Eins og fjallað var um á þessum vettvangi fyrir nokkrum vikum er fjármálaráðuneytið orðið nokkurs konar greiningardeild á sviði efnahagsmála. Á vefsíðu ráðuneytisins birtast nú reglulega langlokur þar sem embættismenn leggja út frá hagtölum og túlka þær valdhöfum í hag.

Þannig birtist fyrir nokkru „greining“ þar sem haldið var fram að áhyggjur talsmanna ferðaþjónustunnar yfir fækkun ferðamanna og minnkandi neyslu þeirra meðan á dvöl þeirra stæði væru á misskilningi byggðar.

Þannig birtist fyrir nokkru „greining“ þar sem haldið var fram að áhyggjur talsmanna ferðaþjónustunnar yfir fækkun ferðamanna og minnkandi neyslu þeirra meðan á dvöl þeirra stæði væru á misskilningi byggðar.

Þá sögðu embættismenn ráðuneytisins fyrir nokkru að spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að afkoma hins opinbera yrði umtalsvert verri en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025-2029 væri einnig á misskilningi byggð. Einhver hefði haldið að tíma embættismannanna væri betur varið í að eyða þeim meinta misskilningi sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í stað þess að blogga um hann á heimasíðu ráðuneytisins.

***

Sama stef var kveðið af starfsmönnum ráðuneytisins í síðustu viku. Þá birtist umfjöllun um að jafnvægi væri að komast á í þjóðarbúinu og það skapaði „ skilyrði fyrir lækkun vaxta“ eins og embættismennirnir orða það.

Í greininni segir:

„Aðeins eru um 18 mánuðir síðan aðhaldsstig peningastefnu (raunvextir) byrjaði að hækka en það er um það bil sá tími sem talið er að taki fyrir áhrif vaxtahækkana á hagkerfið að verka að fullu. Áhrif hækkunar raunstýrivaxta úr -3% í um 3,5% undanfarið eitt og hálft ár munu koma enn frekar fram á seinni helmingi þessa árs og því næsta.

Í nýjustu yfirlýsingu peningastefnunefndar í maí sagði nefndin að auknar líkur væru á því að núverandi aðhaldsstig væri hæfilegt. Eðlilegast er að túlka það þannig að raunvextir séu taldir hæfilegir til þess að koma verðbólgu nægilega hratt í markmið. Verðbólga hefur síðan þá lækkað í takt við spá bankans, en nefndin hefur bent á að mótun peningastefnunnar muni sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.”

Þarna er ráðuneytið að ganga ansi nærri Seðlabankanum og sjálfstæði hans. Sama sjálfstæði og stjórnvöld kvörtuðu sáran yfir að verkalýðshreyfingin væri að gera aðför að með hugmyndum um forsenduákvæði um vaxtalækkun í kjarasamningum.

Síðan má velta fyrir sér til hvers ráðuneytið er að reyna að skapa væntingar um vaxtalækkanir meðal almennings. Fátt bendir til þess að innistæða sé fyrir slíkri væntingastjórnun. Þegar horft er til skuldabréfamarkaðarins kemur í ljós að slíkar væntingar hafa farið þverrandi á þessu ári.

Í upphafi árs gaf skuldabréfamarkaðurinn til kynna að stýrivextir myndu lækka um hundrað punkta á næstu misserum en nú er einungis gert ráð fyrir 25 punkta lækkun. Það sama á við um verðbólguvæntingar. Eins og segir í nýrri skýrslu peningastefnunefndar til Alþingis þá hækkaði verðbólguálag á skuldabréfamarkaði á fyrri helmingi árs og mælist álagið til fimm ára um 4% sem er langt yfir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans.

Á sama tíma og greinin var samin í ráðuneytinu tilkynntu svo Lánamál ríkisins um að auka þyrfti skuldabréfaútgáfu ríkisins um þrjátíu milljarða á árinu til þess að standa straum af útgjöldum. Þetta kom markaðnum í opna skjöldu. Skefjalaus útgjaldaaukning ríkisins hefur meðal annars gert það að verkum að verðbólga hefur reynst þrálát og endurspegla væntingar á skuldabréfamarkaði ekki trú á að böndum verði komið á ríkisfjármálin í náinni framtíð.

