Það getur verið áhugavert að skoða ofan í kjölinn það orðalag sem fréttamenn nota þegar þeir greina lesendum frá málum.
Í byrjun desember var fjallað um stöðuna á raforkumarkaði á vef Ríkisútvarpsins. Miklar hækkanir hafa orðið á raforku á undanförnum misserum enda hefur framboð framleiðslunnar ekki haldist í hendur við umsvif í efnahagslífinu og fólksfjölgun.
Í frétt Ríkisútvarpsins er fjallað um verðþróun á uppboðsmarkaði með raforku sem félagið Vonarskarð rekur. Þar er fjallað um hækkanir og væntingar um frekari hækkanir. Í fréttinni segir:
„Heildsalan fer fram á markaði Vonarskarðs og í júlí birtust hækkanir þegar viðskipti urðu með rafmagn til afhendingar næstu tvö árin. Þeir sem þekkja til markaðarins á Vonarskarði segir að þar birtist fyrirboðar um allt að 20% hækkanir. Meðal annars í nýlegum viðskiptum nú í lok nóvember þar sem kaupendur hækkuðu verð fyrir rafmagn í vetur og það þykir benda til að til séu notendur að raforku í smásölu sem vilji borga umtalsvert hærra verð en hingað til hefur tíðkast á almennum markaði.“
Þessi fullyrðing um að það séu til einhverjir dularfullir kaupendur þarna úti sem hafi einhvern sérstakan áhuga á að borga hærra verð fyrir raforku er ótrúverðug. Það er sjaldnast þannig að kaupendur taki einhliða ákvörðun um að hækka verð á vöru sem aðrir selja. Hvað þá á uppboðsmarkaði eins og Vonarskarð sér um. Þar bjóða kaupendur það sem þeir eru reiðubúnir að borga til að fá vöruna afhenta, þannig gengur það fyrir sig þar til markaðsverð myndast.
Annars fjallar frétt Ríkisútvarpsins að stærstum hluta um áhyggjur forsvarsmanna Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum af stöðunni á raforkumarkaði. Tala þeir fyrir að markaðnum verði skipt upp – það er að segja sérmarkað
stórnotenda og svo almennan markað. Ekki verður séð í fljótu bragði hvaða vandamál slík skipting myndi leysa þar sem rótin liggur eftir sem áður í framboðsskorti.
Áhrif skortsins eru áþreifanleg. Eins og fram kemur í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins endurspeglar hækkunin á raforkumarkaði þá stöðu að raforkuframleiðsla hefur ekki haldið í við vöxt og viðgang samfélagsins, þar á meðal fólksfjölgun:
„Ástæðan fyrir þessu er kyrrstaða í raforkuöflun á síðastliðnum 10 til 15 árum. Þetta aðgerðaleysi kostar samfélagið mikið sem birtist nú í hækkun raforkuverðs. Hefur meðalverð raforku Landsvirkjunar til stórnotenda án flutnings hækkað um 32% frá 2019 til 2023 og á sama tíma hefur meðalverð forgangsorku án flutnings hækkað um 34%. Þessi staða hefur einnig valdið umtalsverðu tapi á útflutningstekjum Íslands, þar sem Landsvirkjun hóf raforkuskerðingar til stórnotenda undir lok árs 2023.“
Vandinn er sem sagt ekki nýtilkominn. Fjölmiðlar hafa ekki fjallað mikið um áhrif orkuskortsins á útflutningstekjur efnahagslífsins en þau eru umtalsverð eins og Samtök iðnaðarins hafa bent á. Lágt raforkuverð hefur lengi verið sá framleiðsluþáttur sem hefur lagt hvað mest til að treysta samkeppnishæfni útflutningsgeiranna hér á landi.
Stjórnarmyndunarviðræður Flokks fólksins, Samfylkingar og Viðreisnar standa yfir eins og allir vita. Eins og svo oft áður halda formenn flokkanna spilunum þétt að sér og fjölmiðlar hafa frá litlu að segja dagsdaglega um framgang viðræðnanna. Heimir Már Pétursson, fréttamaður á Stöð 2, hefur væntanlega haft þetta í huga þegar hann fékk Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Þorstein Pálsson í þátt sinn Samtalið í síðustu viku.
