Um helgina svöruðu um tvö hundruð manns ákalli Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, um að þeir sem hafa fengið nóg af einhverju – bara einhverju – mæti á Austurvöll og láti í ljós óánægju sína. Segja má að þessi mótmæli Ragnars kallist á við Festivus trúarhátíðina sem kynnt var til sögunnar í sjónvarpsþáttunum Seinfield á sínum tíma en stór þáttur í henni er að þátttakendur láti í ljós óánægju sína með menn og málefni. En það er önnur saga.

Þrátt fyrir að umtalsvert færri hafi mætt á mótmælin en þau sem Ragnar stóð fyrir hálfum mánuði voru fjölmiðlar mættir á svæðið til að greina frá þeim stórtíðindum að um tvö hundruð manns eru búnir að fá sig fullsadda af einhverju. Auðvitað voru mun fleiri staddir við Austurvöll þennan dag en það var fólk sem er búið að fá nóg af súldinni og kaus að sleikja þá sólargeisla sem þá böðuðu miðbæinn. Það þarf ekki að koma neinum á óvart. Eins og fjallað var um á þessum vettvangi fyrir viku þá greindi Vísir frá miklum mótmælum við Austurvöll fyrir nokkru. Ýrr Baldursdóttir og Óli maðurinn hennar höfðu sum sé mætt á Austurvöll vegna þess að hún var pirruð á ástandinu í þjóðfélaginu og var það tilefni ítarlegrar fréttar. Það þarf því greinilega ekki mikið til að fjölmiðlar sýni mannaferðum á Austurvelli áhuga. Ríkisútvarpið var á staðnum þegar mótmæli Ragnars fóru fram. Eftirfarandi var haft eftir honum:

Lánin munu stökkbreytast hjá stórum hópi þúsunda heimila næstu misseri. Við erum enn þá með um 600 milljarða lánastapa sem er á föstum vöxtum inni í bankakerfinu.

Bankarnir eru að græða á tá og fingri, fyrirtækin hafa hagnast gríðarlega og fólkinu í landinu blæðir. Eins og ég segi, staðan mun versna og við munum bara halda áfram þar til stjórnvöld fara að hlusta á fólkið í landinu.“

Vont ef satt er. Þrátt fyrir að enginn efist um að verðbólga og vaxtahækkanir bitni á landsmönnum má eigi að síður velta fyrir sér hvort sú mynd sem Ragnar málar þarna og annars staðar í ræðu og riti endurspegli ekki raunveruleikann. Það hversu fáir tóku þátt í mótmælunum bendir til þess.

***

Miðað við hversu mikinn áhuga fjölmiðlar hafa á fasteignamarkaðnum er mesta furða að erindi Gunnars Jakobssonar varaseðlabankastjóra á kynningarfundi fjármálastöðugleikanefndar í síðustu viku skuli ekki hafa vakið meiri athygli en raun ber vitni.

Þar kom fram að þrátt fyrir ágjöf vegna verðbólgu og hærri vaxta virðast heimilin vera vel í stakk búin að takast á við þessar áskoranir. Þannig kom fram í máli Gunnars að skuldahlutfall af ráðstöfunartekjum hefur haldist óbreytt undanfarin ár og raunvöxtur skulda er neikvæður. Veðsetningarhlutföll hafa farið lækkandi og greiðslubyrði vegna fasteignaskuldbindinga hefur haldist nokkuð stöðugt þrátt fyrir lítillega hækkun.

Veðsetningarhlutföll fara lækkandi. Greiðslubyrði hefur haldist nokkuð stöðugt en þó hækkað lítillega. 10,9% heimila greiða meira en 35% af ráðstöfunarfé í fasteignalán og hefur hækkað úr 8,5% á undanförnum árum. Greiðslubyrði hefur vissulega hækkað með hækkun vaxta en samt sem áður hefur greiðsluhlutfallið ekki aukist stórkostlega.

Langstærstur hluti fasteignalána er annaðhvort með breytilegum vöxtum eða fasta vexti út lánstímann. Þessir lántakar hafa verið að takast á við hærri vexti með ágætis árangri enda sést ekki að vanskilahlutföll hafi hækkað sem nokkru nemi. Aðeins um 6% af heildarfasteignalánum eru endurskoðuð í haust.

***

Sjaldan er góð vísa of oft kveðin og því er full ástæða til að benda blaðamönnum og verkalýðsrekendum á ítarlega umfjöllun um greiðslubyrði heimilanna sem birtist í fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans í mars. Þar er kvartað yfir hvernig fjallað er um skuldamál heimila í fjölmiðlum og opinberri umræðu. Eins og segir í skýrslunni eru gjarnan tekin dæmi um einstakling eða hjón með 100% óverðtryggt fasteignalán á breytilegum vöxtum. Slík framsetning sýnir þó aðeins afmarkaðan hluta af raunveruleika íslenskra lántaka. Fjölmargir lántakar hafa blandað saman fasteignalánum með föstum og breytilegum vöxtum, verðtryggðum lánum og óverðtryggðum. Því hafa hækkanir meginvaxta Seðlabankans síðustu misseri aðeins haft áhrif á greiðslubyrði hluta þeirra fasteignalána sem neytendur eru með.

Samkvæmt tölum Seðlabankans ætti mikill meirihluti heimila að hafa borð fyrir báru þegar kemur að afborgunum af fasteignalánum. Samkvæmt Seðlabankanum greiða tæplega 75% heimila minna en 200 þúsund krónur á mánuði í vexti og afborganir og aðeins 14% greiða meira en 250 þúsund krónur. Þá kemur fram að sambærileg hlutföll eru 68% og 17% ef aðeins er horft til þeirra lántaka sem tóku nýtt lán frá janúar 2020. Þrátt fyrir að greiðslubyrði heimila hafi aukist síðustu misseri hefur hún aukist um minna en 30 þúsund krónur hjá um helmingi heimila. Hjá fjórðungi heimila hefur greiðslubyrðin staðið í stað eða lækkað.

Þá bendir Seðlabankinn á að þegar fjölmiðlar fjalla um þessi mál halda þeir sjaldnast þeirri staðreynd til haga að laun hafa hækkað á sama tíma og greiðslubyrðin hefur aukist vegna vaxtahækkana.

***

Að því sögðu er áhugavert að velta fyrir sér grein sem birtist á öndvegissetri íslenskra rannsóknarblaðamennsku, Heimildinni, á dögunum. Þar er rætt við Olav Guttesen, bankastjóra Betri banka, í Færeyjum.

Inntak viðtalsins er svar við þeirri gagnmerku spurningu af hverju vextir á fasteignalánum í Færeyjum eru þrefalt lægri en hérna á norðureyjunni.

Þetta er hluti úr Fjölmiðlapistli sem birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pistilinn í heild sinni hér.