað gegnum þetta og það grefur undan trúverðugleika blaðsins. Þetta er fyrst og fremst ástæðan fyrir að Fréttablaðið kemur ekki lengur út. Með öðrum orðum féll blaðið vegna lélegrar blaðamennsku og ofmats stjórnenda á erindi vel stæðs fólks úr Garðabænum sem ekki hefur notið þess framgangs innan Sjálfstæðisflokksins sem það óskaði sér.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður Blaðamannafélagsins og fréttakona á ríkismiðlinum var þessu ekki sammála. Hún sagði andlát Fréttablaðsins væri til marks um að einhver öfl í þjóðfélaginu væru að vinna gegn frjálsri blaðamennsku. Það stenst enga skoðun. Það eina sem er að ganga af frjálsri blaðamennsku dauðri hér á landi er Ríkisútvarpið.
Skattgreiðendur borga milljarða á ári hverju til reksturs Ríkisútvarpsins sem svo í krafti yfirburðastöðu ryksugar upp auglýsingamarkaðinn í krafti stórra viðburða á borð við HM í boltaíþróttum og Júróvisjón. Í umræðunni sem spratt upp eftir að tilkynnt var um lok útgáfusögu Fréttablaðsins var stjórnmálamönnum á borð við Lilju Alfreðsdóttur tíðrætt um breytt samkeppnisumhverfi vegna samfélagsmiðla sem hafa tekið til sín hluta auglýsingamarkaðarins.
Þetta er vissulega rétt að hluta. Allir þeir sem hafa starfað hjá félagasamtökum eða litlum fyrirtækjum vita að auglýsingar sem er ætlað að ná til afmarkaðra hópa henta vel á samfélagsmiðlum. Vaxandi hlutdeild Facebook og annarra fyrirtækja á íslenskum auglýsingamarkaði hefur þannig útrýmt skjáauglýsingum og öðru slíku. Þetta er ekki tekjulindin sem skiptir máli þegar rýnt er í framtíðarhorfur frjálsrar fjölmiðla á Íslandi. Vandinn er Ríkisútvarpið og hvernig ríkismiðillinn sogar til sín auglýsingamarkaðinn í krafti ríkiseinokunar. Fórnarkostnaðurinn við þessa stefnu er einfaldlega sá að rekstrargrundvöllur frjálsra fjölmiðla fjarar út. Hver er ávinningurinn? Að Bergur Ebbi sé í tveimur þáttum í röð á föstudagskvöldi en ekki einum?
***
Fjölmiðlarýnir óskar lesendum Viðskiptablaðsins árs og friðar. Hann þorir litlu að spá um næsta ár annað en að það mun koma til verkfalla og haldnir verða fjöldi funda þar sem gervigreindin verður rædd. Hugsanlega mun einhver jafnvel spá því að gervigreindin sé komin til að vera.
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 2.749 kr. á mánuði