Blaðamennska hefur aldrei verið mikilvægari en um þessar mundir. Það segir að minnsta kosti Blaðamannafélag Íslands sem í fyrra stóð fyrir vitundarherferð um mikilvægi fagsins. Í þeirri herferð var hlutverki blaðamennskunnar gerð eftirfarandi skil: Blaðamenn draga saman upplýsingar, setja hlutina í samhengi og greiða úr óreiðunni. Þeir koma á framfæri ólíkum sjónarmiðum, setja fram staðreyndir og kanna sannleiksgildi þess sem sagt er.
Hvort blaðamenn geri þetta að staðaldri er svo annað mál. Að minnsta kosti er ákaflega algengt að fjölmiðlafólk rétti sama fólkinu gjallarhornið sem fer endurtekið og ítrekað með órökstuddar fullyrðingar eins og markmiðið sé að bora viðhorfið sem reifað er inn í þjóðarvitundina.
Verðbólgumæling Hagstofunnar fyrir júnímánuð olli mörgum vonbrigðum en samkvæmt henni mældist verðbólgan í mánuðinum 4,2% en hafði mælst 3,8% mánuðinn á undan. Þrátt fyrir vonbrigðin þá telja fæstir að mælingin sýni að baráttan fyrir stöðugu verðlagi sé glötuð og að hátt raunvaxtastig muni á endanum leiða til þess að verðbólgumarkmið Seðlabankans náist á endanum.

Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, er greinilega ekki á þeirri skoðun. Vísir leitaði til hennar eftir viðbrögðum við verðbólgumælingunni. Það stóð ekki á þeim. Að sögn hennar sýnir mælingin að tilraunin til að gera langtímakjarasamninga hafi mistekist. Haft er eftir henni að launafólk hafi fallist á launahækkanir „vel undir verðbólgu, í trausti þess að fyrirtæki myndu halda aftur af verðhækkunum“.
Fram kemur í viðtalinu að ástæða verðbólgunnar að hennar mati sé óstjórnleg „gróðasókn“ stórfyrirtækja. Í umfjölluninni segir:
„Þau bara geta ekki annað en sótt í meiri gróða, og það er það sem er að valda þessari verðbólgu núna.“
Og enn fremur:
„Það er allt að hækka, stórfyrirtæki eru að sýna aukinn hagnað á milli ára, á tímum þegar þau áttu að halda aftur af sér.“
Nokkrum dögum síðar fór Halla svo með sömu möntruna í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni.
Þarna hefðu fréttamenn getað beðið Höllu um gögn sem sanna þá fullyrðingu að verðbólgan stafi af „gróðasókn“ stórfyrirtækja. Við hvað á hún? Það er ekki fyrr en í september þar sem ársreikningar vel flestra fyrirtækja í verslun og þjónustu liggja fyrir.
Öðru máli gildir um skráð fyrirtæki. Þegar þróunin er skoðuð hjá smásölurisunum Högum og Festi sést að hagnaðarhlutfallið hefur frekar verið á niðurleið hjá Festi á meðan það hefur verið stöðugra hjá Högum þó svo að síðasta ár hafi verið gott í rekstrinum.
Þá mætti einnig benda formanni VR á að frá því að síðustu kjarasamningar á almenna markaðnum voru gerðir – samningar sem Halla telur hafa verið misheppnaða – hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist markvisst. Eins og fram kemur í nýjustu fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans þá jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna á árunum 2022 til 2024 mun hraðar en árin áður og á sama tíma lækkuðu skuldir heimila.
Við þetta má svo bæta að í umræðum um verðlag hér á landi er sjaldan vikið að þætti ríkisins í þeim efnum. Fjallað var um ræðu Eiríks S. Jóhannssonar, stjórnarformanns Haga, á aðalfundi félagsins í þessu blaði fyrir nokkrum vikum.
Í ræðunni benti Eiríkur á þau augljósu sannindi að baráttan við verðbólguna sé ekki ábyrgð eins hluta virðiskeðjunnar. Hún mun ekki skila árangri nema hið opinbera, framleiðendur og heildsalar ásamt smásölunni taki fullan þátt í henni.
Enn fremur sagði stjórnarformaðurinn:
„Það virðist hins vegar stundum gleymast í umræðu um dagvöru að verðlagning á
stórum hluta vörukörfu íslenskrar vísitölufjölskyldu, landbúnaðarvöru, er háð skipulagi framleiðslu og ákvörðunum stjórnvalda.Í því sambandi finnst mér full ástæða til þess að hvetja stjórnvöld til að gæta að stöðugleika og stuðla jafnvel að lækkun verðlags á dagvöru, annars vegar með ábyrgum opinberum rekstri og hins vegar með skynsamlegum ákvörðunum í skattlagningu og tollamálum.
