Þátturinn Vikulokin er rótgróinn þáttur sem hefur verið á dagskrá Rásar 1 um árabil. Í þættinum fær þáttarstjórnandi, sem er alla jafnan starfsmaður á fréttastofu Ríkisútvarpsins, til sín „fólkið í fréttunum og fréttaskýrendur“, eins og það er orðað á heimasíðu stofnunarinnar, til að ræða tíðindi vikunnar.

Þetta er þekkt stef í fjölmiðlum víða um heim og hjá íslensku ljósvakamiðlunum og allt gott um það að segja. Margir kannast við þáttinn Right, Left and Center sem er útvarpað á bandaríska almannaútvarpinu NPR. Þar fær þáttastjórnandinn, sem bindur miðjuna saman, til sín framsækna kantmenn af vængjum stjórnmálanna til þess að fara yfir fréttir vikunnar.

Síðastliðinn laugardag kvað við ansi sérstakan tón í þættinum. Þar fékk þáttastjórnandinn, Höskuldur Kári Schram, til sín þrjá gesti sem höfðu allir sem einn nákvæmlega sömu skoðun á öllum þeim málum sem komu til tals í þættinum.

Gestirnir voru þau Jón Kaldal, talsmaður Íslenska náttúruverndarsjóðsins, Lára Ómarsdóttir, leiðtogi almannatengsla hjá auglýsingastofunni Pipar/TBWA, og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi deCode. Allt þetta fólk hefur mikla reynslu af fjölmiðlum en Jón var meðal annars ritstjóri Fréttablaðsins um skeið og þær Lára og Þóra voru lengi fréttamenn, meðal annars hjá Ríkisútvarpinu.

Sem fyrr segir voru allir viðmælendurnir gjörsamlega sammála um allt það sem kom til tals í þættinum en það var fyrst og fremst afsögn Ásthildar Lóu Þórsdóttur úr stóli barnamálaráðherra, sem tók yfir fréttaflutninginn af þeim málum öllum og stöðu ríkisstjórnarinnar. Þátturinn var fyrst og fremst keppni viðmælenda um hver gæti komið með skærustu gaslýsingarnar á ofangreint mál og hversu gríðarleg styrking það var fyrir ríkisstjórnina að þessi mál fyrrverandi barnamálaráðherra hafi komið fram í dagsljósið.

Nú er það vitað fyrir víst að á þessum málum eru skiptar skoðanir. Af hverju ríkismiðillinn kaus að bjóða upp á þríradda sönghóp í Vikulokunum í stað þess að útvarpa fleiri sjónarmiðum er vissulega umhugsunarefni

***

Þó svo að hlustendur Rásar 1 um helgina hefðu ekki haft veður af því að skiptar skoðanir væru á fréttaflutningi af málunum sem leiddu til afsagnar Ásthildar Lóu Þórsdóttur þá er það eigi að síður staðreynd málsins. Þannig voru Ólafur Arnarson og Ólöf Skaftadóttir gestir morgunþáttar Bylgjunnar á mánudag til þess að ræða þessi mál og um stöðu fjölmiðla svona almennt.

Ólafur starfar hjá útgáfufélaginu Fréttatorg sem er í eigu Helga Magnússonar og gefur út miðlana Eyjuna og DV. Ólöf starfar sem ráðgjafi hjá almannatengslafyrirtækinu Athygli og heldur úti hlaðvarpinu Komið gott sem nýtur
mikilla vinsælda.

Ólíkt því sem átti sér stað í Vikulokunum voru Ólafur og Ólöf alls ekki sammála um frammistöðu fjölmiðla. Eins og fram kom á þessum vettvangi í síðustu viku þá hefur Ólafur meðal annars kallað eftir uppsögn æðstu stjórnenda Morgunblaðsins, Ríkisútvarpsins og Sýnar vegna málsins. Gott og vel.