Evrópumálin voru fyrirferðarmikil í þættinum. Í endursögn Vísis á máli Þorsteins í þættinum segir:
Þorsteinn segir stöðu efnahagsmála mun verri en fráfarandi ríkisstjórn hafi látið í veðri vaka. Aðild að Evrópusambandinu yrði liður í að leiðrétta mikið kerfisvandamál á Íslandi þar sem eyða þyrfti stórum fjármunum til að halda uppi gengi krónunnar.
„Vextir verða að vera mun hærri hér en í grannlöndunum til að halda uppi gengi krónunnar. Það veldur ekki bara erfiðleikum hjá þeim sem þurfa að borga þessa vexti, það veldur líka miklu misrétti í samfélaginu,“ segir Þorsteinn og ber saman kjör almennings á innlendum lánamarkaði og fyrirtækja í sjávarútvegi sem geri upp í evrum.
„Verkakona í frystihúsi þarf að borga þrefalt hærri vexti af íbúðinni sinni en en eigandi frystihússins þegar hann fjárfestir. Það er tímaspursmál hversu lengi þjóðin þolir þessa mismunun,“ sagði Þorsteinn í Samtalinu.
Þetta er sérstakur málflutningur. Hann er eiginlega fráleitur og í litlum tengslum við raunveruleikann. Sé flett upp í vefsíðunni Aurbjörgu sem ber saman kjör á fasteignalánum sést að hægt er að fjármagna íbúðarkaup um þessar mundir á óverðtryggðum föstum vöxtum á bilinu 8,5-9%. Eðli málsins samkvæmt munu þessi kjör skána eftir því sem vaxtalækkunarferli Seðlabankans vindur fram.
Vextir á fasteignalánum eru breytilegir frá einu Evrópulandi til annars. Þannig voru þeir tæplega 4% í Þýskalandi á fyrri helmingi þessa árs, 4,6% í Grikklandi, 4,2% í Hollandi og tæplega 5% í Danmörku samkvæmt gögnum af vefnum Statista.
Þrátt fyrir að draga mætti þá ályktun af orðum Þorsteins að íslenskir frystihúsaeigendur fjármagni sig beint á millibankamarkaði í evrum mun það ekki vera raunin. Íslenskum fyrirtækjum stendur til boða fjármögnun með 150-400 punkta álagi ofan á vexti á millibankamarkaði með evrur sem eru nú um 3%.
Þátturinn Víðsjá hefur um árabil fjallað um menningu og listir á Rás 1. Gegnum tíðina hefur þátturinn verið vettvangur pistlahöfunda sem oft má hafa gaman af. Sérstök ástæða er til að vekja athygli á pistli sem Magnea Guðmundsdóttir arkitekt flutti í þættinum í síðustu viku.
Í pistlinum rekur arkitektinn hvernig örlagarík heimsókn hennar ‚i skemmtigarð Walt
Disney í Flórída í æsku hefur mótað afstöðu hennar til nýbyggðs miðbæjar Selfoss. Disneydýrin orkuðu ekki sterkt á hana og fannst arkitektinum þau vera ósannfærandi: „Disney er ekki staður fyrir efasemdafólk,“ segir pistlahöfundurinn.
Að mati pistlahöfundar er ábyrgð þeirra sem standa fyrir uppbyggingunni í miðbæ Selfoss mikil. Mjög mikil. Í pistlinum segir:
„Núna stöndum við á tímamótum og okkar helstu áskoranir eru loftslagsmál og geðheilbrigðismál. Við vitum að byggingariðnaðurinn ber ábyrgð á stórum hluta loftslagsvandans og hver veit hvaða ábyrgð hann ber á geðheilbrigði okkar.“
Svo mörg voru þau orð.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins.