Kennarar eru farnir í verkfall enn og aftur. Kennarar hafa lagt niður störf í tíu grunn- og framhaldsskólum víðsvegar um land og að öllu óbreyttu verður allsherjarverkfall skollið á fyrir árslok
Miðað við það sem hefur fram komið í fjölmiðlum krefjast kennarar almennt um 40% launahækkana ofan á núverandi grunnlaun og horfa þeir til kjara háskólamenntaðra sérfræðinga á vinnumarkaðnum þegar kemur að fyrirmyndum. Kennarar hafa ekki verið spurðir hvort þeir séu þá að horfa til háskólamenntaðra endurskoðenda, lögfræðinga eða þeirra sem kenna á trompet í einkareknum tónlistarskóla.
Þeir hafa heldur ekki verið spurðir út í þá staðreynd að mikill munur er á réttindum og skyldum þeirra sem starfa hjá hinu opinbera eins og kennarar og þeirra sem starfa á almenna vinnumarkaðnum þegar kemur að starfsöryggi, lífeyrisréttindum og vinnutíma. Er þá almennt hallað á hina síðarnefndu í því tilfelli. Því er ljóst að kennarar ætla að láta á það reyna hvort þeir geti bæði átt kökuna og borðað hana líka.
Á þetta var minnst á þessum vettvangi fyrir nokkrum vikum. Þar segir:
„Eins og Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins, hefur bent á getur líka verið snúið að bera saman laun kennara við stéttir sem eru á svokölluðum pakkalaunum þar sem öll yfirvinna er innifalin í þeirra mánaðarlaunum. Það hversu hljóðir kennarar eru um raunverulegar kröfur sínar í kjaraviðræðum þeirra við Samtök íslenskra sveitarfélaga bendir vafalaust til þess að þeir séu að búa sig undir að sprengja í loft þá sátt sem náðist með heildarsamningunum á almenna vinnumarkaðnum í vor. Þetta gerist á sama tíma og loksins er farinn að sjást árangur í baráttunni við verðbólguna og vextir eru teknir að lækka.
Í ljósi þessa þarf engan að undra að hljóðið er þungt í samninganefnd Samtaka íslenskra sveitarfélaga og lítil von er til þess að deilan leysist með skynsamlegu samkomulagi í náinni framtíð.“
Í ljósi þessa er þögn fjölmiðla um mikilvæga anga þessarar kjaradeilu undarleg. Þeir hafa til að mynda ekki leitað eftir áliti verkalýðsleiðtoga á almenna vinnumarkaðnum á hvað þeim finnist um að kennarar geri sig nú líklega til þess að umturna þeirri sátt sem tilraun var gerð til að skapa með stöðugleikasamningunum svokölluðu á almenna vinnumarkaðnum í vor. Sem kunnugt er þá er markmið stöðugleikasamnings Samtaka atvinnulífsins við Starfsgreinasambandið, Eflingu og Samiðn að skapa svigrúm til lægri vaxta og vaxandi verðstöðugleika með langtímasamningi með hóflegum kjarabótum. Síðan þeir voru innsiglaðir í vor hafa svo fleiri stéttarfélög samið á svipuðum nótum þar til nú þegar kennarar láta sverfa til stáls með launakröfur sem eru í engu samræmi við það sem samið hefur verið um á almenna markaðnum.
Vissulega hefur ekki verið neinn skortur á umfjöllun um kennaraverkfallið en svo
virðist að fjölmiðlamenn séu feimnir við að spyrja lykilspurninga um hvað fólki finnist um að þarna sé farið fram með kröfur sem eru í engum takti við það sem hefur samist um á almenna markaðnum. Ekki síst í ljósi þess að nú er útlit fyrir að stöðugleikasamningurinn sé ásamt öðrum þáttum að leiða til þess að markmiðið náist: Verðbólga fer hratt minnkandi og svigrúm Seðlabankans til að lækka stýrivexti er nú þegar orðið umtalsvert.