***

Fyrir nokkrum vikum fjallaði Viðskiptablaðið um skipulagðan þjófnað úr matvöruverslunum hér á landi. Eins og fram kom í umfjölluninni nemur óútskýrð rýrnun í rekstri matvöruverslana á bilinu 2,5-3,8 milljörðum á ári hverju og um átta milljörðum þegar litið er til smásölu í heild sinni.

Vafalaust hafa menn stolið úr búðum alla tíð en í umfjölluninni kemur fram að vísbendingar eru um að um skipulagða glæpastarfsemi er að ræða og haft er eftir Andrési Magnússyni, fráfarandi framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu, að erlendir glæpahópar komi hingað til lands gagngert til þess að stela úr verslunum og að gögn samtakanna sýni að um 80% af öllum stuldi séu vegna skipulagðrar brotastarfsemi.

Viku eftir að frétt Viðskiptablaðsins birtist ákvað Valur Grettisson, fréttamaður á
Ríkisútvarpinu, að segja sömu frétt án þess að geta nokkurra heimilda. Þar studdist Valur við tölur Viðskiptablaðsins án þess að geta nokkurra heimilda og var umfjöllunin hans keimlík efnistökum blaðsins þó svo að hann hafi þó ekkert fjallað um hlut skipulagðrar glæpastarfsemi í þetta sinn.

Það er stundum sagt að það geti verið erfitt að vera fréttamaður á Íslandi yfir hásumarið. Að minnsta kosti ef menn hafa metnað til þess að segja frá öðru en fregnum af gúrkuuppskerunni. En það er greinilegt að fréttamenn Ríkisútvarpsins eiga ekki við þennan vanda að etja – þeir láta bara aðra vinna fréttirnar fyrir sig.

Að þessu sögðu er rétt að benda á eftirfarandi setningu í vinnureglum fréttastofu Ríkisútvarpsins:

„Sé það ekki mögulegt og aðrir fjölmiðlar eru einu heimildir fyrir fréttum í RÚV, skal þess getið með skýrum hætti, sömuleiðis komi einhver tiltekin efnisatriði, ummæli eða þess háttar fram í öðrum fjölmiðlum, en ekki í viðtölum eða upplýsingum fréttamanns. Fer þá vel á að sýna tiltekin atriði ef þau hafa birst á vefsíðu, í dagblaði eða tímariti. Fréttastofan vitnar alltaf í aðra miðla þegar fréttir eru sannarlega frumunnar þar.“

***

Meira um Ríkisútvarpið. Morgunblaðið sagði frá því að stofnunin hefði nú tekið gervigreindina í sína þjónustu. Í frétt Mogga segir:

„Ríkisútvarpið hefur nú hafið útgáfu á greinum þýddum af gervigreind. Greinarnar eru hluti af samstarfi sem nefnist „evrópskt sjónarhorn“ og er á vegum Eurovision.

20 miðlar frá 17 lönd-um taka þátt í verkefninu og gera greinar sínar aðgengilegar öðrum þátttakendum. Greinarnar eru svo þýddar af gervigreind fyrir hvert land fyrir sig. Í samtali við Morgumblaðið segir Valgeir Örn Ragnarsson, varafréttastjóri Ríkisútvarpsins, verkefnið nýjung í miðlun og fréttasamstarfi en Íslandi hafi hafið þátttöku í vor. Starfsmenn RÚV fari þó vita-kuld yfir þýðingu gervigreindarinnar fyrir birtingu.”

Það verður áhugavert að fylgjast með framgöngu þessa verkefnis – ekki síst fyrir skattgreiðendur. Í því samhengi má nefnda að launakostnaður Ríkisútvarpsins jókst um hálfan milljarð á síðasta rekstrarári.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 10. júlí.