Ólafur fór mikinn í þættinum og kallaði ofangreinda fjölmiðla ýmsum miður fallegum nöfnum og sagði meðal annars Morgunblaðið vera „áróðurssnepil“. Það er áhugavert í ljósi þess á hvaða vegferð miðlarnir sem Ólafur starfar hjá hafa verið að undanförnu.

Engum dylst að DV er hallt undir Viðreisn og ríkisstjórnarsamstarfið. Það kemur glöggt fram í skoðanapistlum sem Ólafur skrifar á DV og er ekkert við það að athuga. En að undanförnu hefur aðdáun miðilsins á Viðreisn skýrlega komið fram í fréttaskrifum.

Þetta sást sérstaklega í skrýtinni frétt sem birtist í síðustu viku og fjallaði um frammistöðu Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra í Kastljósi Ríkisútvarpsins miðvikudagskvöldið 26. mars. Þar tókst hún á við Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, um áform ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda.

Í fyrirsögn fréttarinnar er sagt frá því að frammistaða
atvinnuvegaráðherra hafi vakið almenna athygli og málafylgja hans slík að annað eins hafi ekki sést í „háa herrans tíð“. Af þessu má ráða að landsmenn væru meira og minna orðlausir yfir rökfimi Hönnu Katrínar og að önnur eins undrun hafi ekki ríkt á landinu síðan Búbbi skoraði úr hjólhestaspyrnunni gegn Austur-Þjóðverjum á Laugardagsvellinum árið 1975.

Þegar betur var að gáð var þarna vísað til skrifa nokkurra fyrrverandi þingmanna Samfylkingarinnar, Illuga Jökulssonar og eins tiltölulega óþekkts raðmótmælanda. Það getur varla með góðu móti talist fréttnæmt að Ólína Þorvarðardóttir, Helga Vala Helgadóttir og Björgvin G. Sigurðsson séu hrifin af frammistöðu ráðherra í ríkisstjórn sem er leidd af Samfylkingunni og frekar skrýtið fréttamat sem liggur að baki því að það þurfi að vekja sérstaka athygli almennings á þeirri staðreynd. Ekki nema maður sé staddur í bergmálshelli en það eru auðvitað örlög hvers blaðamanns sem fer inn á Facebook í leit að fréttum.

***

Á sunnudagskvöld hóf göngu sína þáttaröð á Stöð 2 Sport um knattspyrnuferil tvíburabræðranna Arnars og Bjarka Gunnlaugssona. Var þetta fyrsti þátturinn af fjórum og fjallaði hann um upphaf ferils undrabarnanna af Skaganum og fyrstu ár þeirra í atvinnumennskunni.

Þátturinn var bráðskemmtilegur og til þess fallinn að höfða til annarra en knattspyrnuáhugamanna enda er ferill bræðranna með þeim hætti auk þess að framvindan er áhugaverður aldarspegill sem gerður er góð skil í frásögninni.

Það að þátturinn hafi verið vel unninn og skemmtilegur kemur ekki á óvart. Á undanförnum árum hefur Stöð 2 gert fjölda framúrskarandi þátta þar sem sjónunum er beint að íþróttum með einum eða öðrum hætti en ætíð gætt að mannlífsþættinum þannig að dagskrárgerðin hafi breiða skírskotun. Má í þessu samhengi nefna þættina um atburðarásina í Grindavík eftir að Reykjaneseldar hófust séð út frá íþróttalífi bæjarins, þættina um Íslandsmeistaratitil Víkings og um feril Jóns Arnórs Stefánssonar svo fátt eitt sé nefnt.

Er þetta til mikillar fyrirmyndar og sýnir vel hversu vel einkareknir miðlar geta sinnt menningararfinum þó svo að þeir þiggi ekki marga milljarða frá skattgreiðendum á ári hverju og þurfi að standa sig í samkeppni við ríkisrekinn risamiðil á auglýsingamarkaði. Á meðan virðist dagskrárgerðin í Efstaleitinu að einhverju leyti miðast við að fá fastráðna starfsmenn á öðrum sviðum til að stýra skemmtiþáttum.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 2. apríl 2025.