Fleiri starfsstéttir eru í verkfallsmóð um þessar mundir. Fáir eru jafn kræfir í hinni eilífu baráttu um brauðið en læknar. Að öllu óbreyttu verða læknar komnir í verkfall um miðjan nóvember.
Það eru ekki lægri vextir og verðstöðugleiki sem þeir eru að berjast fyrir. Samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins, sem meðal annars innihélt viðtal við Steinunni Þórðardóttur, formann Læknafélags Íslands, eru læknar fyrst og fremst að leggja niður störf til að knýja fram styttingu vinnuvikunnar.
Í umfjölluninni er haft eftir Steinunni:
Hún segir að það hafi sést með skýrum hætti í gegnum tíðina að kjarasamningar hafi áhrif á mönnun. Náist góður samningur verði að öllum líkind-um hægt að laða að lækna sem starfa erlendis heim, sem höfðu ekki getað hugsað sér það áður.
„Við búum við gríðarlega manneklu. Til dæmis myndum við þurfa helmingi fleiri heimilislækna til starfa ef vel ætti að vera, svo eitthvað sé nefnt. Þá eru margar sérgreinar sem búa við mjög mikinn skort, sem þýðir mjög mikið álag á þá aðila sem veita þá þjónustu.“
Þetta er skemmtilegur kontrapunktur við síðasta upptakt læknaverkfalls sem var árið 2014. Það verkfall var augljóslega þaulskipulagt út frá almannatengslum og upptakturinn í fjölmiðlum var að meiri háttar hætta væri á því að læknar landsins tækju sig saman og flyttu allir til Noregs ef ekki yrði komið til móts við þeirra ýtrustu kröfur í kjaramálum.
Nú er sem sagt krafan að hækka laun og stytta vinnuvikuna til þess að læknarnir flytji aftur heim.
Þegar læknar fóru í verkfall árið 2014 námu heildarlaun læknis á fertugsaldri í 100% starfi hjá ríkinu um 1,2 milljónum króna að núvirði. Fæstum þykja það lág laun. En með verkfallinu náðu læknar að knýja fram verulegar kjarabætur enda höfðu þeir undirbúið jarðveginn vel. Þannig voru meðallaun lækna sem störfuðu á Landspítalanum komin í 2,2 milljónir að núvirði tveimur árum síðar.
Það loðir oft við umfjöllun fjölmiðla um kjarabaráttu að þá virðist oft skorta áhuga á hver kjörin eru í raun og veru. Þess í stað láta þeir oft tilleiðast að taka þátt í spunaþræði verkalýðsrekenda og beina sjónum að einhverjum jaðardæmum um kjör viðkomandi stétta sem veita engar gagnlegar upplýsingar um stöðuna almennt.
Þannig fjallaði fréttastofa Stöðvar 2 um kjör kennara þann 18. október. Fréttin hófst á þessum orðum:
„Kennari segir suma kollega sína ekki ná endum saman og þurfi að vera í nokkrum vinnum. Þá séu fjölmargir sem hrökklist úr starfi vegna álags.“
Kennarinn sem vísað er til heitir Ingunn Björnsdóttir og er hún jafnframt formaður Kennarafélags Reykjavíkur. Í fréttinni er svo rætt við hana um að hún þekki fleiri en einn kennara sem berjast í bökkum efnahagslega og fleiri en tvo sem eru í aukavinnu. Það síðarnefnda ætti ekki að koma neinu foreldri á óvart sem er með börn í íþróttastarfi eða fylgist með keppnisíþróttum. Svo má líka velta því fyrir sér hvort það sé einstakt að einhver í hópi kennara eigi erfitt með að láta enda ná saman og hvort það geti verið einhverskonar grundvöllur í kjaraviðræðum. Vitaskuld má finna fólk í öllum stéttum sem þetta á við.
Að þessu sögðu er rétt að halda til haga að meðallaun kennara á framhaldsskólastigi voru ríflega milljón á mánuði í fyrra og tæplega 800 þúsund krónur á grunnskólastigi í fyrra. Meðallaun á Íslandi voru um 720 þúsund krónur í fyrra.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 30. október 2024.