Ég fullyrði, að því miður eru talsverðar líkur á að stjórnvaldsaðgerðir í íslenskum landbúnaði seinustu missera, muni leiða til hækkana á verðlagi á landbúnaðarvörum og er rík þörf á að allir aðilar fylgist vel með hugsanlegum verðbreytingum á komandi misserum.“
Leiðtogafundur NATO í Haag var að sjálfsögðu fyrirferðarmikill í íslenskum fjölmiðlum í síðustu viku sem og í heimspressunni. Við þá umfjöllun er í sjálfu sér fátt að athuga. Þó vakti umfjöllun Spegilsins, fréttaskýringaþáttar Ríkisútvarpsins, í umsjón Ævars Arnar Jósepssonar um niðurstöður fundarins athygli.
Í kynningu á umfjölluninni, sem flutt var á miðvikudaginn í síðustu viku, á vef Ríkisútvarpsins segir:
„Aðildarríki Atlantshafsbandalagsins, NATO, skuldbinda sig til að verja fimm prósentum af vergri landsframleiðslu til varnar- og öryggismála á ári hverju frá og með 2035 eða fyrr. Yfirlýsing þessa efnis var samþykkt á leiðtogafundi bandalagsins í den Haag í Hollandi 25. júní. Leiðtogar NATO-landanna fagna þessu, aðrir eru gagnrýnni.“
Það er vissulega rétt að margir fögnuðu niðurstöðunni á meðan aðrir hafa uppi efasemdir um hvort fjárhagur sumra aðildarríkjanna hreinlega komi í veg fyrir að þau nái að uppfylla þessi fyrirheit þegar fram í sækir.
Með öðrum orðum þá er margt að segja um niðurstöður fundarins og fjöldi áhugaverðra pælinga sérfróðra birst á prenti um margvíslega þætti málsins. Ríkismiðillinn sá aðeins ástæðu til þess að greina frá einu slíku sjónarhorni í Speglinum þetta kvöldið. Það var að finna á bloggi á heimasíðu bresku hugveitunnar New Economic Foundation (NEF).
NEF skilgreinir sig sem sósíalíska hugveitu sem leggur áherslu á að berjast fyrir borgaralaunum, almenningssamgöngum sem eru rekin af hinu opinbera og fjármagnað af skattgreiðendum og ríkisreknu húsnæðiskerfi. Án efa hljóma þessi áhugamál kunnuglega í eyrum hlustenda RÚV.
Vefurinn Influence Watch, sem er rekinn af Capital Research Center og hefur meðal annars það hlutverk að greina pólitísk tengsl ýmissa samtaka og hugveitna sem tala fyrir stefnumálum í opinberri umræðu undir hinum ýmsu höttum, segir þetta um NEF:
NEF hefur þrjú meginmarkmið:
Fyrsta markmiðið er að skapa „nýjan samfélagssáttmála“ byggðan á sósíalískum grunngildum. Það felur í sér að draga úr einkavæðingu í efnahagslífinu, stytta vinnuvikuna og hafna aðhaldsstefnu í ríkisfjármálum (fiscal austerity).
Annað markmiðið er að hrinda í framkvæmd Grænum nýjum sáttmála (Green New Deal) til að draga úr losun koltvísýrings. NEF heldur því fram að loftslagsbreytingar valdi „öfgaveðri“ og „uppskerubresti“. Samtökin segjast hafa verið hluti af upphaflega hópnum sem lagði til hugmyndina um Green New Deal árið 2008.
Þriðja markmiðið er að skapa það sem þau kalla „lýðræðislegt hagkerfi“, þar sem efnahagslegt vald yrði komið í hendur nýrra borga- og svæðisvalda. Sem hluti af þessu markmiði hvetur NEF einnig til eflingar verkalýðsfélaga og samvinnufélaga í eigu starfsmanna.
Hvað um það, umfjöllun Ríkisútvarpsins fjallaði um gagnrýni starfsmanna NEF um að verið væri að auka útgjöld til varnarmála á sama tíma og heimurinn er á vonarvöl vegna hamfarahlýnunar. Frekar ætti að verja auknum útgjöldum til grænna fjárfestinga. Þetta er svo sem sjónarmið en fráleitt af ríkismiðlunum að telja að það sé það eina sem vert er að halda á lofti eftir leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 2. júlí 2025.